Madame Bouvarie og Harry elskhugi hennar

Hún heyrði vatnsdropa leka einhvers staðar langt í burtu - eins og kæft víðs fjarri - hún steig fram úr rúminu og fann sig í vatni upp að öklum - sprungur alls staðar í lofti stofunnar og vatn sem seitlaði silfrað niður á gólfið.......húsið var stórskemmt og vatnið frussaðist nú yfir stofuna með eyðileggjandi kröftum sínum.....

.... það var kominn morgun og húsmóðirinn hafði vaknað enn einu sinni við sama óþægilega drauminn - "hvað ætli þetta merki allt saman?" hugsaði hún með sjálfri sér á meðan yngsti fjölskyldumeðlimurinn dró hana að morgunverðarborðinu. Fuglasöngur og rjómablíða var orðið að venju frekar en undartekningu hérna á Austurlandinu og hún varð að viðurkenna að bóndabrúnkan fór henni nokkuð betur en grámuggulega litararft vetrarins. Þrjú pör af svörtum augum í bóndabrúnkuandlitum - misstórum -  litu glaðlega til hennar og hún fann fyrir ómældu þakklæti til æðri máttarvalda, fyrir þetta ríkidæmi sitt. 

Eftir annir morgunsins settist hún niður með kaffibollann og hafði loks tíma til að velta draumnum fyrir sér. Samkvæmt öllum kokkabókum átti draumurinn ekki að boða neitt gott - bældar tilfinningar, flótti og þunglyndi og svo ekki sé talað um heimilislíf í molum - allt þetta las hún út úr draumnum - eða réttara sagt martröðinni, sem hafði verið að angra hana síðastliðnar nætur..... 

Nætur og  dagar liðu - og martröðin varð sífellt ásóknari  - en það undarlegast við þetta allt saman var að henni hafði sjaldan liðið jafn vel; flestir í sumarfríi á heimilinu, sólin skein og lék við hvern sinn fingur og hún hafði náð síðast eintakinu af Harry Potter í bókabúðinni.....

Já Harry Potter - hinn leynilegi elskhugi húsmóðurinnar síðastliðinn áratuginn - hún átti erfitt með að slíta sig frá æsispennandi frásögninni af galdrastráknum hugdjarfa - og það var ótrúlegt hve stutt henni fannst síðan hún hafði kynnst honum - en nú var liðinn nær áratugur og börnin hennar, ásamt heimilisföðurnum voru sammála um að bækurnar ættu ekki að verða fleiri..... hún leit yfir stofuna - jú, hún var í rúst - bræðurnir höfðu nýlokið við að dreifa úr leikfangakössum og það var hægt að sjá á slóðinni hvað þeir höfðu fengið að borða í hádeginu.......og hvar var heimasætan - hafði hún komið heim í hádeginu???

Húsmóðirin áttaði sig allt í einu á því að hún hafði vanrækt bú og börn vegna galdrastráksins prúða og vissi að hún var engu skárri en húsmæðurnar forðum sem flúðu inn í ímyndunarheim skáldsögunnar (fordæmdar af Ibsen og öðrum pirruðum karlskáldum) - þvílík snilld - á einu andartaki var hún komin aftur í tjaldið með Harry, Ron og Hermione og hún fann fyrir kulda og depurð Dementorana sem voru rétt á hæla þríeykisins..........

...hún sleit sig frá bókinni í stutta stund og gat ekki látið þá hugsun vera - að kannski ætti Harry einhvern þátt í martröðum síðastliðnu nátta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband