Laugardagur, 15. september 2007
Fjöllin eru komin með húfur.
Húsmóðirin var lögð af stað heim - að fara á foreldrafund hafði verið eitt síðasta skylduverkefni dagsins. Hún sá heita sturtuna og upphitaða máltíðina í hyllingum. Það voru nákvæmlega 15 mínútna akstur frá Skólanum á Eiðum (þar sem miðstrákurinn var, glaður og kátur, byrjaður á löngu skólagöngu sinni) og til Egilsstaða - heim! Hún leit til himins, þar sem áður hafði verið grámygla og hvassviðri á leiðinni úteftir -en var nú orðið að heiðskýrum bláma - það var komið eiítið framyfir kvöldmatartíma og bláminn því nokkuð farinn að dökkna. Það var eins og fjöllin væru búin að setja á sig hvítar kollhúfur sem passaði vel saman við rauð laufblöðin á trjánum í skóginum.
"Þetta er eitt það íslenska landslag sem ég hef augum litið - blátt - hvítt og rautt", tautaði húsmóðirin með sér og hvítu kollhúfurnar minntu hana á síðastliðinn veturinn þar sem allavegna tvisvar hafði hún lent í þvílíkum hrakningum að það komst á spjöld æviágrips hennar.
Annað skipti hafði hún verið á barmi taugaáfalls - hún mundi eftir snjónum fyrir utan húsið þeirra sem skóf undir og yfir og var svo blautur og þungur og þurfti enn einu sinni að moka bílinn út - í flýti því inni biðu þrjú börn sem gætu farið sér að voða....þennan morguninn hafði snjóað óvenjumikið - meira að segja óvenju mikið miðað við Austurland tækifæranna. "Ég verða enga stund - byrjið að klæða ykkur í útifötin" hún vissi að heimasætan réði við þá bræður en ekki mjög lengi, enda sá yngsti strax farinn að sýna skap sitt ekki eldri en 1 árs. Hún mokaði og skóf og bjó til slóða niður stigann og alveg upp að bílnum, snjóskaflarnir náðu upp að þaki bílsins og nú var ekkert að gera nema moka eins og lífi ætti að leysa.
Henni var heitt og eyrun voru eldrauð þegar hún settist loks sæl og í sigurvímu undir stýri. Það var og, það var allt hægt ef viljinn var fyrir hendi. Það var yndisleg stilla úti fyrir og hún byrjaði að bakka bílnum úr snjóskaflinum - bílinn flaug afturábak .... en svo var eins og e-r ríghéldi í undirvagninn... hún var orðin pikkföst - þarna kom dropinn sem fyllti...- húsmóðirin var þreytt og á þessari stundu varð hún að viðurkenna ósigur sinn fyrir náttúruöflunum en þó fyrst og fremst fyrir örlögum sínum - því hvern hafði hún verið að blekkja - hún var ekki týpan til að takast á við þessar "Survivor" - aðstæður.... þá var það ákveðið, uppgjöf semsagt og stóru krakkarnir fengu frí í skóla og leikskóla... hún gerði sig tilbúna að stíga út úr bílnum þegar hún sá að bíllinn hafði skekkst - nú var bílstjórahliðin komin of nálægt himinháum skaflinum þannig að sú útgönguleið var orðin ófær - hún skreið yfir að farþegahliðinni en þar var sama sagan - allt pikkfast og ekkert nema hár snjóveggurinn á alla kanta - sama var í aftursætinu. Það greip um hana svo mikil ógnarskelfing og innillokunarkennd að húsmóðirn mundi enn eftir tilfinningunni þegar hún sat hér á heimleið eftir foreldrafundinn.
Hún renndi niður rúðunum og reyndi að skríða út en snjóskaflarnir voru of háir og snjórinn of blautur til að hægt væri að moka frá með höndunum. Í örvæntingu sinni byrjaði að hún að flauta og kalla út um gluggan en gatan sem hafði verið svo erilsöm stuttu áður, var alauð og ekkert fyrir utan nema frostið og kyrrðin. Hún beit sig í vörina og drap á bílnum - innilokuninn var alger og henni var hugsað til litlu unganna sinna uppi í íbúð.
Það var eins og hugsunin um hættuna sem gætu steðjað að krökkunum , gæfu henni aukaorku, hún þurrkaði tárin og byrjaði að sparka í hurðina hjá aftursætinu - eftir nokkurn tíma náði húsmóðirin að búa til það mikið rými í snjónum að hægt var að skríða út..... henni var borgið
Og nú var sólsetrið fallegt og Húsmóðirin sá glitta í Egilsstaði og gul skíman frá húsinu þeirra yljaði henni um hjartað - hún brosti við fjöllunum með kjánalegu hattana sína en bak við brosið leyndist myrkur kvíðinn fyrir vetrinum sem beið óþreyjufullur upp í hlíðum fjallanna.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:00 | Facebook
Athugasemdir
Hæ sæta mín
Þú ert eina bókin sem ég les Vetur nr tvö verður mun auðveldari vegna þess að nú þekkir þú þetta, og kannski snjóar bara ekkert fyrir austan núna (ég er að reyna að vera hughreystandi).
Vonandi eru krílin ánægð í skólunum sínum og þið hjónin í vinnunni og lífinu.
Bið að heilsa.
Kristín
Kristín (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 14:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.