Fimmtudagur, 6. desember 2007
Jesús reykelsi og firra
Mugison kom í bæinn. Húsmóðirin hafði unnið með nýjustu afurð blúsarans í eyrunum síðastliðnu vikur og hún þurfti að lesa auglýsinguna tvisvar til að trúa sínum eigin augum - Mugison með tónleika í hátíðarsal menntaskólans!!!! Nú mátti ekki tæpara standa og með miklum hraði var búið að redda pössun, kaupa miða og plana tónleikakvöld með eiginmanninum.......það voru ekki margir á tónleikunum enda Mugison ekki áskrifandi af Dagskránni - að halda tónleika sama kvöld og jólabingó kvanfélagsins er haldið - er auðvitað ekkert nema fáfræði:)
Nokkrum dögum síðar, nánar tiltekið fyrsta sunnudag í aðventu sat hin sama húsmóðir í kirkjunni - nú var helgihaldið tekið við á ný því heimasætan gat ekki látið það vera að syngja í kirkjukór bæjarins - heilög aðventutónlist yljaði kirkjugestum um hjörtun og það var ekki laust við að kirkjuljósin ásamt hríðarbylnum fyrir utan áttu sinn þátt í að kynda undir jólastemninguna. Halelújaaaaaaaaa og englaraddir barnanna áttu ekkert skylt með hinum harða og kynþokkafulla söng Mugisons - þrátt fyrir söngin "Jesus is a great name to moan" var ekki hægt að tala um trú og Mugison í sama orðinu án þess að roðna - en það var allt önnur saga - samt hafði húsmóðirin fundið fyrir meiri andlegri upplifun á blús- rokk tónleikunum heldur en þarna í hinu allra heilagast húsi ....... presturinn hélt áfram að predika og það var ekki laust við að henni fyndist erfitt að halda augunum opnum....
...enda mikið búið að leggja á fjölskylduna í annríki jólaundirbúningsin - "passið upp á stressið" - nú snérust jólin um að passa upp á að stressa ekki fjölskyldurnar um of - svo mikil var áherslan á að hafa það huggulegt og kósý að það mátti með sanni segja að allir voru ofur-önnukafnir og orðnir stressaðir yfir að hafa það huggó.
Húsmóðirin var nánast þreytt við að hugsa um dagana fram að jólum - föndur í skólum og föndur í leikskóla, fimleikasýningar og jólatónleikar, börnin í klippingu og svo voru það tveir jólaprinsar sem áttu afmæli bráðum og og og go og;) Allt þetta annars huggulega jóladót var farið að herða vel að hálsi húsmóðurinnar og hún átti erfitt með að átta sig á því hver væri galdraformúlan á afstressandi jólum....
Presturinn var enn að tala - hún leit á klukkuna - jæja, nú máttu þessi huggulegheit bara fara að klárast - það beið hennar stafli af þvotti heima og vinnan hafði hrúgast upp á skrifborðinu og svo var það e-ð með að fullt af fólki hafði verið boðið í mat um kvöldið....."og hirðingjarnir birtust með gjafir handa lausnaranum... gull, reykelsi og ...."
....bráðum 6 ára strákurinn hennar kippti í hana og suðaði enn einu sinni um það að komast út úr þessari kirkju - "mamma ég kann þessa sögu hvort eð er, það koma 3 gaurar og gefa Jesú gull reykelsi og FIRRU......"
Húsmóðirin hló hátt með krökkunum sínum á meðan þau reyndu að finna bílinn í kófinu - snjórinn náði þeim langt upp á hné - hún leit á sæl andlit englanna sinna - þetta jólastress var kannski firra - en krakkarnir virtust hafa það gaman - og bíllinn malaði eins og feitur jólaköttur.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.