Laugardagur, 21. apríl 2007
Krúttkynslóðin
Það var viðburðarríkt kvöld í bænum. Tónleikar sem yfirleitt voru bara haldnir í höfuðborginni góðu, voru nú komnir á ferðalag út á land og byrjaði jammið á Egilsstöðum. Hún beið örvæntingafull eftir barnapíunni. 17 ára glaðlynd stúlka - ekkert nema sakleysið og bláu augun, hafði reynst vel í þau örfáu skipti sem hjónakornin höfðu ákveðið að gera sér dagamun. Klukkan tifaði, hún var farin að örvænta - ekki vildi hún missa af þessum viðburði - hvað nú ef það yrði uppselt!!!
Stúlkan kom á slaginu. Það var annars konar glott á henni núna - enda var húsmóðirin fljót að átta sig þegar annað glott íklætt rauðum hanakambi stóð fyrir aftan hana. "Er ekki í lagi að ég sé með gest með mér" spurði hún biðjandi.
hmm.......hnussaði í heimilisföðurnum, því ólíkt hinni góðu húsmóður var hann (fyrir löngu) búinn að sætta sig við það að horfa á eftir hátindi æskunnar í baksýnisspeglinum. Enda gömul sál - ef marka mátti spákonuna sem spáði svo vel fyrir framtíð þeirr hjóna, fyrir langa löngu (samkvæmt þeirri spá áttu þau reyndar bara að eignast tvö börn og það seinna um fertugt og búa í USA og vera skilin stuttu seinna...... en það er nú önnu saga) Húsmóðirin "hélt það nú", enda rámaði hana í hversu leiðinlegt barnapíuhlutverkið var orðið þarna um 17 ára aldurinn - og nú var um að gera að halda þessari góðri enda ekki mikið úrval barnapía í bænum.
Hjónin rifjuðu upp fornar frægðir - þegar þau 17 ára pössuðu lítil systkini sín og önnur börn. Það færðist yfir þau glott og augngotur sem ekki má ræða um hér. Og þau voru dulítið slegin yfir því hversu tíminn hafði flogið frá þeim - hversu klisjulegt sem það kann að hljóma....
Hún gat ekki að því gert að hugsa til þessa allt kvöldið. Tónleikarnir liðu áfram ljúfsárir enda rjómi krúttkynslóðarinnar svokölluðu á sviðinu. Hún leit í kringum sig og fann allt í einu fyrir aldursmuninum. Allt í kringum þau sátu krakkar á menntaskólaaldrinum - jú einstaka andlit með gráum hárum og gleraugum var þarna inn á milli - en þá yfirleitt í fylgd með yngri útgáfum af sjálfum sér. Um hana greip sig mikill ótti og kaldur sviti rann niður bak hennar .... var það nú sem hún átti að fara að huga að lífeyrissparnaði, menntun barna sinna, spara fyrir tannréttingum og húsgrunni..
AHHHHHHHHHHHHHHHHH !!!!!!!!
...söng eitt krúttið upp á sviði, og hún barðist við að halda aftur tárunum. Hún gat ekki að því gert- henni leið eins og hún hefði misst af einhverri lest - hún vissi bara ekkert hvort sú lest hefði verið skárri kostur. Hún leit á heimilisföðurinn - hann virtist njóta kvöldsins - enda sjaldan sem hann fékk bara að sitja og halda í hönd húsmóðurinnar góðu - án þess að deila henni með öðrum.
Hún tók djúpt andann og sogaði að sér æskuna - allt í kringum. Hún saknaði ekki eins eða neins - þetta hafði bara verið enn eitt kvíðakastið - eða ætli breytingarskeiðið sé handan við hornið?? Hún varð þó að viðrukenna að 30 ára grýlan var farin að angra hana meira en hana hafði grunað....
hún kreisti hönd heimilisföðursins og naut þess að hafa skokkað yfir æskuna með honum.
Krúttkynslóð= á að vera e-s konar skilgreining á hinum nýju unglingum okkar tíma s.s aldur unglingsins er alltaf að hækka (nú er maður krútt allt til 36 ára) þetta hugtak er oft tengt við nýja tónlistarstefnu sem spratt út frá tónlist Bjarkar (Sigurrós, MÚM og.fl.ogfl) - En þetta hugtak var samt í gerjum mikið fyrr (sjáið t.d Friends liðið) fólk býr enn hjá mömmu og pabba komið langt yfir á þrítugsaldurinn, baslar við að finna sjálfan sig og lifa lífinu lifandi og glímir við þá staðreynd að tíminn gamli tekur ekkert tillit til þeirra.
Við hin sem einhverra hluta vegna misstum af þessari lest söknum þess ekki mikið að vera ekki krútt ;)
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
ég er soldið krútt.... það finnst mér allaveganna!
og hananú
G.Örn (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 10:51
ég er bókstaflegt krútt samkvæmt skilgreiningunni, eða að hluta til allavega . Er búin að húkka far með ýmsum lestum, en enda alltaf á að lalla krúttlega niður Laugavegin með Halla-num mínum.
Það herðist stöðugt á lestinni (kvóti frá tengda pabba) Enjoy the ride....
Guðný Arna Eggertsdóttir (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 15:22
ég er bókstaflegt krútt samkvæmt skilgreiningunni, eða að hluta til allavega . Er búin að húkka far með ýmsum lestum, en enda alltaf á að lalla krúttlega niður Laugavegin með Halla-num mínum.
Það herðist stöðugt á lestinni (kvóti frá tengda pabba) Enjoy the ride....
Guðný Arna Eggertsdóttir (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 15:23
Bíddu bara kæra Tóta. Ég er svo mikið krútt en á dreng á 17 ári! (svoldið sjokk þegar maður opnar augun öðruhvoru);-)
Bestu sumarkveðjur til ykkar allra.
Haddý (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 22:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.