Einn dagur í ræktinni

Það var ekki hægt að dansa um þessa staðreynd lengur, húsmóðirin hafði hægt og sígandi sigið inn í sama farið og hún hafði svo oft áður lent í - letimunstrið mikla!!!! Já einhverra hluta vegna hafði ekki gefist mikill tími til að huga að líkamanum og heibrigði sálar í öllu barna - og flutningastússinu. Það var ekkert annað að gera en að skrá sig í ræktina - já hér úti á landi er allt - þá meina ég ALLT- skrifað með greini (smbr. Bónusbúðin (þökk sé almáttugum fyrir hana) kaupfélag, kaffihús, bankinn, pósturinn, og svo ræktin, sem er inn í hinu fjölhæfa leikfimihúsi héraðsbúa - þar ber líka að finna sundlaugina, sunddeildina, fimleikadeildina, fótboltadeildina, samkomusal grunnskólans og svo mætti lengi telja)

Allavegna, nú var komið að því óumflýjanlega; að kaupa sér kort í ræktinni - en þegar loks á hólminn var komið - var þar ekkert í boði fyrir útjaskaðar heimavinnandi húsmæður...... þar var nóg í boði fyrir stælta menntaskólanema, miðaldra kellur sem litu á þetta sem fálagsmiðstöðina sína og já, jafnvel ungt og hraust fólk á framabraut sem gat skellt sér í góða morguntíma rétt fyrir átök vinnudags. En þegar húsmóðirin mætti þreytt og þjökuð af hreyfingarleysi rakst hún á skilti sem á stóð með tússlítuðum, heimatilbúnum stöfum:

Gestir líkamsræktarstöðvarinnar athugið - börn eru ekki velkomin inn í tækjasal eða í tímum. Vinsamlegast skiljið börnin eftir heima!!!!

Nú voru góð ráð dýr, ekki gat húsfreyjan skakið kropp sinn þarna með litla örverpið í fanginu og ekki var í boði að koma barninu fyrir hjá dagmömmu eingöngu svo húsfreyjan væna gæti hoppað og hrist á sér dellurnar eftir eigin geðþótta. Hún ákvað að leggja höfuðið í bleyti og úr varð  stór pöntun á DVD leikfimidiskum. Ha haaa, af hverju hafði hún ekki gert þetta áður - hver þurfti á rándýru mánaðarkorti að halda þegar hér var hægt að stofna sína eigin stöð á miðju stofugólfinu.

Pantaðir voru 4 diskar - einn til að hrista af sér aukakílóin, annar til að auðvelda liðleika og síðan var það styrktarþjálfun og jóga til að öðlast ja, styrk og innri ró. Það verður að viðurkennast að diskarnir voru of fljótir að berast húsmóðurinni, yfir sjó og land, fjöll og fyrnindi ( bölvuð sé nútímasendingar og internetbúðir) þannig að þarna stóð þetta fullkomna safn líkamsræktardiska og safnaði ryki uppi á bókahillu í allt of langan tíma.......

....nagandi samviskubit húsmóðurinnar var að gera út af við heimilisfriðinn - hún varð fljót að finna sér allskonar afsakanir fyrir hreyfingarleysinu; allt í einu hafði litli prinsinn eignast góðan leikfélaga sem var sveitt við að sannfæra sjálfa sig um að kallgreyið þyrfti nú á félagslegum þroskaleikjum að halda - hún varð sannfærð um að það væri tími kominn á alþrif í íbúðinni og var óvenju hress og dugleg móðir, tilbúin með kakó og kökur í kaffitímann - þegar heimasætan og riddarinn prúði komu heim úr skóla og leikskóla. Allt þetta til að forðast staflann sem beið og beið eftir að verða tekinn í notkun.......

þessu varð að linna - og hún vissi að nú væri ekkert annað að gera en taka sig taki og ákveða "tímana" í hinni heimatilbúnu líkamsræktarstöð.

Hún beið eftir að litli prinsinn væri farinn í lúrinn góða úti í vagninum, dreif sig í J-Lo dressið (sjá lýsingu í blogginu " Á fyrsta sætið stefni ég") og setti dýnuna á gólfið fyrir framan "kennarann". Það var jóga á dagskránni í dag - var ekki e-s staðar sem hún hafði lesið að það borgaði sig ekki að byrja of geyst eftir langa pásu í hreyfingarleysi og sleni?......jóga var svarið og ljúfir indverskir tónar byrjuðu að fylla íbúðina hlýleika og birtu. Hún bjástraði og teygði, togaði og beygði - og það var ekki frá því að hún fyndi strax mun á sér eftir aðeins örfáar mínúturSkömmustulegur......

...það var ekki fyrr en í lok "tímans" að hún tók eftir augunum sem störðu inn um stofugluggann.....þetta voru 4 smiðir á svölum íbúðarinnar á húsinu á móti - hún hafði að sjálfsögðu ekki hugsað út í það að draga fyrir gluggatjöldin og auðvitað ákkúrat þennan morgun var heill her af pólskum karlmönnum að bjástra rétt fyrir utan gluggann hennar........hún vinkaði vandræðalega til þeirra og ákvað að kannski væri einka-líkamsræktarstöðin hennar ekki hennar einkamál lengur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áfram Tóta segji ég nú bara. Iss þessir smiðir eru bara abbó þar sem þeir þurfa greyjin að hýrast úti í kuldanum á meðan húsmæðurnar hafa það gott í jóga og alles... hahahahah...

Halla (IP-tala skráð) 2.11.2006 kl. 17:48

2 identicon

Ég tek undir með Höllu og segi gó Tóta gó, vildi að ég væri jafn dugleg og þú, hef ekki einusinni fundið mér tíma í að fjárfesta í svona líkamsræktar fjársjóði, sé að ég get tekið mér þig til fyrirmyndar.

Guðný Arna Eggertsdóttir (IP-tala skráð) 6.11.2006 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband