Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Miðvikudagur, 22. ágúst 2007
Kennari kemur í heimsókn
Nú var rúmlega áratugur síðan þau hjónakornin höfðu hafið fátæklegan búskap. Hún mundi hversu stolt hún hafði þurrkað af samviskusamlega tvisvar í viku, skúrað og skrúbbað gólf og skipt á rúmi líkt og um 5 stjörnu hótel væri að ræða. Hún mundi eftir að hafa tuldrað niður á stækkandi magann "hjá þér mun alltaf vera fínt og flott" ;)
Eftir komu prinsessunnar var erfiðara að halda staðli 5 stjörnunnar og eftir því sem fermetrarnir urðu færri og fjölskyldumeðlimir fleiri - þeim mun slakari urðu kröfurnar og tilgangur snyrtimennskunnar virtist harla tilgangslaus... og að lokum virtust allir meðlimir hafa það gott jafnvel þótt skipt var á rúmum eftir hentugleika og þurrkað af ef ýtrustu nauðsynar krafðist - og þannig breyttist forgangsröðunin og ljúfar samverustundir tóku við af nöldri um ajax, þvol, punt og prjál.
En nú var svo komið að stóra ofurfjölskyldan var flutt út á land. Í fyrstu átti húsmóðirin erfitt með að benda á það sem henni fannst öðruvísi hér en því sem hún var vön. Auðvitað var fólk hér eins og annað fólk- nándin var að vísu aðeins meiri en í Kaupmannahöfn eða Reykjavík. Hér bankaði pósturinn tvisvar áður en hann æddi inn með póstinn ( það tók dálítinn tíma fyrir húsmóðurina að uppgötva rútínu póstsins- bara svona upp á að vera ekki ákkúrat á klóinu þegar hann æddi inn:) - og það var bara allra fyrst sem henni fannst óþægilegt að fara í Vínbúðina, heilsandi sömu afgreiðslukonunni ( sem líka hafði verið með henni í mömmugrúbbu) sem útlistaði fyrir henni hversu mikinn bjór húsmóðirin hefði keypt þann mánuðinn..... allt þetta skrifaði húsmóðirin á nánd sveitarómantíkurinnar og opnaði sátt faðm sinn fyrir þessari lífsreynslu...
En nú var komið að því að koma miðstráknum í skóla - spennt biðu þau hjónkornin eftir persónulegri símhringingu frá kennara drengsins - því þannig tíðkaðist það hérna... biðu eftir samtali þar sem þau fengu að vita næsta skref í innvígslu stráksa í skólakerfið - og loks kom hringingin sem þau höfðu beiðið svo óþreyjufull eftir "ég, mun koma á morgun í heimsókn og ræða við ykkur foreldrana og strákinn líka - hvernig hentar kl:17???)
Sveitt, líkt og hún væri að taka þátt í sjálfu Reykjarvíkur maraþoninu, hljóp húsmóðirin um íbúðina strjúkandi versta skítinn og sópandi upp möl og sandi (sá litli var nýbyrjaður í leikskóla) tuldrandi fyrir munni sér "af hverju í ósköpunum er ég ekki að nýta minn dýrmæta tíma í vinnu eða jafnvel lesturs" Nú mega lesendur ekki halda að húshaldið hafi verið vanrækt, saman hafði fjölskyldað tekið samviskusamlega um helgina - en það var þannig að þeir c.a 15 fermetrar sem reiknuðust á mann hér - virtust magna upp skít og draslaragang (7 börn auka í kaffi og heimsóknum áttu líka sinn þátt í að sjúska heimilið til)
Hún settist niður og fékk sér kaffibolla og ilmandi kökusneið með (ekkert bíður fólk jafnvelkomið og ilmur af baksri) hún þurrkaði svitann og leit á klukkuna: 14:53 - kannski næði hún meira að segja að hekla smá blúndur - því hún hafði tekið eftir að eldhúsglugginn þeirra var sá eini í bænum sem ekki var dekkaður af ömmu-heklaðri blúndu.... það myndi áreiðanlega líta vel út ásamt kökuilminum, svona ef kennarinn væri þannig.
Húsmóðirin gekk frá ryksugunni og reyndi að líta á heimilið sömu augum og væntanlegur gestur - júbb þetta ætti að duga - allt til að tryggja gott orðspor drengsins inni á kennarastofunni.
Klukkan var 14:56 og hún reyndi að meina krakkahrúgunni inngöngu - það var farið að blása úti og þau höfðu verið dugleg að leika síðustu 3 klukkutíman. "Æji, greyin mín komið inn og fáið ykkur köku -ég var að baka. Tvö börn með sitthvora tvo gestina með sér, ruddust að eldhúsborðinu og nú var litli kallinn vaknaður líka. Hún leit á sand- og mölhrúguna sem myndaðist á gólfinu þegar hún tók hann úr vagninum og það var ekki laust við að geðveikislegt glott færðist yfir varir hennar
Kakan var búin.
Þriðjudagur, 14. ágúst 2007
Gulur = viðbúin, tilbúin...
Það fór um hana kuldahrollur og enn meiri varð örvæntingin þegar hún var hætt að sjá í næstu stiku. Þoka og súld, rigning og rok og aðeins 6 stiga hiti og nú var vegurinn aftur horfinn, svona ætlaði þá blessaður ágústmánuðrinn að fara... í rok og rassgat!!! Húsmóðirin var á leið heim eftir fund - hún reyndi að setja stopp á hugsanir sínar til að forðast þess að keyra yfir rollurnar sem héngu aulalegar við vegkantinn.
Fagridalurinn var farinn að breyta um lit og græni ferskleikinn sem hafði verið svo hressandi í sumarblíðunni, var farinn að roðna og það var eins og gular vegstikurnar kepptust við að falla inn í umhverfið - þokan varð æ þéttari.
Hún minntist þess, fyrir aðeins ári síðan, nýflutt í þetta ótrúlega póstkorta-landslag, hversu djúp áhrif haustlitirnir höfðu haft á hana - og hún hafði fyllst ólýsanlegri ættjarðarást og lotningu. Nú kveið hún vetrinum, og á hverjum morgni sá hún æ fleiri gulnuð laufblöð á trjánum fyrir utan gluggana á húsinu þeirra. Haustið skreið hraðar yfir svæðið - hraðar en hnausþykk austfjarðarþokan og minnti hana ískyggilega á eigin æsku sem smátt og smátt var byrjuð að sýna einstaka gulleit blöð.
Rigningin lamdi á rúðu bílsins og nú var hún alvarlega að spá í að stoppa úti í vegarkanti - bíða eftir að rokið gengi yfir - en hún vissi að hú þyrfti að halda áfram. Þrátt fyrir að umferðarljósin væru engin hér þá voru önnur fyrirbæri sem sáu um að reka mannskepnuna áfram - hún flautaði á ráðvillta kind með lömbin sín tvö og horfði á dýrin spretta út í berjamó. Inn á milli gulu blettann sá hún glitta í svört og blá berin og hún glotti yfir eigin sjálfsvorkun.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. júlí 2007
Madame Bouvarie og Harry elskhugi hennar
Hún heyrði vatnsdropa leka einhvers staðar langt í burtu - eins og kæft víðs fjarri - hún steig fram úr rúminu og fann sig í vatni upp að öklum - sprungur alls staðar í lofti stofunnar og vatn sem seitlaði silfrað niður á gólfið.......húsið var stórskemmt og vatnið frussaðist nú yfir stofuna með eyðileggjandi kröftum sínum.....
.... það var kominn morgun og húsmóðirinn hafði vaknað enn einu sinni við sama óþægilega drauminn - "hvað ætli þetta merki allt saman?" hugsaði hún með sjálfri sér á meðan yngsti fjölskyldumeðlimurinn dró hana að morgunverðarborðinu. Fuglasöngur og rjómablíða var orðið að venju frekar en undartekningu hérna á Austurlandinu og hún varð að viðurkenna að bóndabrúnkan fór henni nokkuð betur en grámuggulega litararft vetrarins. Þrjú pör af svörtum augum í bóndabrúnkuandlitum - misstórum - litu glaðlega til hennar og hún fann fyrir ómældu þakklæti til æðri máttarvalda, fyrir þetta ríkidæmi sitt.
Eftir annir morgunsins settist hún niður með kaffibollann og hafði loks tíma til að velta draumnum fyrir sér. Samkvæmt öllum kokkabókum átti draumurinn ekki að boða neitt gott - bældar tilfinningar, flótti og þunglyndi og svo ekki sé talað um heimilislíf í molum - allt þetta las hún út úr draumnum - eða réttara sagt martröðinni, sem hafði verið að angra hana síðastliðnar nætur.....
Nætur og dagar liðu - og martröðin varð sífellt ásóknari - en það undarlegast við þetta allt saman var að henni hafði sjaldan liðið jafn vel; flestir í sumarfríi á heimilinu, sólin skein og lék við hvern sinn fingur og hún hafði náð síðast eintakinu af Harry Potter í bókabúðinni.....
Já Harry Potter - hinn leynilegi elskhugi húsmóðurinnar síðastliðinn áratuginn - hún átti erfitt með að slíta sig frá æsispennandi frásögninni af galdrastráknum hugdjarfa - og það var ótrúlegt hve stutt henni fannst síðan hún hafði kynnst honum - en nú var liðinn nær áratugur og börnin hennar, ásamt heimilisföðurnum voru sammála um að bækurnar ættu ekki að verða fleiri..... hún leit yfir stofuna - jú, hún var í rúst - bræðurnir höfðu nýlokið við að dreifa úr leikfangakössum og það var hægt að sjá á slóðinni hvað þeir höfðu fengið að borða í hádeginu.......og hvar var heimasætan - hafði hún komið heim í hádeginu???
Húsmóðirin áttaði sig allt í einu á því að hún hafði vanrækt bú og börn vegna galdrastráksins prúða og vissi að hún var engu skárri en húsmæðurnar forðum sem flúðu inn í ímyndunarheim skáldsögunnar (fordæmdar af Ibsen og öðrum pirruðum karlskáldum) - þvílík snilld - á einu andartaki var hún komin aftur í tjaldið með Harry, Ron og Hermione og hún fann fyrir kulda og depurð Dementorana sem voru rétt á hæla þríeykisins..........
...hún sleit sig frá bókinni í stutta stund og gat ekki látið þá hugsun vera - að kannski ætti Harry einhvern þátt í martröðum síðastliðnu nátta.
Þriðjudagur, 19. júní 2007
92 ár kvenfrelsis og jafnræðis....
19. júní var runninn upp - og ekki laust við að húsmóðirin ætti erfitt með að velja sér bleika flík í tilefni dagsins .... ekki það að úrvalið væri ekki fyrir hendi, heldur hafði hún alltaf látið það fara í taugarnar á sér þegar henni var sagt fyrir verkum - málum daginn bleikan ok - fínt framtak það.
Þessi þrjóska hafði svo sem ekkert háð henni, hvorki í starfi né heima við - enda var hún alltaf sanngirnin uppmáluð og gerði allt fyrir þá sem gerðu allt fyrir alla ..... en það var alltaf e-ð sem hún lét fara í taugarnar á sér - þetta með að "allir í þessum hópi ættu að taka sig saman og gera e-ð saman" - þannig væri fyrirfram búið að greina og flokka ólíka einstaklinga niður í fyrirfram merkta kassa og búið að skammta þeim baráttumálefni og kröfuspjöld.... hún vildi helst finna upp á sínum baráttumálum sjálf.
Hún tók sér dulitla pásu frá vinnu til að kíkja á sólina - af svölunum sínum. Falleg sumarblómin voru útsprungin og hún horfði á þau með móðurlegu stolti.... enda þótti henni ekkert eins fullnægjandi og að horfa á e-ð vaxa og dafna. Hún minntis þessa dags fyrir áratug síðan - ósigrandi og með drauma um framtíð sem var ekki undir neinum kynjamerkjum komin - í barnslegri trú hafði hún haldið að með sinni kynslóð væri öllu eytt sem héti fordómar eða misrétti á Íslandinu góða - enda var ekkert því til fyrirstöðu en að sækja það sem hana langaði til - engin sem stóð í vegi fyrir draumum, vonum eða löngunum. Hún minntist líka hversu fljótt umhverfi hennar tók stakkaskiptum við að finna lítinn fót sparka og hversu hratt hefðir og gömul gildi rembdust við að eyða nýfengnu kvenfrelsi.
Hún var uppgefin - en sæl, henni fannst hún hafa hlaupið á höndum í 10 ár - alltaf þurft að sýna fram á að það væri hægt að eltast við draumana en um leið að búa öllum vel í haginn og já, í raun halda í hefðir og gömul gildi.
Það var liðið nær ár síðan þau hjónin höfðu stokkið á vit ævintýrann og hún var enn sár yfir þeim "jafnréttissinnum" sem hún hafði mætt hér á Íslandinu góða. Karlar og konur skrifandi í blöð og tímarit, gasprandi og sussandi yfir misrétti og óréttlæti yfir konum tengdu Austurlandi tækifæranna - e-ð þurfti að finna að gera fyrir aumingjans kvensurna á meðan kallarnir þeirra þræluðu fyrir búi og börnum!! Einn maður gekk meira að segja svo langt að aumka sig yfir aumingjans húsmóðurina spyrjandi með hryggð í augum "hvað ætlar þú eiginlega að fara að gera??.... eltandi kallinn svona út á land??" Yfirlýstir femínistar hrópandi vandkvæðisorð yfir menn sem draga aumingjans kvensurnar á asnaeyrum til þess eins að sitja heim að hugsa um börnin - þessi móttaka hafði fengið húsmóðurina til að efast um sönn gildi femínista, hvar vorum við nema á villigötum ef það átti að "finna eitthvað að gera" fyrir konur - rétt eins og að konur hefðu ekki vit á að finna upp á því sjálfar ( henni fannst þessi umræða jafn fáránleg og að ríkið þyrfti að "finna eitthvað að gera" fyrir þetta fólk úti á landi - annars myndi það flýja landsbyggðina ;)
Henni var orðið heitt í hamsi - enda alltaf þurft að berjast út af stimpilglöðum einstaklingum sem vildu eyrnamerkja hana: móðir? hversu margra barna? titill? hversu margar vinnustundir? laun? afrek? útlit? hæfileikar? gáfur? hvar á að byrja að mæla og meta?
Hún hafði oft verið ráðvillt yfir þessu kærkomna kvenfrelsi - sem íslenskar konur bjuggu yfir - og hún vissi að hún var ekki ein um það. Í hverju felst frelsið - snýst það um að láta aðra ákveða baráttumálin fyrir sig - eða snerist það um frelsi einstaklingsins til að velja og skapa.
Hún kláraði kaffibollann og minntist orða góðrar konu fyrir áratug síðan: "ekki brosa of breitt þá taka þeir ekki mark á þér - en ekki sleppa því að brosa þá verður gengið fram hjá þér" :)
gott fólk - Til hamingju með daginn og í gvöðana bænum klæðist bara því sem þið viljið
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 17. júní 2007
Þjóðhátíðardagurinn
Þá var fyrsti þjóðhátíðardagur fjölskyldunnar góðu liðinn - á sjálfu Íslandi. Ja, svona fyrsti í langan tíma - þeir bræður, fæddir og uppaldnir í Danaveldinu - höfðu aldrei áður fengið að kynnast þjóðarstoltinu beint í æð - og varla hægt að segja að heimasætan hefði munað 2svar sinnum frekjuköstin sem hún framkvæmdi svo listarlega í sykurvímu á Ingólfstorgi, fyrir nær áratug síðan :) Fyrstu árin, eftr að þau fluttu til Danmerkur höfðu þau reynt, með miklu stolti, að fagna 17. júní með öðrum íslendingum, niður á Amagerströnd- en það haðfi e-n veginn aldrei verið ekta - pylsurnar bara danskar og rauðar og ekki minntist húsmóðirin þess að hafa grillað eða þambað öl til að fagna afmæli lýðveldisins á Íslandi ?? eftir tvö ár gáfust þau upp og létu sér nægja kærkomin símtöl nánustu fjölskyldumeðlima sem báru þeim fagnaðarkveðjur frjálsrar þjóðar ....
En, nú var s.s komið að því - loksins - að hjónakornin gætu kynnt börnum sínum -- komandi kynslóð - erfingjum þessa lands - já kynnt þau fyrir því ógnarmikla stolti sem fylgdi þjóðhátíðardeginum OKKAR!!! Að vísu runnu þau svolítið blint í sjóinn hér - því hér á Héraði var engan sjó að finna hvað þá að þau væru kunnug Þjóðhátíðarhefðum þessa landshluta..... En með bros á vör og aðlögunarhæfni að hætti víkinga arkaði fjölskyldan af stað - stefnan var sett á skrúðgöngu bæjarins - sem að sögn átti að verða mikið betri en í fyrra - enda var þá enn óstöðugleiki og kapphlaup um mannsálir per bæjarstæði - EN nú blómstraði bærinn af ungu fólki - og heyrst hafði að jafnvel myndi lúðrasveit leika fyrir skrúðgöngunni....
Hún þekkti engan en kannaðist þó við mörg andlit - það var ekki hægt annað en að þekkja nær öll andlit bæjarins - hún kinkaði kolli til dagmömmunnar, kunningjafólksins, kennaranna, nágrannanna, leikskólastýrunnar, konunnar (sem alltaf afgreiddi hana á kassanum í Bónus) þjónustufulltrúans..... og áfram arkaði skrúðgangan af stað - án þess að reyna að vera illkvittin þá kraumaði í henni hláturinn þegar hún mældi út undan sér lengd skrúðgöngunnar - maður sá ákkúrat fyrir endanum (og byrjuninni) á skrúðgöngunni.
Hún rifjaðu upp hversu tilkomumikið henni hafði fundist - sem krakki - þegar einkennisklæddir lögreglumenn, skátar og fánaberar höfðu arkað fram hjá í mannmergðinni - hún minntist þess sem lítil stúlka hversu vel henni leið í troðningum, haldandi í hönd pabba og suðandi yfir gasblöðrum og nammisnuddum - og hún fékk allt sem hún vildi - enda ekki á hverjum degi sem Ísland átti afmæli. Og síðan var sest í grasið og horft á skemmtiatriðin og það var alltaf gott veður :)
Í dag var kalt - skítakuldi og þau reyndu eftir besta megni að láta börnin upplifa þá gleði og það stolt yfir landi og þjóð - sem þau sjálf söknuðu svo mikið þessa dagana... en þrátt fyrir nammisnuddur, gasblöðrur og skrúðgöngu var þessi þjóðhátíðardagur eins og léleg eftirlíking af nostalgísku frekjukasti
Hún strauk yfir klístruð andlitin og kyssti góða nótt - hún átti erfitt með að halda aftur af tárunum því í hverju húsi glumdi við gleðihlátur ættingja og vina - og allt í einu var Ísland svo ógnarstórt og þau svo afskaplega ein.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 8. júní 2007
Sumarið er tíminn
Það var ekki um að villast. Sumarið var komið til að vera - svona á alíslenskan mælikvarða allavegna. Bærinn tók við sér og í fyrstu átti húsmóðirin erfitt með að benda sérstaklega á það sem var öðruvísi. Jú mikið rétt - tilveran var öllu bjartari með sundferðum, gönguferðum, fjallaferðum , ferðum á firði og birtu - ó blessuð íslenska sumarbirtan, hún var örugglega fundin upp af Skaparanum til að eyða allri eymd vetrar og skammdegis, en það leið samt nokkur tími þar til Húsmóðirin góða fann í hverju tilbreytingin fælist...
Túristar. Þeir höfðu byrjað að skríða inn með Norrænu í maí mánuði - fyrst eitt og eitt Færeyskt hjólhýsi en síðan komu allir hinir, flykktust á eftir til að kanna hina ósnortu náttúru okkar íslendinga. Það var ekki frá því að Húsmóðirin þyrfti að halda aftur af sér í sundlauginni heyrandi gömlu góðu dönskuna talaða í heitapottinum - hún brosti lúmsk yfir því að skilja allt raus ferðamannanna um okurprísa á matvörum hérna og hrollinn, sem þrátt fyrir heitu laugarnar virtist ekki geta hlaupið úr útlendingunum. Hún fylgdist líka með hræsninni í bæjarbúum brosandi og buktandi fyrir þessari dýrmætu tekjulind en fussandi og fytjandi upp á trýnið yfir pólverjum og öðrum útlenskum vinnudýrum sem biðu eins og þurfalingar í röð í Bónus - teljandi krónur og aura með undrunarsvip yfir að mánaðarlaun nægðu varla fyrir kók og prins póló.
Hún hristi hausinn, og hélt gönguferðinni áfram - vinnan var að angra hana - hún sat föst, pikkföst í einu verkefninu - "ætli Egilsstaðir séu tilbúnir fyrir mig" hugsaði hún með sér, glottandi yfir eigin ágæti og hroka ....eða var þetta kannski öfugt. Hún arkaði áfram leiðina sína í sól og blíðu en auðvitað í skítaroki - þetta var nú Rokland eins og Hallgrímur Helgason hafði orðað það svo snilldarlega. Upp, upp, já upp á hól sem var nú langt yfir Himmelbjerginu blessaða og nú sá hún hvar höllin þeirra gnæfði upp á bjarginu, já þarna mátti með sanni segja að Krummi byggi í klettagjá, eð kannski Beverli Hills - svo mikið fannst henni um ríkidæmið þeirra..... áfram yfir veginn sem lá til Seyðisfjarðar.... hún leit á 4 gáma sem þar stóðu: þrír þeirra voru sjúskaðir en sá þriðji hafði greinilega fengið meik óver... fagurgrænn blasti hann við Húsmóðurinn þar sem hún stóð við göngustíginn, blóm og kryddjurtir voru í skítugum og hálfbrotnum krukkum fyrir utan dyrnar.... þarna bjó greinilega e-r..... hún gat ekki staðist það að kíkja á glugganan - enginn!! enda blessuð blíða fyrir utan... gat það verið að e-r byggi þarna , í 20 fermetra gámi ??
...hún leit út af svölunum sínum þetta kvöld og sá glitta í nágranna sína í gegnum skítugar rúður gámsins - þarna bjuggu konur, karla og börn á öllum aldri .... og hún vissi að þarna höfðu þau verið síðan í vetur.... hmmm... hnussaði í henni yfir óréttlæti heimsins, og húsmóðirin lokaði svalahurðinni á eftir sér.
Föstudagur, 1. júní 2007
og ALLT...
Hún þaut um íbúðina, alveg viss um að nú loksins - á þessum síðustu og verstu - þá væri hún að missa vitið. Það var meira en að segja það - þetta með að vera sjálfs síns herra - ("herra" hrökk óvart upp úr henni - af hverju var hún ekki sjálfs síns FRÚ!!) o, jæja - þetta með að vera undir sínum eigin hæl komin- það var meira en að segja það...... hvar var blessaður kaffibollinn, hún vissi að hún hafði lagt hann frá sér... og klukkan að verða fjórtánhundruð og þá, og þá á slaginu, myndi hún verða aftur að öskubusku eða var það meira eins og Lísa í Undralandi - eða kannski Hattarinn - hann sem var alltaf á þönum en gerði svosem ekki margt - allavega þá var tíminn enn og aftur að hlaupa frá henni......
...og tíminn var að stríða henni í fleiru en vinnu og streði - sá í miðið var búinn að útskrifast úr leikskólanum núna og beið ekkert svo spenntur yfir að komast í það að hefja langa og mikla skólagönguna - sá minnsti, hins vegar beið spenntur eftir að reyna fyrir sér í leikskóla- fannst hann nógu stór til að ekki vilja leiða mömmu sín eða bara geta allt sjálfur!! og prinsessan - hún hafði fyrir löngu kveikt í minningaeldi húsmóðurinnar... hvað voru svosem hálf ævi eða heil í samanburði við reiknislist himintunglanna.....
hún varð að hætta þessum heimspekilegu vangaveltum, sem gerðu ekkert nema tefja fyrir lífsins hversdagslegum gangi - fara til tannlæknis sinnum þrír jafnvel fjórir - ó já, svo var það nesti og e-r þurfti nýja skó og svo var það Bónus og bensín og borga nýjar skuldir og slappa af í baði.....og ALLT..
Hún stoppaði á tröppunum og lét innkaupapokana síga hægt niður, og ekki langt frá heyrðist í ánægðum hrossagauki... hann sperrti stélið og gaf frá sér svo alíslenskt vorhljóð að húsmóðurinni vöknaði eilítið um hjartað....jamm "this is it" hugsaði hún með sér - og það var ekki laust við að eirðarleysi mánaðarins væri enn til staðar.... hún fékk heimþrá en hún vissi ekki hvert - ætli það sé ekki svona sem beljum líði rétt áður en þeim er hleypt út - vaðandi úr einu i annað, nusandi af öllu sem fyrir verður, hlaupa í átt að e--u sem hlýtur að vera gott....
Með von um sumar sem mun lækna öll sár - júní er boðinn velkominn í hús.
Mánudagur, 14. maí 2007
Af barnaláni og sandkassaleikjum
Nú var mikið búið að gerast síðastliðnu vikurnar, enda maí mánuður yfirleitt einkennandi af eirðarleysi og óþreyjubið eftir sumri og hlýju. Húsmóðirin var meira en fegin að geta heimsótt Kaupmannahöfnina sína í viku - komast burt frá börnum og búi í smá tíma, en þó var það snjórinn og kuldinn sem hana hlakkaði mest til að losna frá.
Já, snjóskaflar og maí-hret... það er víst algengt á Austurlandinu og hún laumaðist til að glotta hæðnislega af "alltaf gott veður hérna megin" - setningunni. Já það sem í fjarlægð hafði verið lofað og rómað að ferðafrömuða sið - það var nú orðið að alíslenskum köldum veruleika - veðrið á Íslandi er ekkert til að hrópa húrra yfir - og hana nú!!!!
En eins og húsmóðirin var fyrir löngu búin að gefast upp á veðurspám og þvíumlíku, þá var hún orðin enn þreyttari á pólitíkinni á skerinu litla - það að horfa á fullorðið fólk í sandkassaleik ofbauð svo húsmóðurinni að hún reyndi frekar að beina orku sinni að sandkassaleikjum sinna eigin barna, kjá þau og bía án þess að þurfa að hafa of miklar áhyggjur af verðbólgu, okurvöxtum, hagvöxtum og vaxtarverkjum þjóðarinnar.
