Þriðjudagur, 4. nóvember 2008
Af bókabílum og Royalbúðingum.
Sama hvað húsmóðirin reyndi að sökkva sér ofan í svartsýnisspár og niðurdrepandi fréttaflutninga, þá varð hún að viðurkenna að öllum í kringum hana leið barasta ágætlega. Auðvitað var framtíðin óskýr og kannski ekki vitund björt og já, húsnæðislánið nú ekki tekið til næstu 40 ára heldur til næstu 70 - en e-n veginn var það eins og þungu fargi væri lyft af húsmóðurinni - svona líkt og þegar blaðran loksins springur hjá barninu sem hefur verið að þenja hana út.
Allt í einu voru tengslin við ræturnar orðnar skýrari í þessi krepputali öllu - þó má ekki skilja það þannig að húsmóðirin hafi alist upp við slæman kost eða skort - þvert á móti, en nú voru ýmis gömul gildi farin að skjóta upp kollinum - nostalgíuferðin ætlaði engan enda að taka.
Og ungu hjónin lygndu aftur augunum og nutu þess að rifja upp æsku sína fyrir börnunum sínu.
Og það þurfti ekki mikið til að kalla þessar minningar fram. Lyktin af Royal karamellubúðingsduftinu hafði t.d. ótrúleg áhrif á sálartetrið þessa dagana, og áður en húsmóðurin gat við það ráðið ferðaðist hugur hennar áratugi aftur í tímann - allaleið í bókabílinn fyrir utan Gunnlaugsbúð í Grafarvoginum, hún gat enn fundið fyrir eftirvæntingunni þegar hún leit þar inn í fyrsta sinn, stútfullur bíll af bókum - þvílík snilld! Og hún gat ekki beðið eftir að fá að lesa þær allar, bækur eins og "Franskbrauð með sultu", "Pollýanna" og "Elías" og og og - og strjúka yfir hverja blaðsíðu og kynnast öllum þeim ótrúlegu persónum sem kveiktu í ímyndunaraflinu....
Hún leit yfir bókasafnið (þar sem hún beið eftir heimasætunni úr tónfræðitíma) og þar mættu henni eitt par af augum svo lík hennar....og hún kannaðist við eftirvæntingarsvipinn þegar úfinn, bráðum 7 ára kollurinn grúfði sig aftur yfir bókina - og þá rann það upp fyrir henni - að framtíðin væri í öruggum höndum.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.