Föstudagur, 8. júní 2007
Sumarið er tíminn
Það var ekki um að villast. Sumarið var komið til að vera - svona á alíslenskan mælikvarða allavegna. Bærinn tók við sér og í fyrstu átti húsmóðirin erfitt með að benda sérstaklega á það sem var öðruvísi. Jú mikið rétt - tilveran var öllu bjartari með sundferðum, gönguferðum, fjallaferðum , ferðum á firði og birtu - ó blessuð íslenska sumarbirtan, hún var örugglega fundin upp af Skaparanum til að eyða allri eymd vetrar og skammdegis, en það leið samt nokkur tími þar til Húsmóðirin góða fann í hverju tilbreytingin fælist...
Túristar. Þeir höfðu byrjað að skríða inn með Norrænu í maí mánuði - fyrst eitt og eitt Færeyskt hjólhýsi en síðan komu allir hinir, flykktust á eftir til að kanna hina ósnortu náttúru okkar íslendinga. Það var ekki frá því að Húsmóðirin þyrfti að halda aftur af sér í sundlauginni heyrandi gömlu góðu dönskuna talaða í heitapottinum - hún brosti lúmsk yfir því að skilja allt raus ferðamannanna um okurprísa á matvörum hérna og hrollinn, sem þrátt fyrir heitu laugarnar virtist ekki geta hlaupið úr útlendingunum. Hún fylgdist líka með hræsninni í bæjarbúum brosandi og buktandi fyrir þessari dýrmætu tekjulind en fussandi og fytjandi upp á trýnið yfir pólverjum og öðrum útlenskum vinnudýrum sem biðu eins og þurfalingar í röð í Bónus - teljandi krónur og aura með undrunarsvip yfir að mánaðarlaun nægðu varla fyrir kók og prins póló.
Hún hristi hausinn, og hélt gönguferðinni áfram - vinnan var að angra hana - hún sat föst, pikkföst í einu verkefninu - "ætli Egilsstaðir séu tilbúnir fyrir mig" hugsaði hún með sér, glottandi yfir eigin ágæti og hroka ....eða var þetta kannski öfugt. Hún arkaði áfram leiðina sína í sól og blíðu en auðvitað í skítaroki - þetta var nú Rokland eins og Hallgrímur Helgason hafði orðað það svo snilldarlega. Upp, upp, já upp á hól sem var nú langt yfir Himmelbjerginu blessaða og nú sá hún hvar höllin þeirra gnæfði upp á bjarginu, já þarna mátti með sanni segja að Krummi byggi í klettagjá, eð kannski Beverli Hills - svo mikið fannst henni um ríkidæmið þeirra..... áfram yfir veginn sem lá til Seyðisfjarðar.... hún leit á 4 gáma sem þar stóðu: þrír þeirra voru sjúskaðir en sá þriðji hafði greinilega fengið meik óver... fagurgrænn blasti hann við Húsmóðurinn þar sem hún stóð við göngustíginn, blóm og kryddjurtir voru í skítugum og hálfbrotnum krukkum fyrir utan dyrnar.... þarna bjó greinilega e-r..... hún gat ekki staðist það að kíkja á glugganan - enginn!! enda blessuð blíða fyrir utan... gat það verið að e-r byggi þarna , í 20 fermetra gámi ??
...hún leit út af svölunum sínum þetta kvöld og sá glitta í nágranna sína í gegnum skítugar rúður gámsins - þarna bjuggu konur, karla og börn á öllum aldri .... og hún vissi að þarna höfðu þau verið síðan í vetur.... hmmm... hnussaði í henni yfir óréttlæti heimsins, og húsmóðirin lokaði svalahurðinni á eftir sér.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Nei sko hvað ég fann hérna.... Þetta er ansi áhugaverð lesning og gaman að sjá heimabæinn minn með þínum augum. Mér hefur oft liðið eins og stundum erfitt að rífa sig upp gegnum skafla, frost og myrkur. En inn á milli líður mér svo vel að ég held að ég sé að springa úr hamingju. Oft þarf ekki nema nýja tegund á Te og Kaffi sem er betri tegund en ég hef nokkurn tíman smakkað. Svo góð tegund að þrítuga grýlan er meira en velkomin í hús og jafnvel beðið með eftirvæntingu.
Hlakka til að sjá þig og þína á fimmtudaginn.
Inga vinkona :-) (IP-tala skráð) 11.6.2007 kl. 16:17
Ji minn eini býr e-r í svona litlum gám. Búslóðin mín kemst rétt svo inn í einn svona. Hlakka til að sjá Egilsstaði í öllum sínum ljóma og gráma.
Hilsen
Halla (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 06:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.