"Ó sussum svei - hvar endar þetta allt saman?" sagði hún. Hún var æ oftar farin að tala við sjálfa sig og stóð sig jafnan að því að vera þögulli á kvöldin þegar heimilisfólkið kom heim. "Kannski verð ég eins og Gísli í Uppsölum - stórskrýtin einbúi með rytjulegt skegg. Hún hló við tilhugsunina og þurfti enn og aftur að minna sig á það að hún var langt frá því að vera ein - börnin hennar þrjú voru væntanleg innan skamms úr skólum og frá dagmömmu ......
Hún rifjaði upp samtal sem hún átti við 12 barna móður - þær höfðu setið yfir kaffibolla þar sem sú barnmarga ameríska kona hafði boðið litlu fjölskyldunni í kvöldmat. "I like my children, they make sure of I am always buzzy, and I am never bored - they have teached me many things about myself"
Brosandi út í annað rölti hún ofurstuttum hænuskrefum á eftir yngsta erfingjanum - leiðin lá í sandkassann - og hún velti því fyrir sér hvort stjórnmálamennirnir gætu ekki lært e-ð af komandi kynslóðum.
Laugardagur, 21. apríl 2007
Krúttkynslóðin
Það var viðburðarríkt kvöld í bænum. Tónleikar sem yfirleitt voru bara haldnir í höfuðborginni góðu, voru nú komnir á ferðalag út á land og byrjaði jammið á Egilsstöðum. Hún beið örvæntingafull eftir barnapíunni. 17 ára glaðlynd stúlka - ekkert nema sakleysið og bláu augun, hafði reynst vel í þau örfáu skipti sem hjónakornin höfðu ákveðið að gera sér dagamun. Klukkan tifaði, hún var farin að örvænta - ekki vildi hún missa af þessum viðburði - hvað nú ef það yrði uppselt!!!
Stúlkan kom á slaginu. Það var annars konar glott á henni núna - enda var húsmóðirin fljót að átta sig þegar annað glott íklætt rauðum hanakambi stóð fyrir aftan hana. "Er ekki í lagi að ég sé með gest með mér" spurði hún biðjandi.
hmm.......hnussaði í heimilisföðurnum, því ólíkt hinni góðu húsmóður var hann (fyrir löngu) búinn að sætta sig við það að horfa á eftir hátindi æskunnar í baksýnisspeglinum. Enda gömul sál - ef marka mátti spákonuna sem spáði svo vel fyrir framtíð þeirr hjóna, fyrir langa löngu (samkvæmt þeirri spá áttu þau reyndar bara að eignast tvö börn og það seinna um fertugt og búa í USA og vera skilin stuttu seinna...... en það er nú önnu saga) Húsmóðirin "hélt það nú", enda rámaði hana í hversu leiðinlegt barnapíuhlutverkið var orðið þarna um 17 ára aldurinn - og nú var um að gera að halda þessari góðri enda ekki mikið úrval barnapía í bænum.
Hjónin rifjuðu upp fornar frægðir - þegar þau 17 ára pössuðu lítil systkini sín og önnur börn. Það færðist yfir þau glott og augngotur sem ekki má ræða um hér. Og þau voru dulítið slegin yfir því hversu tíminn hafði flogið frá þeim - hversu klisjulegt sem það kann að hljóma....
Hún gat ekki að því gert að hugsa til þessa allt kvöldið. Tónleikarnir liðu áfram ljúfsárir enda rjómi krúttkynslóðarinnar svokölluðu á sviðinu. Hún leit í kringum sig og fann allt í einu fyrir aldursmuninum. Allt í kringum þau sátu krakkar á menntaskólaaldrinum - jú einstaka andlit með gráum hárum og gleraugum var þarna inn á milli - en þá yfirleitt í fylgd með yngri útgáfum af sjálfum sér. Um hana greip sig mikill ótti og kaldur sviti rann niður bak hennar .... var það nú sem hún átti að fara að huga að lífeyrissparnaði, menntun barna sinna, spara fyrir tannréttingum og húsgrunni..
AHHHHHHHHHHHHHHHHH !!!!!!!!
...söng eitt krúttið upp á sviði, og hún barðist við að halda aftur tárunum. Hún gat ekki að því gert- henni leið eins og hún hefði misst af einhverri lest - hún vissi bara ekkert hvort sú lest hefði verið skárri kostur. Hún leit á heimilisföðurinn - hann virtist njóta kvöldsins - enda sjaldan sem hann fékk bara að sitja og halda í hönd húsmóðurinnar góðu - án þess að deila henni með öðrum.
Hún tók djúpt andann og sogaði að sér æskuna - allt í kringum. Hún saknaði ekki eins eða neins - þetta hafði bara verið enn eitt kvíðakastið - eða ætli breytingarskeiðið sé handan við hornið?? Hún varð þó að viðrukenna að 30 ára grýlan var farin að angra hana meira en hana hafði grunað....
hún kreisti hönd heimilisföðursins og naut þess að hafa skokkað yfir æskuna með honum.
Krúttkynslóð= á að vera e-s konar skilgreining á hinum nýju unglingum okkar tíma s.s aldur unglingsins er alltaf að hækka (nú er maður krútt allt til 36 ára) þetta hugtak er oft tengt við nýja tónlistarstefnu sem spratt út frá tónlist Bjarkar (Sigurrós, MÚM og.fl.ogfl) - En þetta hugtak var samt í gerjum mikið fyrr (sjáið t.d Friends liðið) fólk býr enn hjá mömmu og pabba komið langt yfir á þrítugsaldurinn, baslar við að finna sjálfan sig og lifa lífinu lifandi og glímir við þá staðreynd að tíminn gamli tekur ekkert tillit til þeirra.
Við hin sem einhverra hluta vegna misstum af þessari lest söknum þess ekki mikið að vera ekki krútt ;)
Fimmtudagur, 12. apríl 2007
Engin innistæða...
Hún dáðist af fjallasýninni á leiðinni heim af fundinum. Húsmóðirin góða var komin á kaf í félagslífið, landspólitíkina, foreldraráðin, viðskiptalífið og hitt og þetta sem greinilega var lífsnauðsynlegt að vera með í til að lifa af þann ógnarleiðinlega og snjóþunga vetur sem nú var að baki.
Hún hafði verið á leynilegum systrafundi - klíka sem ekki hverjum sem er var boðið að þiggja sæti í. Húsmóðirin góða hafði verið kosin inn með meirihluta atkvæða og hún gat ekki annað en velt því fyrir sér hvaðan þessi dýrmætu atkvæði kæmu eiginlega - ekki hélt hún sig þekkja svo marga hér.
En með ákveðnu stolti og staðfestu sem einstaka bjánar álpast til að fá í vöggugjöf, bætti hún nú þessu við á verkefnalistann, ásamt "já, ég sé til ..." þegar leikskólastýran bað hana heitt og innilega að koma í foreldraráðið - hún þekkti söluræðuna "..því það vantar svona ferskt og kraftmikið fólk eins og þig.." og um leið og hún gat ekki sagt hreint og beint nei - þá vissi húsmóðirin að hún var föst í snörunni ...
...og verkefnalistinn lengdist og lengdist, á ótrúlega nákvæmum hraða í takt við skuldir og visa reikningana sem virtust blómstra betur hér en í Danmörkinni góðu. Hún rifjaði upp fund sinn við bankastjórann - fyrir skömmu - þar sem þeim hjónakornum var hampað fyrir að skulda svona mikið. Eitthvað það flottasta "skuld" bæjarins sögðu púkarnir með tvíræðu glotti og áður en þau gátu sagt "augnablikk" þá voru þau orðnir sjálfkjörnin Platínum- heiður- kúnnar bankans útleyst með gjöfum og blöðrum.
Hún velti fyrir sér þessari miklu innistæðu sem fólk, bankar og stofnanir hérna héldu að hún byggi yfir. Hún vissi fyrir víst að bankareikningarnir voru ekki upp á marga fiska, sárir og þjáðir eftir húsnæðis- og bílakaup, svo ekki sé minnst á námslánin góðu. Hún velti líka fyrir sér hvort leikskólastýran hefði veri jafn áköf að fá hana í ráðið hefði hún verið vitni að öskrum og uppgjafar hótunum húsmóðurinnar við yndælu börnin sín - aðeins 10 mínútum fyrr... eða þá hin leynilega systraregla sem líkt og aðrir höfðu nýverið krýnt hana "besta í sinni grein" og, já ef ekki bara "besta á landinu" - allt þetta án þess að hafa hugmynd um hvórt e-r hæfileikar lægju að baki þessarar annars þreytulegu húsmóður.....
hún velti þessi öllu fyrir sér á meðan hún leit út um bílrúðuna - og var fegin að geta allavegna sent sjálfri sér yfirlit... þrátt fyrir litla innistæðu
hilsen til allra og viva la springtime