Þjóðhátíðardagurinn

Þá var fyrsti þjóðhátíðardagur fjölskyldunnar góðu liðinn - á sjálfu Íslandi. Ja, svona fyrsti í langan tíma - þeir bræður, fæddir og uppaldnir í Danaveldinu - höfðu aldrei áður fengið að kynnast þjóðarstoltinu beint í æð - og varla hægt að segja að heimasætan hefði munað 2svar sinnum frekjuköstin sem hún framkvæmdi svo listarlega í sykurvímu á Ingólfstorgi, fyrir nær áratug síðan :) Fyrstu árin, eftr að þau fluttu til Danmerkur höfðu þau reynt, með miklu stolti, að fagna 17. júní með öðrum íslendingum, niður á Amagerströnd- en það haðfi e-n veginn aldrei verið ekta - pylsurnar bara danskar og rauðar og ekki minntist húsmóðirin þess að hafa grillað eða þambað öl til að fagna afmæli lýðveldisins á Íslandi ?? eftir tvö ár gáfust þau upp og létu sér nægja kærkomin símtöl nánustu fjölskyldumeðlima sem báru þeim fagnaðarkveðjur frjálsrar þjóðar .... 

En, nú var s.s komið að því - loksins - að hjónakornin gætu kynnt börnum sínum -- komandi kynslóð - erfingjum þessa lands - já kynnt þau fyrir því ógnarmikla stolti sem fylgdi þjóðhátíðardeginum OKKAR!!! Að vísu runnu þau svolítið blint í sjóinn hér - því hér á Héraði var engan sjó að finna hvað þá að þau væru kunnug Þjóðhátíðarhefðum þessa landshluta..... En með bros á vör og aðlögunarhæfni að hætti víkinga arkaði fjölskyldan af stað - stefnan var sett á skrúðgöngu bæjarins - sem að sögn átti að verða mikið betri en í fyrra - enda var þá enn óstöðugleiki og kapphlaup um mannsálir per bæjarstæði - EN nú blómstraði bærinn af  ungu fólki - og heyrst hafði að jafnvel myndi lúðrasveit leika fyrir skrúðgöngunni....

Hún þekkti engan en kannaðist þó við mörg andlit - það var ekki hægt annað en að þekkja nær öll andlit bæjarins - hún kinkaði kolli til dagmömmunnar, kunningjafólksins, kennaranna, nágrannanna, leikskólastýrunnar, konunnar (sem alltaf afgreiddi hana á kassanum í Bónus) þjónustufulltrúans..... og áfram arkaði skrúðgangan af stað - án þess að reyna að vera illkvittin þá kraumaði í henni hláturinn þegar hún mældi út undan sér lengd skrúðgöngunnar - maður sá ákkúrat fyrir endanum (og byrjuninni) á skrúðgöngunni.

Hún rifjaðu upp hversu tilkomumikið henni hafði fundist - sem krakki - þegar einkennisklæddir lögreglumenn, skátar og fánaberar höfðu arkað fram hjá í mannmergðinni - hún minntist þess sem lítil stúlka hversu vel henni leið í troðningum, haldandi í hönd pabba og suðandi yfir gasblöðrum og nammisnuddum - og hún fékk allt sem hún vildi - enda ekki á hverjum degi sem Ísland átti afmæli. Og síðan var sest í grasið og horft á skemmtiatriðin og það var alltaf gott veður :) 

Í dag var kalt - skítakuldi og þau reyndu eftir besta megni að láta börnin upplifa þá gleði og það stolt yfir landi og þjóð - sem þau sjálf söknuðu svo mikið þessa dagana... en þrátt fyrir nammisnuddur, gasblöðrur og skrúðgöngu var þessi þjóðhátíðardagur eins og léleg eftirlíking af nostalgísku frekjukasti

Hún strauk yfir klístruð andlitin og kyssti góða nótt - hún átti erfitt með að halda aftur af tárunum því í hverju húsi glumdi við gleðihlátur ættingja og vina  - og allt í einu var Ísland svo ógnarstórt og þau svo afskaplega ein.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband