Að búa til slátur eða að vera með slátur - það er spurningin...

Og þá var komið að því - ragnarök og heimsendir virtust sveima í kringum hið íslenska þjóðarbú og húsmóðirin var hætt að fylgjast áköf með fréttatímum og auka-fréttatímum og spjallþáttum, það var meira varið í kraft tónlistarinnar og dansinn.....og jú, ekki var hægt að stöðva hjól heimilislífsins, það þurfti að strjúka hor af nebba, skipta á bleium og finna upp á kvöldmat, þvo þvotta, sjá um að lært væri heima og þar fram eftir götunum...

...en dansinn átti enn allan hug húsmóðurinnar og það var ekki laust við að hann færi fram á ákveðnu frísvæði þar sem áhyggjur voru látnar víkja fyrir skuldafeni og dráttavöxtum enda búið að greiða fyrir dansinn dýrum dómi og því ekkert annað í stöðunnni en að yppa öxlunum upp og niður og í hálfhring yfir því og láta kroppinn takast á flug.

Hún naut þess að vera aðeins innan um aðrar þroskaðar stelpur og að tjá sig með því tungumáli sem á að vera mannskepnunni svo eðlislægt en er löngu búið að grafa yfir með orðarumsumsum og seðlum og bleðlum karlveldisins og henni datt í hug sú fáránlega hugsun hvernig heimurinn væri í dag ef konur hefðu ávallt verið við völd....

OG karlarnir áttu orðið - fyrir utan félagsmálaráðherrann (en veiklulegt hjal hennar um að hlúa að hvort öðru mátti sín einskins fyrir ofsahrópum pjeningakallanna). Og áfram halda jakkafötin að kæfa andrúmsloftið með  orðum sínum og næla sér öðru hvoru í orð að láni frá formæðrunum..... því nú var mál til komið að spara, græddur er geymdur eyrir og allt það (nema auðvitað hjá þeim sem hlustuðu óvart á ráð jakkafatanna og spöruðu eyrinn á vitlausum stöðum) og því ekki að taka slátur - slátur er íslenskt - slátur er gott - eða jafnvel að prjóna vetrarfötin og já, prjóna bara allar jólagjafirnar í ár  -

Eitt jakkafatið gekk nú svo langt að minna á það í kreppunni hér á árum áður voru KONUR iðnar við að baka bakkelsið enda dýrt að kaupa það tilbúið í bakaríum landsins og enn aðrir gengu svo langt að minnast þess að öll tölfræði sannaði nú það að á tímum erfiðleika legðust konur líka í annarskonar bakstur sem mætti sjá afraksturinn af 9 mánuðum síðar eða um það bil. Enda ekki mikið annað að gera en að reyna að stoppa í öll þau auðu göt sem blöstu nú við í borg Óttans, atvinnuhúsnæði og tóm háhýsi yfirgefin og einmana svo ekki var talað um íbúðir, einbýlishús, búðir, kringlur og bíla.

Það var ekki laust við að húsmóðurin væri reið þessa dagana - samt ekki beint svona reið eins og hún væri að fara að springa - heldur meira svona móðurlega reið út í þetta sláturpartý sem var nú í gangi...því það var greinilega ekki það sama að vera með slátur og að taka slátur.

Og hún hélt áfram að vinna sig í gegnum verkefnabunkann á meðan hún velti því fyrir sér hvað mæðrum jakkafatanna fyndis um uppátæki þeirra.

 


Saga úr borg og flashdance dauðans.

Húsmóðirin teygði úr sér við tölvunaa - síðustu vikur höfðu einkennst af streitu og mikið reyndi á aðlögunarhæfni fjölskyldunnar - því enn einu sinni var komið að því að aðlaga stóru börnin að nýjum gildum og siðum í nýjum skóla og enn einu sinni varð biðin löng eftir pössun fyrir þann yngsta. En húsmóðirin vissi af gefinni reynslu að allt tæki þetta tíma - dustaði rykið af þolinmæðinni og svo var líka e-n veginn auðveldara að takast á við öll þessi hversdagslegu vandamál í faðmi stórfjölskyldunnar og vina - ein heimsókn eða morgunkaffi hjá mömmu  - þá varð allt gott aftur.

Og börnin voru í jafnvægi - tóku öllu umrótinu með stóískri ró - það var einna helst að 6 ára drengurinn ætti erfitt með að venjast umferðarmenningunni í stórborginn - hringtorg og bið á ljósum fór ekki vel ofaní viðkvæman magann enda náttúrubarn í sínu eðli - en heimasætan var kát - og kunni að njóta alls þess sem borgarljósin buðu henni í formi afþreyinga, sjopping-möguleika og skvísuferða.

Húsmóðirin horfði á allar þessar breytingar gerjast í fjölskyldunni og skyldi þó að hvar sem þau voru stödd í heiminum þá áttu þau alltaf heima þar sem þau settust að.... og nú loksins var yngsti meðlimurinn kominn í leikskóla og þá var eins og þokunni létti í hugarfylgsnum húsmóðurinnar og með táknrænum hætti for sólin líka að skína fyrir utan gluggan hennar.

Því það er hin mesta þraut hverrar móður að viðurkenna að börnum hennar er betur borgið annars staðar enn í mömmufangi og nú varð að bretta upp ermarnar - því nær 4 mánaða uppsöfnuð vinna lá á skrifborðinu og æmti og skræmti um athygli húsmóðurinnar...

...og hún var ekki búin að gleyma - áragömlum samningi sem undirskrifaður var í skjóli nætur - fyrir rúmum áratug síðan "gleymdu ekki sjálfum þér" - og nú þegar tækifærið var til að koma upp að anda, pústa frá sér áralöngum bleiuskiptum, andvökunóttum og tilfinningarússíbönum sem fylgja fólksflutningum - þá lagðist húsmóðirin undir feld og komst aftur í takt við sjálfið í sér og sveitt og eplarjóð í framan steig hún út frá fyrsta tíma sínum af mörgum í Jazz-dansi.

WHAT A FEELING!!!

 ...og aum í sínum 30 ára gamla skrokk gat hún ekki beðið eftir næsta tíma.


Af hringferðum...

Enn einn morguninn sem sólin kitlaði heimilisfólkið í nefið - þetta var auðvitað dásamlegt - að vera vakin svona fallega og ekki var það verra að finna hvernig smáfólkinu leið vel á heimilinu nýja. Og nú var kappkostað við að nota sumarblíðuna - húsmóðirin átti erfitt með að halda einbeitingunni við vinnuna þrátt fyrir að nóg var að gera svo sem á þeim bænum - og sólin hélt áfram að skína og krakkarnir áfram að skríkja og leika sér.

Og nú voru það útilegurnar sem bættust við og það voru auðvitað bara skot-túrar miðað við hringferðirnar síðastliðnu tvö ár - þar sem vegalengdirnar og 1400 kílómetrarnir höfðu öðlast nostalgískan ljóma nú þegar í huga húsmóðurinnar "já, manstu þegar við skutums rétt í helgarferðina forðum ahhhahah - já mikið var maður klikkaður". 

OG hugmyndirnar hrönnuðust upp.... varðandi húsið og verkefni og vinnu og verkefni og sparnað og verkefni og börn og verkefni og það var ekki laust við að húsmóðurinni féllust hendur yfir öllum þessu verkum og verkjaði í hugarfylgsnin yfir að reyna að nótera þetta allt saman niður - því nú a tímum gagnasöfnunnar og Goggle var nær ómögulegt að halda utan um allar þessar flæðandi hugmyndir og upplýsingar. 

Hún leit í aftursætið á bílnum - sá yngsti var loksins hættur að kvarta yfir þessum eilífu stoppum á umferðaljósunum og sá í miðið var hættur að finnast hann vera að hringsnúast á þessum endalausu hringtorgum enda ekki vanur svona stuttum hringferðum. Húsmóðirin hækkaði í útvarpinu og söng klökkum hálsi undir söng Óðins Valdimarssonar  ..."því ég eeeeeer kominn heiiiim"

...og hún blikkaði Esjuna í baksýnisspeglinum.


Íhíhíhíhí komum bæði frá Kópavooooogi

Þá var komið að því. Eftir flakk í rúm 8 ár - voru ungu hjónin loksins komin aftur heim. Það sem í byrjun átti að vera 2ja ára flótti úr neysluhyggjunni varð að smá útúrdúr - sem varð að viðamikilli innistæðu í reynslubankanum og nokkur börn að auki fylgdu í kaupbæti. Var lífið ekki yndislegt! Þau kepptust við að negla og skrúfa og raða og pússa - allt þetta til að fjölskyldunni liði sem best í nýja virkinu sínu.

Og það var eins og við manninn mælt - við hvert viðvik varð nýja heimilið að þeirra - og það var eins og hinn góði andi sem hafði ávalt fylgt þeim hliðhollur - hefði komið með þeim í kössunum - því nú lék hann um hvert skot og börnin skríktu og húsmóðirin trallaði. 

Heimilisfaðirinn var að vísu fjarri góðu gamni - enda varð hann að klára afplánun sína fyrir austan og húsmóðurin átti erfitt með að losna við þá hugsun að þau hin hefðu sloppið fyrr vegna góðrar hegðunar.

Ekki svo að skilja að lífið fyrir austan hefði verið slæm og ó hvað hún saknaði vina sinna, náttúrunnar og já jafnvel fjarlægðanna - sem gera fjöllin svo blá. En það breytt ekki þeirri tilfinningu sem læsti sig um hana núna. Hér var upphafsreiturinn og hér átti þau svo vel heima.

Með forlagatrúna að leiðarljósi hvarf hún c.a 27 ár aftur í tímann, nánar tiltekið í sandkassa í leikskóla í gamla Kópavoginum - og hún ímyndaði sér að þar sætu Gunni og Tóta byggjandi sandkastala, algjörlega óafvitandi að þangað myndu leiðir þeirra liggja saman að nýju - byggjandi annarskonar kastala.

Það er gott að búa í Kópavogi - en enn betra að finnast maður vera loksins kominn heim.

 


Minningar(snjó)korn

Húsmóðirin leit ítrekað á dagatalið - jú það var kominn maí, að vísu voru þessir margómuðu veðurguðir ekki alveg sammála því yndisleg dúnmjúk snjódrífan var aftur búin að breiða úr sér yfir Austurlandið góða. Þetta var auðvitað alveg úr takt við vorið og blómann sem hafði legið í loftinu undanfarnar vikur - en húsmóðirin reyndi að láta þetta ekki koma sér úr jafnvægi - þvert á móti þá hjálpaði veðrið og einangruninn enn frekar við að sannfæra hana um að ákvörðunin um að festa loksins rætur í höfuðstaðnum væri sú eina og rétta. 

En það útskýrði samt ekki hinn ógurlega kökk í hálsinum sem virtast fara sívaxandi þessa dagana - og næturnar urðu styttri eftir því sem fór að draga nær flutningsdeginum og draumarnir ásóttu  hana....húsmóðirin reyndi að bægja þessu frá sér og skrifaði allt saman á stress og vesen sem fylgir svona flutningsstússi.

Og nú varð hver dagur að dýrmætri minningu sem þurfti að skrásetja og geyma - og hún mundi eftir Frederiksberg fyrir 2 árum síðan - og hvernig hún hafði gengið um hverfið sitt og sogað í sig minningarnar og reynt að festa þær.... lykt, liti, stemmningu og hljóð..... en nú gat hún ekki kreist þetta fram þó hún ætti lífið að leysa. Og kannski var það ástæðan fyrir þessum gífurlega kökki í hálsinum sem reyndi að þrýsta tárunum út -  hún vissi að allt of fljótt yrði dvölin á Egilsstöðum aðeins óljóst minningarbrot sem jafnvel myndi sveipa nostalgískum ljóma um snjóþyngsli í maímánuði.

 


Að vera innan um timburmenn

Það var ekki laust við að húsmóðurinni fyndist hún vera e-s konar gestur á landinu sínu góða þessa dagana eða að minnsta kosti áhorfandi í e-m fáránlegum leikþætti. Bölspár og neikvæður halli settu sífelld strik í reikninginn í hverjum fréttatímanum og það var ekki laust við að veðrið (rétt eins og verðið) kepptist við að búa til réttan effektinn - frost, snjór og meiri kuldi og sú staðreynd að setja átti sumardekkin undir þann 15. var eins og kaldhæðnislegur farsi í annars dramatískum leikþættinum.

En stórfjölskyldan var svo sem ekkert að kippa sér mikið upp við þetta - hélt bara sínu striki og setti hausinn undir sig - enda svo sem fallið ekkert það stórt á þeim bænum, nýskriðin úr sultarkreppu námsáranna og alls ekki komin inn í neyslugír landans. Húsmóðirin rifjaði upp síðastliðnu tvö ár og glotti við tönn, hún minntist þess hve sjokkið var mikið við að sjá hið nýríka Ísland með alla nýju póleruðu pjeningana sína, skuldbreyttu lánin og hið flotta orð "útrás" hafði allt í einu fengið allt aðra merkingu. 

Því þau höfðu stungið af til Danaveldis í síðustu timburmönnum, komin þá sjálf í "pakkann" með tvö hlaðin visakort - allt of dýran bíl og lítið barn á arminum - og þau flúðu í flatneskjuna - landið þar sem mjólkin kostaði það sama og í gær og ekki þótt hallærislegt að ferðast um með almenningsvögnum eða að endurnýta barnafötin. 

En þrátt fyrir allar bölspár leið þeim vel á Íslandinu góða - og húsmóðirin neitaði að láta allt svartsýnishjal eyðileggja fyrir henni tilhlökkun komandi flutninga - eða íbúðarkaupin sem þau höfðu nýlega undirritað - nánar tiltekið á "svartasta degi hinnar íslensku krónu"...

Húsmóðirin skemmti sér við að mála upp þessa mynd: - þau fóru þegar partýið var að byrja - komu til baka aðeins of seint til að fara að detta í það með öllum hinum (og sáu í raun fram á að það væri skynsamlegra að vera bara á bíl þar sem liðið var langt fram á nótt) og nú voru þau vöknuð úthvíld og með skýran koll innan um alla hina timbruðu mennina.... 

og þó ....

af öllum fyrirsögnunum að dæma - þá höfðu þau misst af heljarinnar skemmtilegu (neyslu) partýi - og húsmóðirin gat ekki látið það vera að pirra sig út í það að vera send út til að þrífa upp æluna eftir alla hina.

kveðjur úr kuldanum í sveitinni og styrkur til allra þeirra sem hafa orku til að mótmæla þessum skrípaleik.


Falskt vor vekur upp óróleika

Það var mikið um dýrðir í póstkortalandinu núna - fjöllin sífellt með nýbreidda ábreiðu hvíta gullsins og ekki laust við að tréin í hlíðunum minntu húsmóðurina á útlönd og mikla drauma.

Hér var gott að búa - samt voru dagarnir taldir niður í flutninga og breytingar - því að þegar öllu var á botninn hvolft var það tibreytingarleysið sem var að gera útaf við borgarbörnin - það er gaman að horfa á póstkort en að búa í þeim - það var allt annar hlutur- og börnin þeirra virtust skynja þetta eirðarleysi líka, talandi um höfuðborgina í nostagíuljósi og það var ekki laust við að húsmóðirin finndi til samviskubits yfir að troða sínum draumum yfir á saklausar sálir - því hvaða viðmið höfðu þau, höfuðborgin var ekkert nema veisluborð og áningarstaður í þeirra augum - ekki venjan að halda hversdaglsegri rútínu þar. 

