Af barnaláni og sandkassaleikjum

Nú var mikið búið að gerast síðastliðnu vikurnar, enda maí mánuður yfirleitt einkennandi af eirðarleysi og óþreyjubið eftir sumri og hlýju. Húsmóðirin var meira en fegin að geta heimsótt Kaupmannahöfnina sína í viku - komast burt frá börnum og búi í smá tíma, en þó var það snjórinn og kuldinn sem hana hlakkaði mest til að losna frá.

Já, snjóskaflar og maí-hret... það er víst algengt á Austurlandinu og hún laumaðist til að glotta hæðnislega af "alltaf gott veður hérna megin" - setningunni. Já það sem í fjarlægð hafði verið lofað og rómað að ferðafrömuða sið - það var nú orðið að alíslenskum köldum veruleika - veðrið á Íslandi er ekkert til að hrópa húrra yfir - og hana nú!!!!

En eins og húsmóðirin var fyrir löngu búin að gefast upp á veðurspám og þvíumlíku, þá var hún orðin enn þreyttari á pólitíkinni á skerinu litla  - það að horfa á fullorðið fólk í sandkassaleik ofbauð svo húsmóðurinni að hún reyndi frekar að beina orku sinni að sandkassaleikjum sinna eigin barna, kjá þau og bía án þess að þurfa að hafa of miklar áhyggjur af verðbólgu, okurvöxtum, hagvöxtum og vaxtarverkjum þjóðarinnar.

"Ó sussum svei - hvar endar þetta allt saman?" sagði hún. Hún var æ oftar farin að tala við sjálfa sig og stóð sig jafnan að því að vera þögulli á kvöldin þegar heimilisfólkið kom heim. "Kannski verð ég eins og Gísli í Uppsölum  - stórskrýtin einbúi með rytjulegt skegg. Hún hló við tilhugsunina og þurfti enn og aftur að minna sig á það að hún var langt frá því að vera ein - börnin hennar þrjú voru væntanleg innan skamms úr skólum og frá dagmömmu ......

Hún rifjaði upp samtal sem hún átti við 12 barna móður - þær höfðu setið yfir kaffibolla þar sem sú barnmarga ameríska kona hafði boðið litlu fjölskyldunni í kvöldmat. "I like my children, they make sure of I am always buzzy, and I am never bored - they have teached me many things about myself"

Brosandi út í annað rölti hún ofurstuttum hænuskrefum á eftir yngsta erfingjanum - leiðin lá í sandkassann  - og hún velti því fyrir sér hvort stjórnmálamennirnir gætu ekki lært e-ð af komandi kynslóðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband