Þriðjudagur, 20. mars 2007
Ullarsokkur í kaupstaðarferð
Jæja þá var kaupstaðarferðin langþráða á enda. Kvenmennirnir á heimilinu höfðu samviskusamlega krossað við dagatalið og talið niður í ferðalagið til höfuðstaðarins, pískrað og skrafað yfir fyrirhugaðri menningarferð og gengið sposkar um með leyndarmálið í maganum - því það væri ljótt að vera með óþarfa mont við karlpeninginn á bænum, því var betra að ræða ferðina undir fjögur augu.
En senn kom að því og þær stigu eftirvæntingafullar inn í flugvélina og kvöddu húsið sitt (séð ofanfrá). Húsmóðirin fann fyrir skrýtinni tilfinningablöndu spennu og söknuðar, þar sem nú var það hún sem fór frá smábörnum og búi og sá fram á nægilegan nætursvefn næstu daga, bara það vakti með henni mikla tilhlökkun en það er samt aldrei gaman að kveðja.
Það var ekki laust við að henni fyndist hún vera hálf utangátta, þar sem hún steig út úr vélinni í stórhríð í Reykjavíkinni. Það var eins og hún hefði verið of lengi í burtu í þetta skiptið og sveitarómantíkin alveg búin að ná tökum á henni. Allavegna fannst húsmóðurinni umferðin vera með hraðasta móti og fólk á förnum frekar hranalegt og að flýta sér......... henni leið ekki eins og heima - enda leit hún kannski út eins og ullarsokkur á flækingi innan um öll leðurstígvélin?? Ullarsokkar eru nauðsynlegir og um leið þægilegur fatnaður - en munu seint teljast til tískuflíkur....
Hún fór í verslunarleiðangur - nú skildi hún heldur en ekki svæfa þessa sveitadruslu sem var farin að verða annsi áberandi í persónuleika hennar - allt gekk eins og í sögu - sötrandi kaffe latte með bláberjaostakökunni, hlaðin pokum og pinklum, hugsaði húsmóðirin góða: "já, svona á þetta að vera - þetta er meira ÉG" ekki arkandi í snjógallanum og bomsum dag eftir dag (hún hafði tali 152 daga í bomsum á Egilsstöðum - án þess að fara í annað skótau - þetta náði engri átt) og eina markmiðið að fara í Bónus.....
en það var samt eins og hún fyndi fyrir því hvernig Ullarsokkurinn hékk utan á henni eins og neonskilti, - það var kannski þegar búðarkonan sagði "nei, þetta er ekki til en það kemur örugglega eftir helgi " (hér er vísað í samtal um skó sem húsmóðirin bara VARÐ að eignast) að henni varð loks ljóst hversu mikið gervi allt þetta var..... hún yrði ekki þarna eftir helgi - og eftir helgi kæmi bara hundraðasti - fimmtugasti og þriðji dagur í bomsum og ekkert tækifæri til að flagga því sem flagga (m)ætti.....
En það var ótrúlegt hversu mikið sem hún naut þess að vera í Reykjavíkinni góðu - þá var það e-ð sem fékk hana til að hugsa "heim". Heim í sína eigin hringiðu verkefna, fjölskyldu og já, nýrra vina.
Kannski var það rétt sem e-r sagði, að aðlögun á nýjum stað má líkja við meðgöngu mannsbarns: fyrstu þrír mánuðirnir vekja upp tilhlökkun en um leið ógleði, smátt og smátt venst tilhugsunin um þetta nýja og allir reyna að undirbúa sig fyrir komu þess nýja - það tekur á og stundum kemur upp hugsuninn "hvað í andskotanum var ég að koma mér í núna" en á endanum veit maður innst inni að ákvörðunin er hluti af manni sjálfum og eftir 9 mánuði fæðist allt í einu sú hugsun að maður hefur aldrei haft það öðruvísi eða búið annars staðar - rétt eins og erfitt er að hugsa sér fjölskylduna áður en nýji meðlimurinn britist.
Það voru tvær misánægðar skvísur sem sáu húsið sitt við lendinguna - önnur lítil sem naut þess að vera dekruð af ömmu, afa og mömmu - og var ekki tilbúin að hætt því sí svona - en ein sæl húsmóðir sem allt í einu hafði fundið taktinn í hjarta sínu og sett orðið "heim" á réttan stað.
Sveitadruslan kveður í bili og þakkar öllum sem hún hitti í Höfuðstaðnum, fyrir góðar stundir
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Það er dásamlegt að lesa skrifin þín. Ég heyri röddina þína, áherslurnar... og skelli svo uppúr annað veifið. Enda með sæludæsi að hafa fengið að kynnast þér í ævintýrasvinginu í sveitinni heima. Skilaðu til Góu að ég sakni sundlaugarinnar á Egilsstöðum og að hitta hana þar! Kveðjur og knús að neðan, Karna
Karna (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 10:26
Þú ert alger snilld!!
Knús á ykkur öll
kv. Maja frænka
María Una (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 19:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.