Mánudagur, 26. nóvember 2007
Loksins blóm í bænum.
Það var ekki laust við að heimilisfólkið væri farið að finna fyrir smá jólafiðringi í maganum - allavegna hafði frostið og fjúkið fyrir utan gluggana sitt að segja og ekki skemmdi fyrir nokkrar jólaseríur sem komnar voru upp. Húsmóðirin átti þó seint eftir að venjast þessari rosalegu jólastemningu sem virtist dembast yfir fyrr hérna úti á landi heldur en annars staðar og krakkarnir voru meira að segja dulítið sekptísk á þennan flýti - voru jólasveinarnir kannski farnir að reima skóna strax?
Flest hús í bænum voru að komast í jólabúninginn og henni fannst vera nokkrar vikur síðan Dagskráin fór að telja niður til jóla (fyrir þá sem ekki vita þá er Dagskráin vikurit sem maður verður að lesa til að vera INN og vita hvað er um að vera í nágrenninu - ef gleymist að lesa á maður t.d. á hættu að koma að lokaðri sundlaug á góðum sunnudegi eða það sem verra er missa af stórum viðburðum í bænum).
Og húsmóðirin hló kaldhæðnum hlátri þegar hún las auglýsingu um nýjasta viðburðinn í bænum - á sjálfan "Neytendur - kaupum ekki neitt í dag" - daginn átti að opna og vígja RISAverslun Blómavals og Húsasmiðjunnar á Egilsstöðum. Loksins gat húsmóðirin séð fram á blóm í vasa og drasl í haga - og mikið hafði hún beðið lengi eftir því að dulítið brot af úrvalinu úr Reykjavíkinni myndi flytjast nær henni. Með lítinn vott af jólabirtu í hjarta og tilbúið visakortið pakkaði hún nöldrandi ungunum sínum út í frostið og lofaði þeim meira að segja nammi úr versluninni flottu - ef þau yrðu þæg og þolinmóð.
Þær mæðgur fengu nánast ofbirtu í augun af öllu puntinu og prjálinu og það var ekki laust við að karlpeningurinn heillaðist af snúru og seríuúrvali búðarinnar. Þarna var líka hin mesta stemning enda allur bærinn staddur þarna til að brjóta upp á hversdagsleika helgarlífsins. Húsmóðirin missti næstum móðinn enda hafði hún átt um sárt að binda eftir að hafa flutt úr mekka blómabúðanna í Frederiksberg og til Egilsstaða þar sem næsta Blómabúð var í 75 km fjarlægð (nánar tiltekið í Neskaupstað), rugluð af öllu úrvalinu og í innri baráttu yfir hvað mætti kaupa fyrir heimilið leit hún allt í einu í lítið látlaust horn þar sem stóðu ilmandi Hýasintur í plastpokum - og allt í einu helltist yfir hana svo ógurlegur söknuður í dönsku jólin þeirra og andasteikina og eplaskífurnar og flesksteikina (og meira að segja hvítölið var allt í einu orðið meira freistandi en malt extrat frá Egils), að hún gleymdi öllu fíneríi og ákvað að fjárhæðinni yrði eingöngu eytt í blómin. Hún sá fyrir sér hýasintur í hverju skúmaskoti sem myndu fylla upp í tómleikann á daginn og hrúgaði vænum slatta af herlegheitunum í körfuna.
Hún stóð við kassann og vildi borga en lenti í stappi við afgreiðslukonuna - "það er skammtað - aðeins tvö blóm á fjölskyldu" Húsmóðirin hélt að þetta væri eitt af skemmtiatriðum dagsins en sá þó fljótt að afgreiðslukonunni var fúlasta alvara með þessu - í fáfræði sinni hafði hin Reykvíska húsmóðir gleymt því í örlitla stund hvar hún væri stödd.
Húsmóðirin bjó vel um blómin sín tvö og kom þeim hagalega fyrir á skrifstofunni sinni - þannig gat hún fylgst með þeim yfir daginn. Já nægjusemi er vel stunduð hér í bæ!!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.