Miðvikudagur, 4. október 2006
So, How do you like Egilsstadir?
Já, nú má með sanni segja að það sé langt liðið síðan húsmóðirin hefur bloggað - og ástæðan, jú, það er frá harla litlu að segja!! Lífið gengur sinn vanagang og í mörgu að snúast í hversdagleikanum - enda getur hin 5 manna fjölskylda auðveldlega verið 150% fulll vinna - það er að segja ef maður hefði áhuga á svoleiðis vinnu ..... því að þrátt fyrir miklar annir þá er ekki þar með sagt að þetta séu áhugaverð verkefni sem húsfreyjan góða (ég) þarf að fást við. Það þarf að sjálfsögðu að koma öllum á lappir, skipta á kúkableyju, gefa morgunmat, klæða allla og græja fyrir skóla, leikskóla og vagn, skutla krökkum í áðurnefndar stofnanir, og setja í þvottavél, gefa hádegismat (og reyna að muna eftir að fóðra sjálfa sig) skipta á kúkableyju, leika við konfektmolann, og svo aftur út í vagn, sjá um hina algengustu heimilisverk (það er að vísu krísa núna þar sem uppþvottavélin er í stykker) sækja börn, skutla í tómstundir, tala við og knúsa og kjassa krakkalakkana, elda kveldmat, hátta, pissa tannbursta krakka, svæfa og svoooooo henda sér upp í sófann og liggja þar og þykjast horfa á imbann (þ.e sjónvarpið - nú má enginn misskilja mig og halda að hér hafi verið að tala um heimilisföðurinn ;)
Þetta er nú stórt séð það sama og var í gangi í Danmörku - eini munurinn er nú samt að þar hafði maður hina og þessa vini sína til að væla í og heimsækja, og brjóta upp á amstri hversdagins með því t.d að gera mun á hversdögum og helgidögum. Nú mega lesendur þessa bloggs ekki halda að húsfreyjan sé að setja sig á háan stall og haldi því fram að hversdaglegar pliggtir þessarar fjölskyldu séu annarskonar eða erfiðari en annara fjölskyldna víða um heim, ó sei sei nei - þetta er svona alls staðar og ekki neins staðar - og það er með einsdæmum að flestar fjölskyldur skuli komast yfir þetta allt saman á meðan BÁÐIR aðilar vinna sína 9 tíma vinnudaga.
En út af hinni þéttskipuðu dagskrá húsfreyjunnar þá hefur ekki gefist mikill tími til félagslegrar iðkanna - allir vinir og ættingjar úti í heimi keppast við að spyrja hvort húsfeyjan sé ekki búin að koma sér upp þéttu vinaneti kaffisopakvenna og slúðurmeyja. Suma daga virðist það svo freistandi að það liggur við að uppskrift prinsessunnar sé prófuð, hún er svona:
Uppskrift til að finna sér nýja leikfélaga:
- Finna heimili eða stað þar sem pottþétt er að finna manneskur á þínum aldri (þetta er tímafrekasti þátturinn í ferlinu - en ef grunnvinnan er vel unnin þá ætti það að borga sig á endanum)
- Sitja um þetta tiltekna svæði, og fylgjast grannt með atferli tilvonandi vina (hér á sérstaklega að passa sig á að verða ekki kærður fyrir gluggagæjur -eða annað afbrigðilegt athæfi)
- Leita að heppilegu tækifæri til að "rekast´á " tilvonandi vin, og volá!!!! alltí einu verður lífið mikið skemmtilegra
- varaplan: ná sér í vini á förnum vegi, snúa upp á hendina á "vininum" og þvinga bókstaflega til að koma heima að leika.
Ég hef fylgst með meistaranum í þessari iðn vera að störfum og hala inn vinkonur og vini í tugatali ..... þetta virtist virka!! ætlaði samt ekki að láta reyna á lið nr.4.
Þar sem þessi meistari vinasambandanna er mun yngri en húsfreyjan lífsglaða og mjög skyld henni líka ;) þá ákvað húsmóðirin að nú væri að duga eða drepast - nú mættu öll mikilvægu heimilisverkin bíða betri tíma og að nú hæfist missíónin "Að draga húsfreyjuna upp úr þunglyndi einmanaleikans"!!!
...og hvar er betra að byrja en á mömmumorgnum kirkjunnar? Með sól í hjarta og traust umræðuefni á takteinum (tanntökur og verð á bleyjum) arkaði húsfreyjan upp og niður bratta bakka í sólríka haustveðrinu. Það var ekki að spyrja að því - áhuginn var mikill á húsfreyjunni vænu, hvaðan hún kæmi, hverra manna hún væri, hversu mörg væru börnin og svo framvegis, svo kom spurningin sem brann á allra vörum "HVERNIG Í ÓSKÖPUNUM DATT YKKUR Í HUG AÐ FLYTJA HINGAÐ?"
....en einhverra hluta vegna stóð á svari húsfreyjunnar á þessum sólríka mömmumorgni. Hvort sem það hafi verið út af feimni, eða bara það hvernig sólargeislarnir léku við jesúmyndirnar uppi á öllum veggjum - þá fannst henni erfitt að tala ekki frá hjartanu í þetta skiptið (þetta var þá rétti tíminn til að verða guðhræddur - ó sei sei nei).
Það væri hrein og bein lygi að halda því fram að enginn hafi spurt þessarar spurningar áður - það hafa verið alls konar aðilar - allt frá nánum fjölskyldumeðliðum og fjarskyldir kunningjar, alltaf hefur ofurfjölskyldan verið samstíga um svarið - brosað sólbrúnu brosi og yppt öxlum yffir ævintýragirni sinni og haldið því fram að lífið sé saltfiskur hvar sem maður er staddur í heiminum.......
"So, how do you like Egilsstadir, og hvernig datt ykkur í huga að koma hingað?" Hik húsmóðurinnar virtist koma ónoti á hópinn, "hvað ætlar hún ekki að svara stelpan"," ohh ég vissi að það kæmu bara skrýtið fólk úr BÆNUM"," hvað þá fólk sem hefur búið í útlandinu"........
Allskonar hugsanir byrjuðu að sækja að húsfreyjunni: Var þetta þá ÞAÐ!!! var það hérna í sjálfu guðshúsinu sem myndi renna upp fyrir henni að hún hefði gert stærst mistök lífs síns......en táknrænt!
Húsfreyjan arkaði aftur heim, brjótandi heilan um hvað það væri eiginlega sem allt þetta snerist um, hvert væri svarið við hinni miklivægu spurningu....og komst að þeirri niðurstöðu svarið ætti að geyma í hugarfylgsnunum þar til hjartað hefur fundið hinn rétta takt.
knús og sakn sakn
tótlan
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Já, það hefur margt gerst í guðhúsinu góða í gegnum tíðina, ég vona bara að húsmóðurin góða finni rétta taktinn í lífinu.
Halla (IP-tala skráð) 6.10.2006 kl. 17:34
Eftir að eiginmaðurinn var farin til vinnu þennan sólríka þriðjudagsmorgun í ágúst stökk mín á fætur, tróð sunddóti ofaní poka og og skellti hurðinni í lás,1 km í sundlaugina eftir endilöngum bænum og eina farartækið fætur tveir. Þegar út var komið var ekki annað hægt að gera en að brosa út í annað, draga djúpt inn andann og dást að útsýninu,hreina loftinu og náttúrunni við bæjardyrnar. Fjörðurinn spegilsléttur og ekki ský sjáanlegt á lofti. Litirnir allir svo einlægir og tærir, sjórinn dimmblár, himininn skær blár og þar á milli skær mosagræn fjallshlíð. Í firðinum hvíla smábátarnir og kasta spegilmynd sinni á hafs-yfirborðið, kofar og skemmur kúra sig upp að bænum og stolt bæjarins útgerða-dallurinn er bundinn við kajann. Og ég, Reykvíkingur í húð og hár- búsett í Kaupmannahöfn síðastliðin 5 árin, með efasemdir um veru mína í þessum blessaða útnára fyrir ekki meira en 10 klukkutímum. Létt í spori arka ég af stað með andlita-töskuna mína(Designed in Sweden-keypt í Malmö) íklædd joggurum úr Elm Design(Reykjavík), bleikri gollu með ósimmitrískum hnöppum og sléttbotna silfurskónum frá U.S.A. Anda djúppt að mér tæra sjáfarloftinu í hverju skrefi. Í hlíðinni fyrir neðan mig er gamall fjarðarbúi úti á baktröppum í litla gula ferkantaða steypta húsinu sínu með silfruðu bárujárnsþaki. Hann starir í átt að mér, ég geng ótrauð áfram þrátt fyrir að hann einblíni á mig. Ég geng nær honum og lít í augun á honum og býð góðan daginn, hann mumlar og lítur niður fyrir sig, man allt í einu hvað hann var að gera áður en þessi undarlega vera birtist og tekur til við að hrista lyngið úr bláberjunum sem hann tíndi í fjallinu fyrir ofan hús snemma sama morgun. Þegar ég er komin fram hjá honum heyri ég að hann hættir hristingnum og ég finn að hann starir á eftir mér. Hver er þessi aðkomukona? Hún býr ekki á tjaldstæðinu! Hvað er hún að gera hérna? Ætli hún sé ættuð héðan? Hverra manna er hún? ... Hann tekur við að hrista aftur.
Elsku Tóta mín ég skil þig, einsemdin er tómleiki sem erfitt er að fylla, þrátt fyrir að maður sé umvafin fólki sem þykir vænt um mann, þá þarf maður að leita inn, finna taktinn og sættast. Lífið skiptist í tímabil, þau eru misspennandi en það sem þau eiga sameiginlega er að þau enda og ný tímabil taka við. Sama hvernig tímabilin voru við okkur getum við horft dreymin til baka og séð að það er alltaf einhvað gott við öll tímabil sem við höfum farið í gegnum, sama hve erfið þau voru á meðan á þeim stóð.
Söknuður til ykkar allra frá mér og Halla, sjáumst fljótlega.
Guðný (IP-tala skráð) 8.10.2006 kl. 11:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.