Feng-Shui

Hún hringdi enn einu sinni í Flytjanda.. hvað var málið - enn einn dagurinn og IKEA dótið ekki komið. Húsmóðirin hafði spennt verið að innrétta skrifstofuna sína og fyrir 5 dögum síðan hafði hún pantað ýmislegt punterí til að setja punktinn yfir i-ið. En enn bólaði ekkert á þessari pöntun.
Það var og - alltaf þurfti ALLT að taka lengri tíma hérna úti á landi. Hún var nýbúin að sætta sig við það að fréttablaðið væri bara til í BT og aðeins til þegar og ef fyrsta flugið hafði séð sér fært að koma..

Þau hjónakornin höfðu brosað kankvís að öllum þessum seinagangi, fyrstu mánuðina eftir að þau fluttu. "O, jæja, þetta getur ekki verið annað en hollt fyrir sálina" - ekkert stress og engin læti svo ekki væri talað um hreina loftið sem lék nú um lungu unganna og var fyrir löngu búið að hreinsa allt ryk og sót frá Kaupmannahöfninni góðu. Heimilisfaðirinn hafði haft það á orði hversu aflsappaður hann væri þrátt fyrir mikla pressu í vinnunni -  það var eins og hér hvíldi ákveðin hula afslöppunar og tímarnir siluðust áfram....

...eða það var allavegna venjan, alveg þar til húsmóðirin hafði ákveðið að gefa sig alla að fyrirtækjarekstrinum og barnauppeldi. Allt í einu hentaði þessi skjaldbökutími ekki hennar áætlunum. Hún stóð sig að því að andvarpa hátt og innilega þegar röðin hreyfðist ekki í Kaupfélaginu (röð á Egilsstöðum=2 bíða) því e-r kellam hafði ákveðið að sýna kassadömunni myndir af barnabörnunum. Hún fann líka í fyrsta skipti fyrir pirring þegar leikskólakennararnir vildu spjalla í korter þegar hún náði í miðstrákinn og allt í einu var það ekki eins sjálfsagt að skutla heimasætunni og vinaflokki hennar á milli staða - "þið labbið bara - það er svo gott veður" var orðið algengt svar. Þrátt fyrir þessu neikvæðu þætti þá fannst húsmóðurinni hún vera lifandi á ný, meðan stressið og adrenalínið pumpaði um æðarnar - þá leið henni vel. Það var eins og hún hefði náð að halda sig frá ákveðinni fíkn í þetta langan tíma en nú væri hún aftur fallin....

"Nei, vinan, þetta er ekki enn komið"  "Var þetta mikilvæg sending?" Húsmóðirin visski ekki hvað skyldi segja - jú ef maður ætti að fara eftir ströngustu Feng Shui fræðum, þá var það mjög mikilvægt fyrir rekstur fyrirtækisins að allt ætti að harmónera saman í innréttingu skrifstofunnar.
"Tja, já þetta er nú soldið mikilvægt" Vingjarnlega röddin á hinum enda línunnar varð hugsi en bauðst síðan til að gera allt sem í hennar valdi stóð til að finna þessar vörur og koma þeim á leiðarenda ......

Henni leið eins og algjörum kjána þegar hún kom til að sækja sendinguna frá IKEA; rauð ruslafata og pennastatív í stíl, nokkrir myndarammar og forlátur lampi.... hlutir sem í miðju stresskasti og adrenalínsofforsi virtust svo miklu mikilvægari en nú ... hún reyndi að láta fara lítið fyrir sér þegar hún skrifaði undir móttöku... á skjalinu stóð: "HRAÐAFGREIÐSLA - MIKILVÆG SENDING" hún leit upp aðeins til að mæta tveim góðlátlegum augum sem blikkuðu hana. "Já, það eru fáránlegustu hlutir sem geta skipt öllu" sagði eigandi augnanna og húsmóðirin kannaðist strax við vingjarnlegu röddina úr símanum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hahah... þetta er gott dæmi um hvað við getum látið fáránlega hluti ráða lífi okkar. Ég vona að tempóið sé rétt núna á skrifstofu kúper blakk ehf. ;o)

Halla (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 07:05

2 identicon

ótrúlega góð lýsing á okkur íslendingum.... 

gangi þér vel með fyrirtækið og barnauppeldið og bestu kveðjur til frænda.

Haddý

Haddý (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband