Föstudagur, 7. september 2007
Og þá komst rútínan á ...
Klukkan var á slaginu hálf - hún leit í aftursætið: 1,2,3 júbb allir spenntir í sætum og líka þrælspenntir yfir að komast af stað í skólana og leikskólann, sú allra spenntasta var þó húsmóðirin góða - hún var spennt yfir að vera komin í rútínuna langþráða, spennt yfir að geta gefið af sér á annan hátt en að lesa barnabækur sussa og bía, útbúa morgunmata, snarl og hádegismata svo ekki sé talað um kaffitímana sem urðu æ, fjölmennari eftir því sem leið á sumar ....
EN nú var húsmóðirin kát og adrenalínið þaut um æðar hennar - fundar þarna og fundur hér, plana þetta og plana hitt vinna vinna vinna - vinna eins og maður eigi lífið að leysa - og hún vissi það innst inni að hún var lang ánægðust þegar allt var á suðupunktinum e.t.v. var þetta e-ð sem lá í ættum eða kannski snerist þetta um að þurfa í sífellu að fá viðurkenningu fyrir tilvist sína....allavegna, nú dugði ekkert nema láta hendur standa fram úr ermum, elda hafragrautinn, taka lýsi, fara yfir skólatöskur, athuga stundatöflur...
Hún náði rétt svo að koma við hjá mömmugrúbbunni áður en hún hélt áfram, þetta var kveðjustund enda flest börnin komin í leikskóla og mömmurnar þreyttar á að hanga heima með börnunum sínum - hér með er fundi slitið - gaman að kynnast ykkur - vonandi eigum við eftir að hittast e-ð .... hún var sæl með þetta fyrirkomulag enda svo sem ekkert mikið sem hún átti sameginlegt með hinum mæðrunum.
Jú, nema auðvitað börnin blessuð börnin....til hvers í ósköpunum var maður að eiga öll þessi börn. Þetta var setning sem enginn mátti heyra - því að sjálfsögðu í okkar nútímalega samfélagi þar sem ALLT er leyfilegt og víðsýni í hávegum höfð þá eru enn nokkur tabú sem ekki má segja frá.
Hún renndi niður brauðtertu númer þrjú, kvaddi mömmur og grenjand börnin þeirra og hoppaði út í bíl. Húsmóðirin rúntaði um bæinn og safnaði saman ungunum sínum sem voru þreytt en sæl - hún heilsaði öllum mömmunum og pöbbunum sem hún hafði einmitt líka heilsað 8 tímum fyrr, og hún sá að þau voru jafn þreytt og sæl og hún sjálf og eins og vinnandi maurar lögðu allir bílunum sínum fyrir utan húsin sín, roguðust inn með Bónuspokana og skólatöskur og biðu spennt eftir að geta eytt tíma með gullmolunum sínum.
Húsmóðirin góða vissi innst inni svarið við hinni milu tabú spurningu og strauk yfir litla ljósa kolla sem hjúfruðu sig upp að henni í sófanum - og rigningin lamdi rúðuna. Haustið var komið til að vera og rútínan átti eftir að halda áfram....
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.