Mánudagur, 7. janúar 2008
Ár rottunnar
Heimilisfólkið var komið heim - eftir ánægjulega hátíðisdaga í höfuðborginni - börnin voru snartjúlluð af heimboðum, nammi og dekri og þráðu agann og jafnvægið sem einkenndi heimilislífið og hversdaginn. Þegar þau hjónin voru búin að elda matinn, taka upp úr töskum og koma börnum í bólið hrutu þau ljúft við öxl hvors annars..... og í hugarfylgsnum beggja mátti lesa framtíðarplön steyptar á skýjaborgum.
Og nú var ár rottunnar og völvan búin að spá annasömu ári fyrir húsmóðurina - enda hafði hún sjálf gert upp árið þar sem hún horfði yfir Reykjavíkina í sínum glitrandi diskógalla - það mátti vera að íslendingar væru ruglaðir en henni leið samt vel í mitt í brjálseminni þarna á gamlárskvöldi. Og hún kyssti manninn sinn, og hann horfði á hana líkt og hann gerði fyrstu áramótin þeirra saman....
og hún vissi að nú sem áður fyrr snerist tilveran um þau og engan annan - og hún beit á jaxlinn og bretti upp ermarnar því samkvæmt öllum spám var annasamt hörkuár framundan.
GLEÐILEGT ÁR!!!!
Þriðjudagur, 25. desember 2007
Jólin - jólin - alls staðar
Húsmóðirin, börnin hennar og eiginmaður - óska vinum og vandamönnum gleðilegrar hátíðar - sjáumst brátt í borg óttans.
Þriðjudagur, 18. desember 2007
Yndisfögur spennan eykst
Nú var mikil spenna í bænum - enda litli keisarinn búinn að halda upp á afmælið sitt og Krumminn flottasti líka búinn með sitt bekkjarpartý og ekkert eftir nema að undirbúa sjálf jólin. Húsmóðirin var vægt sagt dauðuppgefin því ofan á allt annað var mikið að gera í vinnunni og jóla-skyldurnar virtust hrannast upp.
Jólasveinninn kom samviskusamlega á hverri nóttu nú og setti hann í 3 fallega jólasokka sem héngu við hvert barnarúm og börnin - börnin voru líkar afturgöngum, hvít og með bauga. Þrátt fyrir að húsmóðirin góða vildi kenna veikindum s.l. mánaðar um, þá grunaði hana líka þessa yndislegu ofurspennu sem jólasveinarnir voru valdandi af.
Hún sat við kertaljós og skrifaði jólakortin og rifjaði upp hversu ótrúlega langt var síðan þau áttu heima í Danmörkinni góðu - samt voru þetta bara önnur jólin þeirra á Íslandi. Hún skrifaði hvert einasta kort með söknuði, söknuði til vina og ættingja og minnti sjálfa sig á að þau höfðu líka verið vængbrotin þau jól sem þau áttu heima úti.
Jólin eiga að snúast um að rækta sambandið við sína nánustu, hittast og rifja upp góðar minningar kökkurinn kom aftur upp í hálsinn og hún kannaði enn og aftur miðann sem var hengdur upp á ískápinn:
26.desember flug EGS - RVK
og hlýjan streymdi um hana alla.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 6. desember 2007
Jesús reykelsi og firra
Mugison kom í bæinn. Húsmóðirin hafði unnið með nýjustu afurð blúsarans í eyrunum síðastliðnu vikur og hún þurfti að lesa auglýsinguna tvisvar til að trúa sínum eigin augum - Mugison með tónleika í hátíðarsal menntaskólans!!!! Nú mátti ekki tæpara standa og með miklum hraði var búið að redda pössun, kaupa miða og plana tónleikakvöld með eiginmanninum.......það voru ekki margir á tónleikunum enda Mugison ekki áskrifandi af Dagskránni - að halda tónleika sama kvöld og jólabingó kvanfélagsins er haldið - er auðvitað ekkert nema fáfræði:)
Nokkrum dögum síðar, nánar tiltekið fyrsta sunnudag í aðventu sat hin sama húsmóðir í kirkjunni - nú var helgihaldið tekið við á ný því heimasætan gat ekki látið það vera að syngja í kirkjukór bæjarins - heilög aðventutónlist yljaði kirkjugestum um hjörtun og það var ekki laust við að kirkjuljósin ásamt hríðarbylnum fyrir utan áttu sinn þátt í að kynda undir jólastemninguna. Halelújaaaaaaaaa og englaraddir barnanna áttu ekkert skylt með hinum harða og kynþokkafulla söng Mugisons - þrátt fyrir söngin "Jesus is a great name to moan" var ekki hægt að tala um trú og Mugison í sama orðinu án þess að roðna - en það var allt önnur saga - samt hafði húsmóðirin fundið fyrir meiri andlegri upplifun á blús- rokk tónleikunum heldur en þarna í hinu allra heilagast húsi ....... presturinn hélt áfram að predika og það var ekki laust við að henni fyndist erfitt að halda augunum opnum....
...enda mikið búið að leggja á fjölskylduna í annríki jólaundirbúningsin - "passið upp á stressið" - nú snérust jólin um að passa upp á að stressa ekki fjölskyldurnar um of - svo mikil var áherslan á að hafa það huggulegt og kósý að það mátti með sanni segja að allir voru ofur-önnukafnir og orðnir stressaðir yfir að hafa það huggó.
Húsmóðirin var nánast þreytt við að hugsa um dagana fram að jólum - föndur í skólum og föndur í leikskóla, fimleikasýningar og jólatónleikar, börnin í klippingu og svo voru það tveir jólaprinsar sem áttu afmæli bráðum og og og go og;) Allt þetta annars huggulega jóladót var farið að herða vel að hálsi húsmóðurinnar og hún átti erfitt með að átta sig á því hver væri galdraformúlan á afstressandi jólum....
Presturinn var enn að tala - hún leit á klukkuna - jæja, nú máttu þessi huggulegheit bara fara að klárast - það beið hennar stafli af þvotti heima og vinnan hafði hrúgast upp á skrifborðinu og svo var það e-ð með að fullt af fólki hafði verið boðið í mat um kvöldið....."og hirðingjarnir birtust með gjafir handa lausnaranum... gull, reykelsi og ...."
....bráðum 6 ára strákurinn hennar kippti í hana og suðaði enn einu sinni um það að komast út úr þessari kirkju - "mamma ég kann þessa sögu hvort eð er, það koma 3 gaurar og gefa Jesú gull reykelsi og FIRRU......"
Húsmóðirin hló hátt með krökkunum sínum á meðan þau reyndu að finna bílinn í kófinu - snjórinn náði þeim langt upp á hné - hún leit á sæl andlit englanna sinna - þetta jólastress var kannski firra - en krakkarnir virtust hafa það gaman - og bíllinn malaði eins og feitur jólaköttur.
Mánudagur, 26. nóvember 2007
Loksins blóm í bænum.
Það var ekki laust við að heimilisfólkið væri farið að finna fyrir smá jólafiðringi í maganum - allavegna hafði frostið og fjúkið fyrir utan gluggana sitt að segja og ekki skemmdi fyrir nokkrar jólaseríur sem komnar voru upp. Húsmóðirin átti þó seint eftir að venjast þessari rosalegu jólastemningu sem virtist dembast yfir fyrr hérna úti á landi heldur en annars staðar og krakkarnir voru meira að segja dulítið sekptísk á þennan flýti - voru jólasveinarnir kannski farnir að reima skóna strax?
Flest hús í bænum voru að komast í jólabúninginn og henni fannst vera nokkrar vikur síðan Dagskráin fór að telja niður til jóla (fyrir þá sem ekki vita þá er Dagskráin vikurit sem maður verður að lesa til að vera INN og vita hvað er um að vera í nágrenninu - ef gleymist að lesa á maður t.d. á hættu að koma að lokaðri sundlaug á góðum sunnudegi eða það sem verra er missa af stórum viðburðum í bænum).
Og húsmóðirin hló kaldhæðnum hlátri þegar hún las auglýsingu um nýjasta viðburðinn í bænum - á sjálfan "Neytendur - kaupum ekki neitt í dag" - daginn átti að opna og vígja RISAverslun Blómavals og Húsasmiðjunnar á Egilsstöðum. Loksins gat húsmóðirin séð fram á blóm í vasa og drasl í haga - og mikið hafði hún beðið lengi eftir því að dulítið brot af úrvalinu úr Reykjavíkinni myndi flytjast nær henni. Með lítinn vott af jólabirtu í hjarta og tilbúið visakortið pakkaði hún nöldrandi ungunum sínum út í frostið og lofaði þeim meira að segja nammi úr versluninni flottu - ef þau yrðu þæg og þolinmóð.
Þær mæðgur fengu nánast ofbirtu í augun af öllu puntinu og prjálinu og það var ekki laust við að karlpeningurinn heillaðist af snúru og seríuúrvali búðarinnar. Þarna var líka hin mesta stemning enda allur bærinn staddur þarna til að brjóta upp á hversdagsleika helgarlífsins. Húsmóðirin missti næstum móðinn enda hafði hún átt um sárt að binda eftir að hafa flutt úr mekka blómabúðanna í Frederiksberg og til Egilsstaða þar sem næsta Blómabúð var í 75 km fjarlægð (nánar tiltekið í Neskaupstað), rugluð af öllu úrvalinu og í innri baráttu yfir hvað mætti kaupa fyrir heimilið leit hún allt í einu í lítið látlaust horn þar sem stóðu ilmandi Hýasintur í plastpokum - og allt í einu helltist yfir hana svo ógurlegur söknuður í dönsku jólin þeirra og andasteikina og eplaskífurnar og flesksteikina (og meira að segja hvítölið var allt í einu orðið meira freistandi en malt extrat frá Egils), að hún gleymdi öllu fíneríi og ákvað að fjárhæðinni yrði eingöngu eytt í blómin. Hún sá fyrir sér hýasintur í hverju skúmaskoti sem myndu fylla upp í tómleikann á daginn og hrúgaði vænum slatta af herlegheitunum í körfuna.
Hún stóð við kassann og vildi borga en lenti í stappi við afgreiðslukonuna - "það er skammtað - aðeins tvö blóm á fjölskyldu" Húsmóðirin hélt að þetta væri eitt af skemmtiatriðum dagsins en sá þó fljótt að afgreiðslukonunni var fúlasta alvara með þessu - í fáfræði sinni hafði hin Reykvíska húsmóðir gleymt því í örlitla stund hvar hún væri stödd.
Húsmóðirin bjó vel um blómin sín tvö og kom þeim hagalega fyrir á skrifstofunni sinni - þannig gat hún fylgst með þeim yfir daginn. Já nægjusemi er vel stunduð hér í bæ!!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. nóvember 2007
Geggjaða kennarakonan
Húsmóðirin góða var á leið heim frá lokahófi. Síðastliðnir þrír mánuðir höfðu liðið allt of hratt enda hafði það verið markmiðið - að halda sér svo ógurlega önnumkafinni að kuldinn og skammdegið myndi æða hjá - þetta virtist hafa virkað. Allavegna ætlaði hún ekki að trúa því að nú væru íslenskunemarnir hennar útskrifaðir - og senn væri nóvember á enda. Hópur fólks alls staðar að úr heiminum sem fyrir nokkrum mánuðum höfðu litið tortryggnir á þessa ráðvilltu konu reyna fyrir sér í kennarastólnum, voru núna orðnir að góðum hópi kunningja. Hún hafði aldrei viljað nálgast þessa kennslu sem predikari eða e-r sem vissi hlutina betur heldur bara miðla af þeirru reynslu sem hún sjálf hafði upplifað - sem útlendingur en fyrst og fremst sem nýbúi úti á landi.
Lokahófið hafði verið skemmtilegt - pólskir drykkjusöngvar, þýskur ljóðaupplestur og umræður um hannyrðir við taílenskar vinkonur, skemmtilegar þjóðsögur frá Spáni og rússnesk máltæki - hún hafði fengið kökk í hálsinn og undarlega hlýju fyrir hjartað þegar nemendur hennar tóku við viðurkenningarskjölunum og ennþá hrærðari varð húsmóðirin þegar hún leit yfir þann fjölda blóma og gjafa sem henni hafði verið gefið. Hún bar herlegheitin út í bílinn sinn og hún minntist þess sem góðnemandi hennar sagði við hana í kveðjuskyni: "þú vera geggjað kennarakona"
Miðvikudagur, 24. október 2007
Ég hjarta New York
Indian summer
Menningarhópar upp til hópa
Hverfin ólík en samt svo lík
Túristast smá (Empire State, Times o.fl. = klikkun)
Sofa út og borða brunch á hverjum morgni
Slæpast og versla líka í Soho
Vera ein með kallinum mínum :)
Búa á besta stað í Soho með útsýni yfir alla borgina (ólýsanlegt)
Fara í bátsferð í kringum Manhattan á einkabáti í 32 stiga hita á meðan
Anthony (úr the Anthony and the Johnsons) syngur lög með sjálfum sér
(ógleymanlegt)
Brooklyn bridge og hin undurfagra frelsisstytta
Prófa bara smá brot af öllum flottu veitingastöðunum - mæli með nokkrum
japönskum.....mmmm og mið austurlenskum og ítölskum og og og ...
mmm.... blúberrí pönnukökur og egg benedikts... og nýr djús
Meatpacking d.str. og Central Park á góðum degi og ógleymanlega Bleacker
street og the Village og jazz og blús og rokk og hipp hopp (hver þarf að fara á söngleik?? - þegar allt er á næsta götuhorni)
MOMA
graffíti og gallerí og listamenn í Chelsea
slice of pizza
læti og bílflautur og hróp og köll
gulir taxar
umferðateppur
afmælisveisla upp í úthverfi N.Y. - uppi í sveit
og svo er allt búið - kokteill fyrir flugið
og síðan bara yfir hafið og heim
Reykjavík - ég sakna hennar
En samt gott á sinn hátt að vera komin aftur heim - ég þrái heim
Teikna með trélitum.....og held áfram að vinna ;)
Hlýja,
tóta (orðin allt í einu fullorðin samkvæmt öllum pappírum)
Mánudagur, 24. september 2007
"Dirty" Gunni
Hún hallaði undir flatt og leit aftur á hann - gat það verið að hann væri orðinn 30 ára!! Þessi aldurskrísa var alveg að fara með hana - að sjálfsögðu var það allt bara sagt í gamni þega hún aumkvaði sér við mann og annan yfir aldursgrýlunni, auðvitað vissi hún, eins og allir aðrir, að aldurinn væri afstæður og erfitt að flýja þá staðreynd að maðurinn væri í sífellum vexti og þroska - en 30 ára!!!
Henni fannst aðeins 5 ár síðan hann bauð henni á skóladansleik í Álftamýrinni, hann gaf henni rós og hún reif glænýju buxurnar sínar á grindverkinu sem þurfti að klifra yfir á leið í skólann - og mikið var hún fegin að hafa munað að fara í sokkabuxur innanundir þetta kvöld - annars hefði allt sést - og hann lét eins og ekkert væri vandræðalegt og tók bara utan um hana....það var fyrir 15 árum - hálf ævin liðin síðan þá.
Hún leit aftur á hann, heimilisfaðirinn virtist ekki vera í jafnmiklu dramakasti og húsmóðirin - hann virtist næstum OF rólegur yfir þessu öllu saman - enda ekki þekktur fyrir að vera að stressa sig að óþörfu...
Krakkarnir komu hlaupandi inn í hjónaherbergið og hoppuðu ofaná "gamla" kallinum, komu færandi hendi og stilltu saman strengina fyrir afmælissöngin. Það færðist ánægjuglott yfir afmælisbarnið og hún vissi að hann fann fyrir ríkidæmi sínu....
hann er þrjá-tíu-ára - hann - paaaaaaabbbi .... hann er þrjá - tíu - ára í dag.........
í eitt sekúndubrot sá húsmóðirin hvernig þyrmdi yfir heimilisföðurinn og grár fölvi skreið yfir andlit hans - en aðeins í örstutta stund - hann var að verða of seinn í vinnuna - húsmóðirin rétti honum heimatilbúið afmæliskortið sérhannað af heimasætunni og þau lásu það upphátt saman:
"ELSKU PABBI OKKAR, INNILEGA TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN - LOKSINS ERTU ORÐINN FULLORÐINN"
svo einfalt var það :)
Laugardagur, 15. september 2007
Fjöllin eru komin með húfur.
Húsmóðirin var lögð af stað heim - að fara á foreldrafund hafði verið eitt síðasta skylduverkefni dagsins. Hún sá heita sturtuna og upphitaða máltíðina í hyllingum. Það voru nákvæmlega 15 mínútna akstur frá Skólanum á Eiðum (þar sem miðstrákurinn var, glaður og kátur, byrjaður á löngu skólagöngu sinni) og til Egilsstaða - heim! Hún leit til himins, þar sem áður hafði verið grámygla og hvassviðri á leiðinni úteftir -en var nú orðið að heiðskýrum bláma - það var komið eiítið framyfir kvöldmatartíma og bláminn því nokkuð farinn að dökkna. Það var eins og fjöllin væru búin að setja á sig hvítar kollhúfur sem passaði vel saman við rauð laufblöðin á trjánum í skóginum.
"Þetta er eitt það íslenska landslag sem ég hef augum litið - blátt - hvítt og rautt", tautaði húsmóðirin með sér og hvítu kollhúfurnar minntu hana á síðastliðinn veturinn þar sem allavegna tvisvar hafði hún lent í þvílíkum hrakningum að það komst á spjöld æviágrips hennar.
Annað skipti hafði hún verið á barmi taugaáfalls - hún mundi eftir snjónum fyrir utan húsið þeirra sem skóf undir og yfir og var svo blautur og þungur og þurfti enn einu sinni að moka bílinn út - í flýti því inni biðu þrjú börn sem gætu farið sér að voða....þennan morguninn hafði snjóað óvenjumikið - meira að segja óvenju mikið miðað við Austurland tækifæranna. "Ég verða enga stund - byrjið að klæða ykkur í útifötin" hún vissi að heimasætan réði við þá bræður en ekki mjög lengi, enda sá yngsti strax farinn að sýna skap sitt ekki eldri en 1 árs. Hún mokaði og skóf og bjó til slóða niður stigann og alveg upp að bílnum, snjóskaflarnir náðu upp að þaki bílsins og nú var ekkert að gera nema moka eins og lífi ætti að leysa.
Henni var heitt og eyrun voru eldrauð þegar hún settist loks sæl og í sigurvímu undir stýri. Það var og, það var allt hægt ef viljinn var fyrir hendi. Það var yndisleg stilla úti fyrir og hún byrjaði að bakka bílnum úr snjóskaflinum - bílinn flaug afturábak .... en svo var eins og e-r ríghéldi í undirvagninn... hún var orðin pikkföst - þarna kom dropinn sem fyllti...- húsmóðirin var þreytt og á þessari stundu varð hún að viðurkenna ósigur sinn fyrir náttúruöflunum en þó fyrst og fremst fyrir örlögum sínum - því hvern hafði hún verið að blekkja - hún var ekki týpan til að takast á við þessar "Survivor" - aðstæður.... þá var það ákveðið, uppgjöf semsagt og stóru krakkarnir fengu frí í skóla og leikskóla... hún gerði sig tilbúna að stíga út úr bílnum þegar hún sá að bíllinn hafði skekkst - nú var bílstjórahliðin komin of nálægt himinháum skaflinum þannig að sú útgönguleið var orðin ófær - hún skreið yfir að farþegahliðinni en þar var sama sagan - allt pikkfast og ekkert nema hár snjóveggurinn á alla kanta - sama var í aftursætinu. Það greip um hana svo mikil ógnarskelfing og innillokunarkennd að húsmóðirn mundi enn eftir tilfinningunni þegar hún sat hér á heimleið eftir foreldrafundinn.
Hún renndi niður rúðunum og reyndi að skríða út en snjóskaflarnir voru of háir og snjórinn of blautur til að hægt væri að moka frá með höndunum. Í örvæntingu sinni byrjaði að hún að flauta og kalla út um gluggan en gatan sem hafði verið svo erilsöm stuttu áður, var alauð og ekkert fyrir utan nema frostið og kyrrðin. Hún beit sig í vörina og drap á bílnum - innilokuninn var alger og henni var hugsað til litlu unganna sinna uppi í íbúð.
Það var eins og hugsunin um hættuna sem gætu steðjað að krökkunum , gæfu henni aukaorku, hún þurrkaði tárin og byrjaði að sparka í hurðina hjá aftursætinu - eftir nokkurn tíma náði húsmóðirin að búa til það mikið rými í snjónum að hægt var að skríða út..... henni var borgið
Og nú var sólsetrið fallegt og Húsmóðirin sá glitta í Egilsstaði og gul skíman frá húsinu þeirra yljaði henni um hjartað - hún brosti við fjöllunum með kjánalegu hattana sína en bak við brosið leyndist myrkur kvíðinn fyrir vetrinum sem beið óþreyjufullur upp í hlíðum fjallanna.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 7. september 2007
Og þá komst rútínan á ...
Klukkan var á slaginu hálf - hún leit í aftursætið: 1,2,3 júbb allir spenntir í sætum og líka þrælspenntir yfir að komast af stað í skólana og leikskólann, sú allra spenntasta var þó húsmóðirin góða - hún var spennt yfir að vera komin í rútínuna langþráða, spennt yfir að geta gefið af sér á annan hátt en að lesa barnabækur sussa og bía, útbúa morgunmata, snarl og hádegismata svo ekki sé talað um kaffitímana sem urðu æ, fjölmennari eftir því sem leið á sumar ....
EN nú var húsmóðirin kát og adrenalínið þaut um æðar hennar - fundar þarna og fundur hér, plana þetta og plana hitt vinna vinna vinna - vinna eins og maður eigi lífið að leysa - og hún vissi það innst inni að hún var lang ánægðust þegar allt var á suðupunktinum e.t.v. var þetta e-ð sem lá í ættum eða kannski snerist þetta um að þurfa í sífellu að fá viðurkenningu fyrir tilvist sína....allavegna, nú dugði ekkert nema láta hendur standa fram úr ermum, elda hafragrautinn, taka lýsi, fara yfir skólatöskur, athuga stundatöflur...
Hún náði rétt svo að koma við hjá mömmugrúbbunni áður en hún hélt áfram, þetta var kveðjustund enda flest börnin komin í leikskóla og mömmurnar þreyttar á að hanga heima með börnunum sínum - hér með er fundi slitið - gaman að kynnast ykkur - vonandi eigum við eftir að hittast e-ð .... hún var sæl með þetta fyrirkomulag enda svo sem ekkert mikið sem hún átti sameginlegt með hinum mæðrunum.
Jú, nema auðvitað börnin blessuð börnin....til hvers í ósköpunum var maður að eiga öll þessi börn. Þetta var setning sem enginn mátti heyra - því að sjálfsögðu í okkar nútímalega samfélagi þar sem ALLT er leyfilegt og víðsýni í hávegum höfð þá eru enn nokkur tabú sem ekki má segja frá.
Hún renndi niður brauðtertu númer þrjú, kvaddi mömmur og grenjand börnin þeirra og hoppaði út í bíl. Húsmóðirin rúntaði um bæinn og safnaði saman ungunum sínum sem voru þreytt en sæl - hún heilsaði öllum mömmunum og pöbbunum sem hún hafði einmitt líka heilsað 8 tímum fyrr, og hún sá að þau voru jafn þreytt og sæl og hún sjálf og eins og vinnandi maurar lögðu allir bílunum sínum fyrir utan húsin sín, roguðust inn með Bónuspokana og skólatöskur og biðu spennt eftir að geta eytt tíma með gullmolunum sínum.
Húsmóðirin góða vissi innst inni svarið við hinni milu tabú spurningu og strauk yfir litla ljósa kolla sem hjúfruðu sig upp að henni í sófanum - og rigningin lamdi rúðuna. Haustið var komið til að vera og rútínan átti eftir að halda áfram....