En nú var kappkostað við að skipuleggja og áætla - milljóna kaupsamningar flugu í gegnum kerfið á meðan hjónakornin svitnuðu við hverja undirskrift og bankarnir voru ekki í góðu skapi þessa dagana - hver aðgerð krafðist staðfestingar og yfirlesturs og nú var öðruvísi hljómur í tunnunni heldur en fyrir aðeins tveimur árum síðan - þegar stórfjölskyldunni vantaði þak yfir höfuðið - nú var tími alvarleikans og húsmóðirin hugsaði með sér að mikið var nú gott að þau tóku ekki gylliboðum bankanna á sínum tíma og "skelltu sé á" 60 milljón króna lánið sem þeim bauðst.

Hún rétti úr sér við tölvuna og leit á dagatalið - það var ennþá langt í þetta - og þó - e-n veginn höfðu mánuðirnir á árinu 2008 flogið framhjá !  og nú voru páskar komnir í hús og húsmóðirin kappkostaði við að fylla heimilið af greinum og liljum - til þess eins að friðþægja eirðarleysið sem helltist nú yfir hana -

Vorið hafði sent sitt fyrsta skeyti og hún nasaði í átt að fjöllunum í þeirri einu von að finna fyrir frelsinu!


10 ára og brennimerkt?

Hún stóð í miðjum stelpnaskaranum og velti því fyrir sér hvort stelpur hefðu líka verið svona frakkar þegar hún sjálf var 10 ára. 22 stúlkur voru boðnar til veislu - 22 hverri annarri ólíkari en þó gat hún fundið strax týpurnar úr hennar eigin 10 ára afmæli fyrir rúmum 20 árum  - það voru greinilega skvísur og íþróttastelpur og þær aðeins barnalegri og síðan þær frökku og síðan þær sem aðeins vildu skapa vandræði - þær sem klaga og þær feimnu og..... það var greinilegt að enn voru sömu merkimiðarnir notaðir...... og hún gat ekki annað en velt því fyrir sér hversu langt niður í aldri þyrfti að grípa inn í og "leiðrétta" þessa merkingu sem síðar eru nelgdir  niður  á stelpugreyin fram í rauðan dauðann.

Hún hafði áður reynt sama bragð og heimasætan- að reyna að ganga í augun á skvísunum en ekki fundið sig þar - líkt og heimasætan sjálf hafði rekið sig á nokkrum dögum fyrir stórafmælið. Hún vildi ekki leggjast á sam plan og  aðrir og gefa dóttur sinni merkimiða - gjörðusvovel þú átt heima með artífartí pakkinu - eða ó nei ég er hrædd um að þú sért í nördaliðinu eða hvað þá verra -ertu íþróttahnulli!!!

Allir merkimiðarnir eru límdir fastir á mann og húsmóðirin hafði allt frá 10 ára aldri reynt að hlaupa undan þessa konar (brenni)merkingu  - og hún gat ekki annað en ímyndað sér þessa afmælisgesti c.a. 20 árum síðar hlaðnar merkingum og skilgreiningum sem þær þyrftu að vinna sér inn og vinna eftir aðeins til að fá viðurkenninguna frá samfélaginu og allt í einu þyrmdi svo ógurlega yfir húsmóðurina því eitt er að bera ábyrgð á eigin lífi en annað er að hafa áhyggjur af annarra.

Og hún raðaði formkökunum snyrtilega á disk og leit yfir skreytt afmælisborðið - henni hafði enn einu sinni tekist að setja upp merkinguna - "góð móðir undirbýr skemmtilegt barnaafmæli"!!! 

 Allir sáttir- hún hafði allavegn með árum hætt að nenna að pirra sig yfir þessu " ætli það sé ekki merki um ákveðin þroska" hugsaði hún upphátt meðan hún hellti í glösin og kveikti á 10 mislitum afmæliskertum.

