Þriðjudagur, 8. apríl 2008
Að vera innan um timburmenn
Það var ekki laust við að húsmóðurinni fyndist hún vera e-s konar gestur á landinu sínu góða þessa dagana eða að minnsta kosti áhorfandi í e-m fáránlegum leikþætti. Bölspár og neikvæður halli settu sífelld strik í reikninginn í hverjum fréttatímanum og það var ekki laust við að veðrið (rétt eins og verðið) kepptist við að búa til réttan effektinn - frost, snjór og meiri kuldi og sú staðreynd að setja átti sumardekkin undir þann 15. var eins og kaldhæðnislegur farsi í annars dramatískum leikþættinum.
En stórfjölskyldan var svo sem ekkert að kippa sér mikið upp við þetta - hélt bara sínu striki og setti hausinn undir sig - enda svo sem fallið ekkert það stórt á þeim bænum, nýskriðin úr sultarkreppu námsáranna og alls ekki komin inn í neyslugír landans. Húsmóðirin rifjaði upp síðastliðnu tvö ár og glotti við tönn, hún minntist þess hve sjokkið var mikið við að sjá hið nýríka Ísland með alla nýju póleruðu pjeningana sína, skuldbreyttu lánin og hið flotta orð "útrás" hafði allt í einu fengið allt aðra merkingu.
Því þau höfðu stungið af til Danaveldis í síðustu timburmönnum, komin þá sjálf í "pakkann" með tvö hlaðin visakort - allt of dýran bíl og lítið barn á arminum - og þau flúðu í flatneskjuna - landið þar sem mjólkin kostaði það sama og í gær og ekki þótt hallærislegt að ferðast um með almenningsvögnum eða að endurnýta barnafötin.
En þrátt fyrir allar bölspár leið þeim vel á Íslandinu góða - og húsmóðirin neitaði að láta allt svartsýnishjal eyðileggja fyrir henni tilhlökkun komandi flutninga - eða íbúðarkaupin sem þau höfðu nýlega undirritað - nánar tiltekið á "svartasta degi hinnar íslensku krónu"...
Húsmóðirin skemmti sér við að mála upp þessa mynd: - þau fóru þegar partýið var að byrja - komu til baka aðeins of seint til að fara að detta í það með öllum hinum (og sáu í raun fram á að það væri skynsamlegra að vera bara á bíl þar sem liðið var langt fram á nótt) og nú voru þau vöknuð úthvíld og með skýran koll innan um alla hina timbruðu mennina....
og þó ....
af öllum fyrirsögnunum að dæma - þá höfðu þau misst af heljarinnar skemmtilegu (neyslu) partýi - og húsmóðirin gat ekki látið það vera að pirra sig út í það að vera send út til að þrífa upp æluna eftir alla hina.
kveðjur úr kuldanum í sveitinni og styrkur til allra þeirra sem hafa orku til að mótmæla þessum skrípaleik.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.