Bil á milli bylja

Það hefur snjóað stanslaust í 3 daga hérna. Ekkert svona hálfkák eins og minnst er úr Reykjavíkinni og alls alls alls ekki þetta smá aumingja fjúk sem átti að venjast í Danaveldinu. Þetta er alvöru - svona aðstæður sem ætti að henda keðjum undir alla bíla og skipa fólki að fara á jeppafyllerí. En hérna lætur fólk eins og ekkert sé eðlilegra - auðvitað er ekkert eðlilegra á þessum tíma árs og á þessum landshluta, það er bara óeðlið í okkur aðkomufólkinu sem er frekar áberandi. Og þó.....

...Húsmóðirin góða er löngu hætt að stressa sig á mikilvægum smáatriðum eins og hvort heimilisfaðirinn hafi komist yfir dalinn og í vinnuna og hvort hann skili sér heim þennan daginn, hvort eigi að hringja í skólana og sjá hvort að kennsla falli niður og jafnvel að skipuleggja brjálaðar búðarferðir til að geta undirbúið sig fyrir mánaðar innilokun út af óveðri. Hún og hinir fjölskyldumeðlimirnir eru búnir að aðlagast breyttum aðstæðum ótrúlega hratt, meira að segja hefur  yngsti meðlimurinn látið sig hafa það að honum sé troðið í 45 undirlög af fötum ÁÐUR en gallanum er skellt yfir hann og það er ekki að sjá nema eldri krakkarnir séu annars hæstánægð með allan snjóinn sem er tekinn að blokka allar útgönguleiðir...

...minningarnar byrja að kvikna eftir því sem líður á vikuna og áður en húsmóðirin góða getur nokkru um það ráðið þá er hún farin um 20 ár aftur í tímann, þar sem hún liggur ofan í ókláruðum húsagrunni ásamt nýjum vinkonum, það hefur snjóað alla nóttina og því er grunnurinn eins og sundlaug fulla af dýrindis hvítum snjó. Á þessu tíma var hverfið ennþá í byggingu og það er ekki laust við að það fari hálfgerður hrollur um húsmóðurina af tilhugsuninni um allar slysahætturnar sem voru á þessum tíma á byggingarsvæðunum allt í kring. Hún man eftir snjónum - það var alltaf allt á kafi í snjó á þessum tíma og það var ekki laust við að hún glotti við tilhugsunina hvað lífið var einfalt þá - en samt svo ótrúlega flókið - nýtt hverfi og nýjir krakkar en samt einhvern veginn alltaf tími til að henda sér í skaflana og búa til engla í snjónum, grafa sig inni í snjóhúsum og safna snjóboltum fyrir næstu átök við strákana í hinni götunni.....já einu sinni var Grafarvogurinn lítið pleis

EN nú var hún stödd á ennþá minni pleisi og ekki nær eins ánægð með snjóinn og þegar hún lék sér með nýju vinkonum sínum - það var einhvern veginn erfiðara að njóta mjallarinnar þegar þurfti að klæða krakkana í allar flíkurnar, brjóta sér leið í gegnum snjóinn og skafa af bílnum bara til að koma þeim á réttum tíma í skóla og leikskóla.... og einungis til að fá háðsglósurnar frá lókal mönnum sem hristu hausinn góðlátlega og sögðu "þetta, þetta er ekki neitt - smá fjúk - bíddu þangað til alvöru snjórinn kemur - hehehe" en hún vissi að bak við glottið hugsuðu þeir allir það sama; þau endiast ekki út árið !!!

Snjóstormurinn bylur á rúðunni og það er svekkt fjölskylda sem er á leið í bólin sín, fyrirhugaðri Reykjavíkurferð er frestað um óákveðin tíma sökum veðurs. Hún breiðir yfir ungana og veltir því fyrir sér hversu auðvelt er að hefta frelsið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband