92 ár kvenfrelsis og jafnræðis....

19. júní var runninn upp - og ekki laust við að húsmóðirin ætti erfitt með að velja sér bleika flík í tilefni dagsins .... ekki það að úrvalið væri ekki fyrir hendi, heldur hafði hún alltaf látið það fara í taugarnar á sér þegar henni var sagt fyrir verkum - málum daginn bleikan ok - fínt framtak það.

Þessi þrjóska hafði svo sem ekkert háð henni, hvorki í starfi né heima við - enda var hún alltaf sanngirnin uppmáluð og gerði allt fyrir þá sem gerðu allt fyrir alla ..... en það var alltaf e-ð sem hún lét fara í taugarnar á sér - þetta með að "allir í þessum hópi ættu að taka sig saman og gera e-ð saman" - þannig væri fyrirfram búið að greina og flokka ólíka einstaklinga niður í fyrirfram merkta kassa og búið að skammta þeim baráttumálefni og kröfuspjöld.... hún vildi helst finna upp á sínum baráttumálum sjálf. 

Hún tók sér dulitla pásu frá vinnu til að kíkja á sólina - af svölunum sínum. Falleg sumarblómin voru útsprungin og hún horfði á þau með móðurlegu stolti.... enda þótti henni ekkert eins fullnægjandi og að horfa á e-ð vaxa og dafna. Hún minntis þessa dags fyrir áratug síðan - ósigrandi og með drauma um framtíð sem var ekki undir neinum kynjamerkjum komin - í barnslegri trú hafði hún haldið að með sinni kynslóð væri öllu eytt sem héti fordómar eða misrétti á Íslandinu góða - enda var ekkert því til fyrirstöðu en að sækja það sem hana langaði til - engin sem stóð í vegi fyrir draumum, vonum eða löngunum. Hún minntist líka hversu fljótt umhverfi hennar tók stakkaskiptum við að finna lítinn fót sparka og hversu hratt hefðir og gömul gildi rembdust við að eyða nýfengnu kvenfrelsi.

Hún var uppgefin - en sæl, henni fannst hún hafa hlaupið á höndum í 10 ár - alltaf þurft að sýna fram á að það væri hægt að eltast við draumana en um leið að búa öllum vel í haginn og já, í raun halda í hefðir og gömul gildi. 

Það var liðið nær ár síðan þau hjónin höfðu stokkið á vit ævintýrann og hún var enn sár yfir þeim "jafnréttissinnum" sem hún hafði mætt hér á Íslandinu góða. Karlar og konur skrifandi í blöð og tímarit, gasprandi og sussandi yfir misrétti og óréttlæti yfir konum tengdu Austurlandi tækifæranna - e-ð þurfti að finna að gera fyrir aumingjans kvensurna á meðan kallarnir þeirra þræluðu fyrir búi og börnum!! Einn maður gekk meira að segja svo langt að aumka sig yfir aumingjans húsmóðurina spyrjandi með hryggð í augum "hvað ætlar þú eiginlega að fara að gera??.... eltandi kallinn svona út á land??" Yfirlýstir femínistar hrópandi vandkvæðisorð yfir menn sem draga aumingjans kvensurnar á asnaeyrum til þess eins að sitja heim að hugsa um börnin - þessi móttaka hafði fengið húsmóðurina til að efast um sönn gildi femínista, hvar vorum við nema á villigötum ef það átti að "finna eitthvað  að gera" fyrir konur - rétt eins og að konur hefðu ekki vit á að finna upp á því sjálfar ( henni fannst þessi umræða jafn fáránleg og að ríkið þyrfti að "finna eitthvað að gera" fyrir þetta fólk úti á landi - annars myndi það flýja landsbyggðina ;)

Henni var orðið heitt í hamsi - enda alltaf þurft að berjast út af stimpilglöðum einstaklingum sem vildu eyrnamerkja hana: móðir? hversu margra barna? titill? hversu margar vinnustundir? laun? afrek? útlit? hæfileikar? gáfur?  hvar á að byrja að mæla og meta? 

Hún hafði oft verið ráðvillt yfir þessu kærkomna kvenfrelsi - sem íslenskar konur bjuggu yfir - og hún vissi að hún var ekki ein um það. Í hverju felst frelsið - snýst það um að láta aðra ákveða baráttumálin fyrir sig - eða snerist það um frelsi einstaklingsins til að velja og skapa.

Hún kláraði kaffibollann og minntist orða góðrar konu fyrir áratug síðan: "ekki brosa of breitt þá taka þeir ekki mark á þér - en ekki sleppa því að brosa þá verður gengið fram hjá þér" :)

gott fólk - Til hamingju með daginn og í gvöðana bænum klæðist bara því sem þið viljið

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Tóta mín eftir baráttuorðin og vangavelturnar þínar er erfitt að stíga á stokk og finna upp á einhverju viturlegu til að skrifa hér...en langaði bara umframallt að kvitta fyrir mig, Vegir Liggja til allra Átta með Ellý Vilhjálms kemur mér alltaf til að glotta útí annað og hugsa um ævintýri og veginn sem virðist liggja til allra átta....

Guðný Arna Eggertsdóttir (IP-tala skráð) 20.6.2007 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband