Sunnudagur, 10. desember 2006
Opinberun á aðventukvöldi
Það er erfitt að komast ekki í jólaskap hérna á austurhluta landsins. Skógurinn fyrir utan gluggana svo mikið á kafi í snjó að maður bíður spenntur eftir að e-ð eigi eftir að bresta, allavegna svigna, undan þunga snjókornanna..... en svo eins og á einu andartaki hefur rigningin þvegið skóginn aftur og ekkert stendur eftir nema berar og skjálfandi hríslur, svell og grámi.
Það var ekki laust við að húsmóðirin sæi skapsveiflur sínar dansa í tak við veðráttuna - annað hvort var allt svo fallegt og rómantískt og það var eins og hún gæti tekist á við öll verkefnin án þess að hafa fyrir því -þolinmæðin átti sér engin takmörk og ekkert nema gleði og jólafriður gældu við heimilið...... en svo, eins og með snjóinn, hvarf þessi fegurð og einmanaleikinn byrjaði að tæla hana niður í þunglyndi skammdegis og hversdagsleika - þetta var óþolandi rússíbanareið - sem húsmóðirin var vægt sagt orðin leið á að taka þátt í.
Með komu jólanna tóku ýmsar nýjar skyldur að læðast inn í önnum hlaðinn hversdaginn. Það þurfti að föndra í leikskólum og skólum, búa til jólakort- horfa á jólaleikrit og þar fram eftir götunum og fyrst og fremst þurfti fjölskyldan að dusta rykið af trú sinni og byrja að stunda kirkjuna á staðnum..... þar söng heimasætan sinni engilfögru röddu með barnakórnum og það var ekki að sjá að hún hefði fengið votta af þeirri efablandinni barnatrú sem foreldrarnir voru enn að glíma við að skilja.
Við innileik prests og söngva, sálma og kertaljósa, þá var eins og myndaðist þýða inni að hjartarótum húsmóðurinnar og hún átti erfitt með að halda tárunum aftur, þar sem hún stóð og hlýddi á aðventumessu þetta sunnudagskvöld. "Hvað var nú í gangi?" hugsaði hún nær upphátt og vonaðist til að enginn tæki eftir þessar ofurviðkvæmni sinni. "Er ég núna loksins að ganga algjörlega af göflunum?" En það var eins og þessi þýða væri ekki ein af þessum tímabundnu klikkunum sem höfðu svo oft áður heimsótt hugarfylgsni hennar, nei, þetta var hrein og sönn opinberun.....
hún reyndi að sporna við dýrðinni sem blindaði hana en varð að lokum að sætta sig við að þarna var hún ekki lengur við stjórnvölinn..... í góðri trú og með hlýju í hjarta hlustaði hún á söng barnanna "....blikar jólastjarna...." og tárin byrjuðu að trilla niður kinnarnar .....".... var hún áður vitringum..."
"stjarna allra baaaaaaarna"
hvort sem trúin var til staðar eður ei, þá vissi hún að þarna hafði átt sér stað mikil opinberum...
... það var erfitt að fóta sig í glerhálkunni á leiðinni út í bílinn, en það læddist lítið bros á andlitið hennar þegar hún horfði á fjölskylduna sína fóta sig á gráu svellinu og hún áttaði sig á því í fyrsta sinn hvernig tunglskinið glampaði í grámanum.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.