Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Memórís

Ég er ennþá að flytja! Þetta hljóta að fara að verða lengstu flutningar sögunnar: ef ég er ekki að flytja búslóð á milli landa, pakka í kassa, teipa saman kassa, raða - flokka - henda fötum, henda - flokka - raða skóm um skó frá skóm til skóatralalallalallaaaa (já, hvaðan koma allir þessir skór?)....þá er ég að pakka upp úr öllum þessum kössum og fatapokum, raða og flokka flokka raða raða flokka FOKK hvað þetta er leiðinlegt - svo ekki sé minnst á alla millibils flutningana og pakkningarnar við að koma 5 manna fjölskyldu í; útilegu, í sumarbústað í heimsóknir og í sund og í íííííííííííí ok smá yfirbrennsla - en ég verð að segja að þetta er ekki skemmtilegt :)

Flutningarnir frá Danmörku er hausverkur sem fer minna fyrir núna, í staðinn hefur tekið við hinn gríðarlegi verkur við að safna saman öllu okkar hafurtaski sem var skilið munaðarlaust eftir út um víðan völl þegar við fluttum til Danaveldisins..... það er ótrúlegt hvernig verðmætamatið hefur snobbast upp á 6 árum - allt það sem bara varð að geyma ÞÁ, hefur miskunarlaust fengið að fljúga í sorpu eða í góða hirðinn  - og það er af nógu að taka - skór og föt og föt og skór, já, jafnvel leiðinlegar bækur hafa fengið að fara (og ég sem hendi ALDREI bókum) en það er eins og maður orki ekki að huga að öllu þessu dóti - hvað þá að finna því verðskuldað heimili

En minningarnar (memórís tral la lallaaa (sungið a la söngleikurinn Cats) þær streyma á móti manni þegar tekið er upp úr öllum þessum kössum. Ég man eftir hverri einustu bók sem ég tek upp, strýk yfir litlu börnin mín sem ég hef haft nagandi samviskubit yfir að hafa skilið eftir á rykföllnum háaloftum. Ég man hvað ég hreifst við að lesa Hundrað ára Einsemd og gat ekki beðið eftir að lesa hana aftur og aftur, ég man eftir hughrifunum þegar ég komst að því að öll skilningarvitin geta verið virk við að lesa teksta - þegar Ilmurinn kom manni til að þefa af viðbjóðnunm í sjálfri sögunni ég man og ég man.... og ég man EKKI - var löngu búin að gleyma að  ég hélt dagbækur í tonnatali, allt sem ég hafði samviskusamlega skráð í litlar stílabækur sem líta það sakleysislega út að þær voru næstum komnar á kaf í svartan ruslapoka - sökum lítillætis síns.

Það er skrýtið að setjast niður og rifja upp minningarnar, ég fletti feimin í gegnum dagbækurnar og það er ekki laust við að mér finnist ég vera að kíkja inn í líf einhverrar annarar manneskju - það er ekki alltaf sem maður er jafn opinskár við sjálfan sig og þegar maður skrifar skilaboð sem enginn annar á að fá að sjá.......ég gleymi mér í  hugmyndum um framtíðina, sögum af kærasta(um), vandamálum (sem virðast smávægileg í dag en voru SVO stór;) sorgum, gleði og öllu öðru sem heilinn var fyrir löngu búinn að flokka - raða og geyma.....

geyma, ég bít á jaxlinn og þrjóskast við að flokka draslið áfram, veg og met og bý til lítil tímahylki - og gæli við þá hugmynd að seinna meir muni ég fara í gegnum draslið á ný, raða - flokka og geyma og gleyma mér í djúpi minninganna....


p.s það væri gaman að fá að heyra í ykkur þarna úti ( ég veit hver þið eruð múhahahahahhhahahhaha) búum til fleiri memórís


Á 1. sætið stefni ég :)

Ó, já - húsmóðurraunirnar halda áfram...... það er næstum ekkert eins fullnægjandi og að setjast niður með fyrsta kaffibolla dagsins (svona um kaffitímaleytið) ennþá með hárið lufsulegt og ennþá í heimilisjogging -gallanum - já vinir og vandamenn, ég hef staðið mig að því síðastliðnu vikur að koma mér upp heimasetti!!! Þetta er alls ekki eins flott eins og að eiga heimabíó - þvert á móti þá er þetta eitt af því fáu sem ég hafði alltaf svarið að gera ekki. Hérna áður gat ég alveg eins tekið upp á því að skella mér í sætt pils og setja upp á mér andlitið , þrátt fyrir að ég vissi að það væri enginn nema ég og jú, heimilisfólkið sem myndi bera dýrðina augum.....í dag er hins vegar annað upp á teninginn.... ég er s.s búin að koma mér upp heimadressi - hómí átfitti sem nánast hoppar á mig þegar ég kem inn úr dyrunum ´

- (hérna vantar ef til vill smá lýsingu á dressinu sem samanstendur af) :

útjaskaðar ljósgráar joggingbuxur (áttu að vera J-Lo buxur einhvern tíma í brjálæðis bjartsýni) sem ná rétt niður á hálfa kálfa og sýna þar af leiðandi ALLTAF mína yndisfögru (og kafloðnu) húsmóðurleggi, einhver þægilegur bómullarbolur - helst ljós á lit svo hægt sé að sjá hversu margir hafa notað mig fyrir eldhúsþurrku yfir daginn og já ekki má gleyma að vera berfætt......alltaf berfætt, einfaldlega bara af því að ég orka ekki að reyna að finna samstæða sokka á mig....beru tærnar skarta síðan eldrauðu naglalakki sem að sjálfsögðu er löngu fallið á tíma. Allt þetta mætti nú kannski umbera með ágætis andliti en þar sem að verulega hefur dregið úr kröfum á þannig fylgihlut þá hefur meikuppið farið úr því að vera nánast alltaf á, í það að vera aldrei á  - sem þýðir að ef á að gera sér dagamun þá er ótrúlegur munur að sjá augun maskeruð.....

Ég hef mikið verið að pæla í því hvernig og hvenær ég fór að lenda í hinni vinsælu gryfju þægindanna, að verða ein af húsmæðrunum - að vera ein af þeim sem undirstrikar þá almennu hugsun að VIÐ húsmæður séum ekkert nema sjúskaðar eldhúsþurrkur....ég get auðvitað talið upp margar afsakanir: ég á 3 börn ég á mann sem er mikið að heimann, ég er búin að búa í ferðatösku síðustu mánuði - við erum að flytja blablablablalba ...... en þegar allt er tekið til umhugsunar þá er það ég sjálf sem hef skipað mér í 5. sætið í fjölskyldunni okkar!! Þrátt fyrir að það sé erfitt að viðurkenna galla sína þá held ég að sú fórnfýsi sem við mæður viljum sýna sé mjög oft áskapað sjálfskaparvíti... hver segir t.d að börnin okkar geti ekki klætt sig sjálf og matað eftir 4 ára aldur - hver segir að þau hafi áhuga á að láta klæða sig og mata? Er það ekki mitt að drífa mig út fyrir hússins dyr og að líta út eins og ég vil að aðrir sjái mig?

ég hef verið mikið í naflaskoðunum upp á síðkastið - og hef komist að ýmsu í þeim málum - en þegar allt er á botninn hvolft þá er enginn nema ég sjálf sem ákveð í hvaða sæti maður á að vera - lífið er ekkert nema forgangsröðun og í minni forgangsröðun eiga allir að keppast um að vera í 1. sæti

p.s ég vona að allir geti andað léttar núna þar sem að hómídressinu hefur verið pakkað niður (lengst niður) í tösku og verður aðeins tekið upp aftur ef mikil þörf verður á .....

stelpur verum sætar - fyrir okkur sjálfar og engan annan!!!!!


Ég er geimvera í Reykjavík

Jæja !!Þá er loksins komið að því - við erum flutt frá Danmörkinni. Það er sagt að konur hafi þann frábæra eiginleika að gleyma fæðingu barnanna sinna og að þannig muni mannkynininu halda áfram að fjölga - ég er ekki frá því að þetta eigi við um svo margt annað ; ég er t.d næstum strax búin að gleyma hvað það er leiðinlegt að pakka og flytja, ég var líka algjörlega búin að gleyma pappírsvinnunni sem fylgir því að flytja á milli landa (ef ég hefði munað það þá hefði ég aldrei farið úr Danmörkinni góðu) en þetta eru allt praktískir hlutir sem auðvelt er að redda með tíma og mikilli þolinmæði..... hitt er annað mál með GATIÐ..... það eru margir sem kvarta yfir því að þeir lendi á milli kerfa við að flytja í annað land (fæðingarorlof, atvinnuleysisbætur osv.frv) það er auðvitað bölvað vesen en það er annað GAT sem ég er að tala um hérna - GATIÐ sem hefur myndast á milli vina og kunningja og já, jafnvel ættingja hérna heima....

ég er lent í GATINU  - í barnaskap mínum var það fyrst í fyrradag sem ég fattaði að ég væri lent hérna, ég stóð með tannburstan lafandi úr munnvikinu þegar ég var aðspurð "hvað á svo að gera í dag??" ég hafði ekki hugmynd, búin að nota alla síðustu viku til að hitta þá "gömlu góðu" aðeins til að uppgötva að auðvitað hefur tíminn ekki staðið kyrr hérna á meðan við bjuggum úti í Danmörkinni góðu allir komnir með börn og bú, vini og vandamenn og nánast ekki pláss fyrir e-a utanaðkomandi hálfdani sem kunna varla að bjarga sér í stórborginni Reykjavík - oh, jæja sei sei - þá er bara að efla tengslin við vinina í DAnmörkinni góðu; FJÖLSKYLDUNA þar sem hefur reynst manni eins og klettur á þessum síðustu og verstu.....en það er bara svo undarlegt - svona eins og með mafíuna - um leið og við sögðum skilið við Danmörkina góðu var eins og við höfðum rofið mikilvægan eið við dösnku vinina: við fórum, yfirgáfum allt og já, þá erum við kannski ekki þess verð að vera að púkka upp á lengur .

Ég var í brúðkaupi um helgina og var spurð að því hvað við vorum að gera "þarna úti" - ég verð alltaf jafn hissa og leið yfir því þegar ég get dregið saman eins og 6 ára tímabil úr ævi minni, saman í eina setningu: "O, bara að læra og búa til börn" . Þarna kom það, allt það sem á undan hafði gengið allur sá þroski og lærdómur sem við höfðum náð í "þarna úti" fölnaði og varð að hversdagslegri klisju..... ég stóð um stund með kaffibollan og konfektið bráðnað í lúkunni minni - ég var einmana og leið eins og að GATIÐ væri við það að gleypa mig......

ég er leið hérna á Íslandinu - ég sakna samt ekki neins frá Danmörkinni góðu  - það er ekki ein matartegund, veðurfar eða stemning eða götuhorn sem ég bara VERÐ að sjá einu sinni enn..... en ég sakna bara lífsins í Danmörku, vinananna og fjölskyldulífsins okkar, en kannski er þetta bara partur af prógramminu (ef ég leyfi mér að sletta smá) kannski er núna bara tími til að einblína á fjölskylduna litlu og leyfa vináttuböndum að fjarlægjast og verða að góðum minningum - kannski er það þetta sem allir eiga við að námsárin séu bestu ár ævinnar -  kannski upplifa allir þetta GAT hvort sem um er að ræða landflutninga eða ekki ......kannski - en GATIÐ er hérna enn og það er við það að kæfa mig......

p.s þetta var s.s þunglyndisblogg vikunnar  - ekki örvænta, Pollýanna er ekki dauð hún er bara hundfúl og batteríslaus

 

 

 

 


Það er gott að eiga mörg heilahólf

Það er ótrúlegt hvað margir hlutir geta verið að væflast fyrir manni, ég get t.d hugsað um að þurrka af og taka baðherbergið í gegn í nokkrar vikur áður en ég læt af því verða.... (ojjojjj -já ég veit, frekar óhuggulegt ef ekki óhugnalegt) en svo loksins þegar maður hefur tekið sig saman í andlitinu þá er þetta að sjálfsögðu ekki mikið mál - og ekkert rosalega tímafrekt heldur -það er bara sjálf hugsunin sem fyllir út í öll skúmaskot heilans þar til að lokum er ekki mikið pláss eftir. Og þarna kem ég einmitt að aðalástæðu þess að ég er fyrst núna að byrja að blogga;annars vegar finnst mér vera kominn tími til að taka þátt í þessu skemmtilega vefdagbókarfyrirbæri (hef bara þurft nokkur ár til að starta síðu sem þessari - s.s sama sagan og með rykið og tiltektina og allt það) en hins vegar þá hefur mér aldrei fyrr fundist ég þurfa að tappa eins mikið af yfirfullum harðadisknum eins og nú - þegar þreytt húsmóðirin (ég) er byrjuð að vaka fram eftir nóttu (eftir enn eina brjóstagjöfina) bara til þess að koma reiðu á heilahólfin sín - þá er tími til kominn að finna e-ð gott flokkunarkerfi þ.e bloggsíðu sem þessa. Þannig að kæru vinir og vandamenn - hér með byrja ég blogg síðuna mína sem ég hef svo einfaldlega kosið að kalla HUGSANIR HÚSMÓÐURINNAR, einfaldlega  þar sem að ég er jú, húsmóðir og hef ekki lengur pláss fyrir allar hugsanir mínar - þrátt fyrir öll mín leyndu heilahólf.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband