Þriðjudagur, 14. ágúst 2007
Gulur = viðbúin, tilbúin...
Það fór um hana kuldahrollur og enn meiri varð örvæntingin þegar hún var hætt að sjá í næstu stiku. Þoka og súld, rigning og rok og aðeins 6 stiga hiti og nú var vegurinn aftur horfinn, svona ætlaði þá blessaður ágústmánuðrinn að fara... í rok og rassgat!!! Húsmóðirin var á leið heim eftir fund - hún reyndi að setja stopp á hugsanir sínar til að forðast þess að keyra yfir rollurnar sem héngu aulalegar við vegkantinn.
Fagridalurinn var farinn að breyta um lit og græni ferskleikinn sem hafði verið svo hressandi í sumarblíðunni, var farinn að roðna og það var eins og gular vegstikurnar kepptust við að falla inn í umhverfið - þokan varð æ þéttari.
Hún minntist þess, fyrir aðeins ári síðan, nýflutt í þetta ótrúlega póstkorta-landslag, hversu djúp áhrif haustlitirnir höfðu haft á hana - og hún hafði fyllst ólýsanlegri ættjarðarást og lotningu. Nú kveið hún vetrinum, og á hverjum morgni sá hún æ fleiri gulnuð laufblöð á trjánum fyrir utan gluggana á húsinu þeirra. Haustið skreið hraðar yfir svæðið - hraðar en hnausþykk austfjarðarþokan og minnti hana ískyggilega á eigin æsku sem smátt og smátt var byrjuð að sýna einstaka gulleit blöð.
Rigningin lamdi á rúðu bílsins og nú var hún alvarlega að spá í að stoppa úti í vegarkanti - bíða eftir að rokið gengi yfir - en hún vissi að hú þyrfti að halda áfram. Þrátt fyrir að umferðarljósin væru engin hér þá voru önnur fyrirbæri sem sáu um að reka mannskepnuna áfram - hún flautaði á ráðvillta kind með lömbin sín tvö og horfði á dýrin spretta út í berjamó. Inn á milli gulu blettann sá hún glitta í svört og blá berin og hún glotti yfir eigin sjálfsvorkun.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.