 


Og niðurtalningin er hafin

Það fór ekki fram hjá neinum fjölskyldumeðlimanna að febrúar var runninn upp - heimasætan taldi niður frá og með þeim fyrsta og áminnti foreldranna stöðugt á um það að þau þyrftu að fara að finna afmælisgjöf handa henni. Aðeins 18 dagar í afmæli - og það eina sem skötuhjúin gerðu var að liggja yfir fasteignasíðunum - hneyksli.

Og það var ekki frá því að húsmóðurinni liði eins og fótunum hefði verið kippt undan henni - á aðeins einni viku hafði íbúðinn þeirra - litli griðarstaðurinn þar sem þrátt fyrir allt erfiðið- hafði verið virkið þeirra hérna á hjara veraldar - allt í einu og allt of fljótt var búið að selja og nú hófst enn á ný hin mikla angist að finna sér nýjan stað að lenda á.

Hún hafði ekki tíma fyrir þessar vangaveltur - vildi helst bara fá bréf sent í pósti þar sem í stæði: " Kæra fjölskylda ykkur hefur verið úthlutað öðru lífi á ...... og munið nú að skila inn þessu bréfi til staðfestingar". Hana langaði til að setjast í barnastólin í aftursætinustinga þumlinum upp í munn röfla ga ga dú dú - þvílík kvöl og pína að vera fullorðin.

 

  


Brakandi fönn.

Húsmóðirin átt erfitt þessa dagana - fyrir mörgum líklega talið mikið lúxusvandamál og jafnvel alls ekkert vandamál hjá sumum - s.s það að þurfa að finna sér e-ð að gera - en út frá sjónarhorni hennar átti húsmóðirin mjög erfitt með að höndla lægðina sem hafði verið á eftir hátíðarhöldunum,  - hvað þá hina hryllilega hugmynd um að þurfa ekki að fara neitt nema þá allra helst í skóla - leikskóla og Bónus. Já jafnvel það var að verða henni ofviða þannig að húsmóðirin gerðist praktísk ofan á öll önnur leiðindi og reyndi að fara sem minnst út á meðal fólksins í bænum og keypti inn í massavís - 2svar í viku.

Enda hjálpaði frostið og snjórinn ekki hót - og miklu fallegra var það að horfa á brakandi fönnina út um eldhúsgluggann á meðan hún hellti upp á enn einn kaffibollann heldur en að vera að bifast þetta - en að sjálfsögðu voru ýmsar skyldur sem þurfti að uppfylla og að sjálfsögðu var hún á ferðinni eins og vanalega en nú var það eins og hún væri í e-s konar aukahlutverki í sínu eigin stykki - henni leið eins og Gísla á Uppsölum og fór að stórefast um það að hún væri hæf lengur til að eiga almennilegar samræður við almenna menn hvort fólk yfir höfuð skyldi það sem hún segði.... henni hraus hugur við dagatalinu - aðeins hálfur janúar liðinn og enn bólaði ekkert á bjartsýninni - hvar var Pollýanna þegar mest á reyndi? 

Hún settist í drullukaldan bílinn - var á leið í e-t enn eitt krakkaskutlið og var komin með áhyggjur af eigin geðheilsu - það var allavegna orðið slæmt þegar heilin var orðin svo sofandi að nöfn og orð voru farin að flækjast og bögglast fyrir henni, hún kallaði á yngsta fjölskyldumeðlimin "nóvember, hættu þessu og komdu nú....." lítil starandi augu en síðan gleðibros og tær englarödd " janúar, febrúar, mars......" jamm  hún var komin með lausa skrúfu - eða bara komin að endamörkum í þessari einveru sinni - það var örugglega ekki að ástæðulausu sem fangar eru settir í einangrun fyrir slæma hegðun....

það brakaði í snjónum undan þunga bílsins og henni leið eins og þegar Titanic brotnaði í tvennt - sama kyrrð - sömu brestir. Og hún beit á jaxlinn og  lofaði sjálfri sér betrumbót í næstu viku.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband