Laugardagur, 31. mars 2007
Feng-Shui
Hún hringdi enn einu sinni í Flytjanda.. hvað var málið - enn einn dagurinn og IKEA dótið ekki komið. Húsmóðirin hafði spennt verið að innrétta skrifstofuna sína og fyrir 5 dögum síðan hafði hún pantað ýmislegt punterí til að setja punktinn yfir i-ið. En enn bólaði ekkert á þessari pöntun.
Það var og - alltaf þurfti ALLT að taka lengri tíma hérna úti á landi. Hún var nýbúin að sætta sig við það að fréttablaðið væri bara til í BT og aðeins til þegar og ef fyrsta flugið hafði séð sér fært að koma..
Þau hjónakornin höfðu brosað kankvís að öllum þessum seinagangi, fyrstu mánuðina eftir að þau fluttu. "O, jæja, þetta getur ekki verið annað en hollt fyrir sálina" - ekkert stress og engin læti svo ekki væri talað um hreina loftið sem lék nú um lungu unganna og var fyrir löngu búið að hreinsa allt ryk og sót frá Kaupmannahöfninni góðu. Heimilisfaðirinn hafði haft það á orði hversu aflsappaður hann væri þrátt fyrir mikla pressu í vinnunni - það var eins og hér hvíldi ákveðin hula afslöppunar og tímarnir siluðust áfram....
...eða það var allavegna venjan, alveg þar til húsmóðirin hafði ákveðið að gefa sig alla að fyrirtækjarekstrinum og barnauppeldi. Allt í einu hentaði þessi skjaldbökutími ekki hennar áætlunum. Hún stóð sig að því að andvarpa hátt og innilega þegar röðin hreyfðist ekki í Kaupfélaginu (röð á Egilsstöðum=2 bíða) því e-r kellam hafði ákveðið að sýna kassadömunni myndir af barnabörnunum. Hún fann líka í fyrsta skipti fyrir pirring þegar leikskólakennararnir vildu spjalla í korter þegar hún náði í miðstrákinn og allt í einu var það ekki eins sjálfsagt að skutla heimasætunni og vinaflokki hennar á milli staða - "þið labbið bara - það er svo gott veður" var orðið algengt svar. Þrátt fyrir þessu neikvæðu þætti þá fannst húsmóðurinni hún vera lifandi á ný, meðan stressið og adrenalínið pumpaði um æðarnar - þá leið henni vel. Það var eins og hún hefði náð að halda sig frá ákveðinni fíkn í þetta langan tíma en nú væri hún aftur fallin....
"Nei, vinan, þetta er ekki enn komið" "Var þetta mikilvæg sending?" Húsmóðirin visski ekki hvað skyldi segja - jú ef maður ætti að fara eftir ströngustu Feng Shui fræðum, þá var það mjög mikilvægt fyrir rekstur fyrirtækisins að allt ætti að harmónera saman í innréttingu skrifstofunnar.
"Tja, já þetta er nú soldið mikilvægt" Vingjarnlega röddin á hinum enda línunnar varð hugsi en bauðst síðan til að gera allt sem í hennar valdi stóð til að finna þessar vörur og koma þeim á leiðarenda ......
Henni leið eins og algjörum kjána þegar hún kom til að sækja sendinguna frá IKEA; rauð ruslafata og pennastatív í stíl, nokkrir myndarammar og forlátur lampi.... hlutir sem í miðju stresskasti og adrenalínsofforsi virtust svo miklu mikilvægari en nú ... hún reyndi að láta fara lítið fyrir sér þegar hún skrifaði undir móttöku... á skjalinu stóð: "HRAÐAFGREIÐSLA - MIKILVÆG SENDING" hún leit upp aðeins til að mæta tveim góðlátlegum augum sem blikkuðu hana. "Já, það eru fáránlegustu hlutir sem geta skipt öllu" sagði eigandi augnanna og húsmóðirin kannaðist strax við vingjarnlegu röddina úr símanum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Ullarsokkur í kaupstaðarferð
Jæja þá var kaupstaðarferðin langþráða á enda. Kvenmennirnir á heimilinu höfðu samviskusamlega krossað við dagatalið og talið niður í ferðalagið til höfuðstaðarins, pískrað og skrafað yfir fyrirhugaðri menningarferð og gengið sposkar um með leyndarmálið í maganum - því það væri ljótt að vera með óþarfa mont við karlpeninginn á bænum, því var betra að ræða ferðina undir fjögur augu.
En senn kom að því og þær stigu eftirvæntingafullar inn í flugvélina og kvöddu húsið sitt (séð ofanfrá). Húsmóðirin fann fyrir skrýtinni tilfinningablöndu spennu og söknuðar, þar sem nú var það hún sem fór frá smábörnum og búi og sá fram á nægilegan nætursvefn næstu daga, bara það vakti með henni mikla tilhlökkun en það er samt aldrei gaman að kveðja.
Það var ekki laust við að henni fyndist hún vera hálf utangátta, þar sem hún steig út úr vélinni í stórhríð í Reykjavíkinni. Það var eins og hún hefði verið of lengi í burtu í þetta skiptið og sveitarómantíkin alveg búin að ná tökum á henni. Allavegna fannst húsmóðurinni umferðin vera með hraðasta móti og fólk á förnum frekar hranalegt og að flýta sér......... henni leið ekki eins og heima - enda leit hún kannski út eins og ullarsokkur á flækingi innan um öll leðurstígvélin?? Ullarsokkar eru nauðsynlegir og um leið þægilegur fatnaður - en munu seint teljast til tískuflíkur....
Hún fór í verslunarleiðangur - nú skildi hún heldur en ekki svæfa þessa sveitadruslu sem var farin að verða annsi áberandi í persónuleika hennar - allt gekk eins og í sögu - sötrandi kaffe latte með bláberjaostakökunni, hlaðin pokum og pinklum, hugsaði húsmóðirin góða: "já, svona á þetta að vera - þetta er meira ÉG" ekki arkandi í snjógallanum og bomsum dag eftir dag (hún hafði tali 152 daga í bomsum á Egilsstöðum - án þess að fara í annað skótau - þetta náði engri átt) og eina markmiðið að fara í Bónus.....
en það var samt eins og hún fyndi fyrir því hvernig Ullarsokkurinn hékk utan á henni eins og neonskilti, - það var kannski þegar búðarkonan sagði "nei, þetta er ekki til en það kemur örugglega eftir helgi " (hér er vísað í samtal um skó sem húsmóðirin bara VARÐ að eignast) að henni varð loks ljóst hversu mikið gervi allt þetta var..... hún yrði ekki þarna eftir helgi - og eftir helgi kæmi bara hundraðasti - fimmtugasti og þriðji dagur í bomsum og ekkert tækifæri til að flagga því sem flagga (m)ætti.....
En það var ótrúlegt hversu mikið sem hún naut þess að vera í Reykjavíkinni góðu - þá var það e-ð sem fékk hana til að hugsa "heim". Heim í sína eigin hringiðu verkefna, fjölskyldu og já, nýrra vina.
Kannski var það rétt sem e-r sagði, að aðlögun á nýjum stað má líkja við meðgöngu mannsbarns: fyrstu þrír mánuðirnir vekja upp tilhlökkun en um leið ógleði, smátt og smátt venst tilhugsunin um þetta nýja og allir reyna að undirbúa sig fyrir komu þess nýja - það tekur á og stundum kemur upp hugsuninn "hvað í andskotanum var ég að koma mér í núna" en á endanum veit maður innst inni að ákvörðunin er hluti af manni sjálfum og eftir 9 mánuði fæðist allt í einu sú hugsun að maður hefur aldrei haft það öðruvísi eða búið annars staðar - rétt eins og erfitt er að hugsa sér fjölskylduna áður en nýji meðlimurinn britist.
Það voru tvær misánægðar skvísur sem sáu húsið sitt við lendinguna - önnur lítil sem naut þess að vera dekruð af ömmu, afa og mömmu - og var ekki tilbúin að hætt því sí svona - en ein sæl húsmóðir sem allt í einu hafði fundið taktinn í hjarta sínu og sett orðið "heim" á réttan stað.
Sveitadruslan kveður í bili og þakkar öllum sem hún hitti í Höfuðstaðnum, fyrir góðar stundir
Fimmtudagur, 8. mars 2007
Gefin fyrir drama þessi dama
Jæja þá er 8. mars gengin í garð og eiga allar konur að líta til baka, draga djúpt andann og prísa sig sælar fyrir þá miklu framför sem orðið hefur í jafnréttismálum. Húsmóðirin gat ekki annað en brosað út í annað - það var ekki á hverjum degi sem henni gafst sérstakur tími til að huga að jafnrétti heimsins - til þess var tími hennar of dýrmætur. Með kaffibollann í hendinni og tvo dýrindis súkkulaði-mola í biðstöðu, ákvað hún að taka sér pásu. Og hún ímyndaði sér að það eitt og sér, að taka sér stundar- pásu, voru forréttindi sem hún hafði ekki getað leyft sér í fæðingar"orlofinu" góða.
Hún þakkaði í hljóði öllum þeim lágt launuðu konum í samfélaginu sem taka að sér að hugsa um börnin!!!!
Húsmóðirin góða varð að viðurkenna að mitt í öllum millilandaflutningum, barnastússi og karlaframapoti - hafði hún svæft rauðsokkuna í sjálfri sér..... hún minntist þeirra heitu öfgasinnaðra stunda þar sem hún sökkti sér í kynjafræði og baráttuljóð - þar sem textarnir börðu á óréttlæti heimsins og kvöttu húsmóðurina til að verða aldrei klisjunni að bráð (klisja = eiginkona, móðir, skuldaþræll og kerling......)
nú, aðeins rúmum áratug síðar, voru rauðu textarnir í hugsarfylgsnum húsmóðurinnar oðið að litlausu rauli. Hún mundi ekki lengur af hverju sum baráttumál hennar höfðu verið upp á líf og dauða og henni fannst fáránlegt að hafa e-n tíma verið það barnaleg að kjósa líf einstaklingsins fram fyrir yl og kærleika eigin barna og eiginmanns......
... en það var samt eins og einmitt þessi hugsun, um komandi kynslóðir, byrjuðu að kynda undir rauðu glóðina í hjarta hennar. Hvernig ímyndasamfélagið hélt áfram með grunlausum hætti að henda stelpum og strákum í fyrirfram skilgreinda kassa þar sem á stendur t.d "ákveðinn" og "frekjuskass". Um þetta allt saman hafði húsmóðirin varla tíma til að sökkva sér í en þetta var ekki í fyrsta skipti sem henni sárnaði við þá hugsun að líklega yrði hún bara stimpluð sem dramadrottning ef hún myndi endurvekja rauðsokkuna í sér - en fjandinn hafi það hún var bara gefin fyrir drama þessi dama!!!!!!
Elsku vinkonur fjær sem nær - hyllum þennan dag í krafti kvenna og notum hann til að (endur)vekja Línu (rauð)sokku í okkur öllum :)
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 26. febrúar 2007
Stúlkan frá Ipanama
Nú var mikið um að vera hjá húsmóðurinni - dómnefndarstörf, fyrirtækjarekstur og börnin með hor. Allt átti þetta sinn þátt í að gera húsmóðurina dulítið stressaða - en það var sama hvað tautaði....alltaf hélt tíminn áfram að trilla áfram. Með uppörvunarræðuna í farteskinu reyndi frúin að koma sér í baráttuskapið - svona um það bil annan hvern klukkutímann, því það var eins og allur vindur væri farinn úr henni - enda mikið búið að vera að gerast í lífi hennar síðastliðnu mánuði.
Það var meira en að segja það að koma fjórða barninu á legg - enda mætti örugglega líkja því við ofvirkann unga - svo mikinn tíma tók það frá hinni daglegu rútínu heimilisins og hinni raunverulegu vinnu fyrirtækisins. Fundir með endurskoðandanum - virtust teygjast út í hið endalausa - þar sem lyftutónlistin streymdi úr hugarfylsnunum - "var þetta kínverska sem manneskjan talaði?" spurði hún sjálfa sig og nótaði enn einu sinni niður á blað mikilvægi greiðslu tryggingjagjalds, lífeyris, stéttarfélags og svo chí e chow ....tra lalalalalaala ("lag = the Girl fra Ipanama")- já það var greinilegt að hún þurfit að taka sig miklu taki ef ekki ætti að verða út um þessa fyrirtækja hugmynd - strax við getnað...........
Hún skaust inn í bankann til að reka á eftir öllu þar, aðeins til að vera trufluð af gsm- símanum, "Litli er orðinn veikur - ég held að þú verðir að koma strax að sækja hann" hún skaust út úr bankanum - lofaði að gera þetta á morgun ( en var auðvitað ekki alveg með á hreinu að það var laugardagur á morgun) kom við í bónus og keypti í matinn - náði í 3ja ungann í leikskólann (sá eini sem ekki var orðinn veikur ) og kom öllu stóðinu heim í öruggt skjól flensunnar. Jæja þá var nú ekki mikið annað að gera en að hella sér í vinnuna - teiknimynd í tækið og popp í skál - það ætti að kaupa allavegna 3 korter.......
Tralalalalalalalalaaa tral lalal allala stúlkan frá Ipanama var aftur komin út í öll hugarfylgsnin, það var eins og lyftutónlistin í höfði hennar vildi senda henni mikilvæg skilaboð - Hún ákvað að hætta að stressa sig yfir þessu öllu og syngja bara með - því að þegar öllu var á botninn hvolft gat hún ekki meira en sitt besta.
tótalí spæs
Föstudagur, 9. febrúar 2007
Fæðing fjórða barnsins
Þá er loksins langþráður draumur orðinn að veruleika. Húsmóðirin góða hefur hent sér í rússíbanareiðina miklu og ákveðið að ala af sér enn eitt barnið. Í þetta skiptið er um að ræða mikla hugmynd þar sem meðgöngutíminn hefur verið þó nokkuð lengri en þeir hefðbundnu 9 mánuðir. Grafísk samskipti er vinnutitillinn en Kúper Blakk ehf. er svo nafnið góða á þessari nýju viðbót við önnum kafinn hversdag húsmóðurinnar.
Síðastliðnu vikur hefur "fæðing" fjórða barnsins átt hug allan hjá húsmóðurinni góðu. Líkt og með allt annað ungviði er ótrúlegt hversu mikið dót og umstang fylgir þessu "nýja" sem komið er inn á heimilið. Tímum sólarhringsins er vel varið til að skipuleggja í hvað tímum sólarhringsins er varið í og frá 9:00 - 14:00 á daginn, leggur húsmóðirinn sópinn á hilluna og sest fílefld við tölvurnar og teikniborðið. Það er eins og gusti af henni enda býr í henni óbeisluð orka síðastliðnu mánuði þar sem fjórða barnið var nær farið að öskra á hana í öll hennar hugarfylgsni því að hún var löngu búin að ganga fram yfir.......og ganga af göflunum, finnst henni, þar sem hún hendist í stressi austur á firði í gegnum göng og yfir fjöll til að funda og afla sér nýrra verkefna - það er ekki frá því að henni líði stundum eins og Öskubusku þar sem allt snýst um að gera sem mest áður en klukkan slær 14:00 og kominn er tími til að setja svuntuna aftur á og bjóða krökkum upp á kaffitíma.
En með sól og bjarta von í hjarta vonast húsmóðirin að geta komið þessu "barni" sínu á legg, rétt eins og hinum þremur - sem þrátt fyrir allt eiga nú enn stærsta plássið í hennar hjarta ( ehhhh...... nema milli klukkan 9:00 og 14:00 alla virka daga, og á kvöldin og um helgar )
Kúper Blakk ehf. - grafísk samskipti
og nú byrjar ballið
Öskubuska
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 27. janúar 2007
Einvígi að hætti Eastwood
Eftir langa barátta málamiðlanna og sjálfsblekkinga var komið að því... að ala yngsta fjölskyldumeðiminn upp. Já fyrirmyndarhjónin höfðu lent í hinn í algengu gryfju "yngsta-barn-syndrómsins" þar sem litli prinsinn hafði trónað í hásæti sínu stoltur og glaður og eina stjórnunartækið: grátur gnístra tanna - þ.e ef hann fékk ekki sínum vilja fram!!! Þar sem börn eru nú yfirleitt klókari en þau sem eldri eru (sérstaklega ef um er að ræða foreldrana) og þar sem þetta tiltekna eintak var einstaklega skýr og klókur strákur þá var svo orðið í pottinn búið að árið 2007 áttuðu heimilismeðlimirnir sig á því að þennan yfirgang þyrfti að stoppa áður en lenti í óefni.
Bækur, ritgerðir og kenningar voru dregnar fram í dagsljósið - og húsmóðurinni hryllti við þeim setningum sem birtust henni: "látið barnið gráta - ekki gefast upp - það eruð þið sem ráðið" setningar sem í dagsbirtu virtust vekja bjartsýni og dug og fyrst og fremst blása hjónakornunum eld í brjóst, en um miðjar nætur var eins og orðin snerust gegn þeim og að lokum fundu þau fyrir hatri í garð sjálfsumglaðra fræðinga og berserwissara (sem örugglega höfðu aldrei átt börn sjálfir - allavegna ekki þurft að standa vaktina 24/7).
En ákveðin í að bíta á jaxlinn var hafist handa við að koma, þessum annars yndislega einstaklingi, í skilning um hversu mikilvægt það væri að sofa í sínu eigin rúmi - og geta farið að sofa sjálfur án þessa að mamma og pabbi syngi og bíi, stjúki og sussi.
Dagur 1,2 og 3 , samkæmt öllum kokkabókum, var erfiðasti tíminn.... eftir það væri þetta "barnaleikur" og litli unginn myndi sofa vært og sofna sjálfur á kvöldin; s.s. allir áttu að græða á þeim hræðilega gráttíma sem fyrir vændum var...
Dagar og nætur liðu sem eilífð og það var eins og við manninn mælt! á þriðja degi var gráturinn ekki eins sár - og þeim fannst eins og litla barnið þeirra hefði tekið út þroska skilnings og þolinmæðis á aðeins örfáum dögum. Kvöldin urðu lengri -og ekki laust við að hjónin urðu feimin við hvort annað - að geta loksins talað saman í ró og næði undir takföstum andardrætti grísanna þriggja. Næturnar voru að vísu ennþá barátta - hann vissi það - litli prinsinn, að það var landspilda sem ætti ekki að gefa eftir svo auðveldlega - á nóttunni voru andstæðingar hans veikari fyrir og mun meiri hætta á að þeim fipaðist eftir aðeins tveggja tíma nætursvefn.....
...hann lagði á ráðin..... og komst að því að hann þyrfti mikla orku til að há einvígi nætursins. Þannig að klukkan átta fór hann að hátta ásamt hinum krökkunum (sem honum fannst vera allt of undirgefin gamla fólkinu .....hahahahahhaahh þau höfðu greinilega ekki reynt bragðið hans) og svaf vært á sínu græna, enda vissi hann að þau gömlu myndu ekki nota þann tíma til að safna orku sjálf. Um miðnætti fann hann í gegnum svefninn hvernig íbúðin færðist í ró - taldi upp á tíu og einvígið var hafið.......
...í nótt myndi hann vinna
með saknaðarkveðju til svefnsins
Tóta
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 8. janúar 2007
Uppgjör eða uppgjöf ?
Hún lítur yfir árið
og reynir að draga saman minningar og afrek
úr þoku hugarfylgsnanna finnur hún ljósa punkta
sem mynda heild
Tímamót og litið yfir farinn veg
erfiði og ást,
samvera og strit
flutningar og fyrstu kaup
nýr staður og breyttir tímar
breytt glíma
Horfir fram á við
lokar augunum
tekur fagnandi á móti næstu tímamótum
og breytir uppgjöfinni í uppgjör
Gleðilegt ár og megi ár svínsinn bjóða ykkur þau þægindi og góðu lífsgæðu sem lofað er
Tótlan
Þriðjudagur, 19. desember 2006
Gervijól
Á nýjum stað myndast nýjar hefðir! Húsfreyjan rifjaði upp síðastliðin jól með heimilisföðurnum og varð hissa á hversu langt í hugarfylgsnin hún þurfti að grafa til að finna allra fyrstu jólin þeirra saman sem lítil fjölskylda. Þá var farið til mömmu og pabba í hamborgarahrygg og ekki laust við að bæði hefðu verið fegin því kærkomna boði Þar sem aðalréttur ársins 1999 hafði einkennst af spaghettíi og núðlum - og efnahagurinn reiknaður samkvæmt vísitölu en námslánin höfðu ekki breyst síðan árið 1976!!- Heimasætan var að sjálfsögðu himinlifandi yfir athygli ömmu og afa, frænku frænda og langa og löngu -enda fædd til að lifa í sviðsljósinu og ennþá bara einkabarn og barnabarn og barnabarnabarn ;)
Síðan rifjast upp allra fyrstu jólin í Danaveldinu góða. Með kvíða í hjarta og blendnar tilfinningar um gleðileg jól, var hafist handa við að finna út úr því hvernig mögulegt yrði að sameina hefðir og jól tveggja einstaklinga - því jólin búa jú, í huga hvers manns og erfitt að skilgreina jólastemningu með formúlum og rökhyggju. Ekki auðveldaði það málið að tveir auka- íslendingar-í - útlöndum - yfir jólin ætluðu að eyða jólunum saman með litlu famelíunni. Allt lukkaðist þetta samt og varð úr hið huggulegast kvöld. Forréttur a la þessi og aðalréttur a la hinn, nokkrar "besta - sósan - hennar mömmu" og síðan úrval af eftirréttum sem "yrðu að vera annars koma jólin ekki". Að sjálfsögu allt danskt hráefni (ekki ekta íslenskt - þó að hamborgarahryggurinn hafi upphaflega komið til kalda landsina frá danaveldinu góða - en það er önnur saga) og ekki neitt a la mamma og pabbi neins að sönnu, þannig að næstu jól á eftir var ákveðið að nú þyrfti fjölskyldan að loka augunum , bíta á jaxlinn og skapa sínar eigin jólahefðir.....
Smátt og smátt hafa síðan hefðir fjölskyldunnar eflst og dafnað samhliða stærð fjölskyldunnar og tölu meðlima í henni Þau hjónakornin ákváðu að rökréttast væri að hafa þann jólamat sem flestir danir töldu hið mesta lostæti og varð þannig úr að fyllt önd og flæskesteg varð á borðum fjölskyldunnar - möndlugrauturinn var fluttur í hádegismatinn því oftast komu vinir í heimsókn á þeim tíma og laumuðust gjarnan í pottinn - alltaf er e-t spil í vinning þannig að heimilisfriðurinn og spennan yfir jólapökkum helst í góðu jafnvægi yfir spilinu og jólaöli ..... síðan hefur fríið verið notað til að kíkja í jólatívolí - dýragarðinn og jafnvel á skauta á miðju kóngsin nýjatorgi..... ´
Jólatréið hefur einnig breyst og stækkað með bættum efnahag og stærri húsakynnum og með brosi á vörum minnist húsfreyjan fyrsta jólatrésin sem þurfti að henda langt fyrir þrettándann því að Loki kisi, þá bara nokkra vikna - hafði ákveðið að fara nokkrar rússíbanaferðir frá toppi og niður úr - tréinu var hent berröussuðu og ljótu enda orðið stórhættulegt fyrir littla kettlinginn. Hún minntist líka þeirrra jóla sem pöddufaraldurinn mikli geisaði í Danaveldinu - þá voru svo mikil hlýjindi að hvert einasta jóltré í bænum þurfti að fara í eiturbað og skolun, því að annars fylltust húsakynni fólks af iðandi óboðnum gestum....... Stærsta og flottasta jóltréið var síðan síðustu jólin í danaveldi - ljómandi flott fura 3ja metra há sem gnæfði yfir fjölskyldunni - en það var á jóladag sem litli jóltrésfóturinn gafst upp undan þessu offorsi og tréið féll á mitt stofugólfið með öllu sínu prjáli og punti - o, jæja það er ekki alltaf sem stærst er best!!
En nú var enn einu sinni komið að jólahaldi og ekki laust við að kvíðinn, sem hafði gert vart við sig allra fyrstu jólin í danaveldinu, sé farinn að skríða aftur upp á yfirborðið. Jólasteikin verður ekki önd a la danaveldi - þrátt fyrir að hún fáist öruggleg í Bónus, og það er húsmóðurinni lífsins ómögulegt að ímynda sér að eplaskífur með flórsykri og sultu eigi eftir að vekja upp jólaandann eins og áður....."Nú er bara að byrja upp á nýtt - finna sér góða hreindýrasteik, hafa yndislegt norðlenskt hangiket á borðum og njóta þess fyrir fullt og allt að laufabrauðið sé ekki í molum eftir flutninga danska póstsins." hugsaði húsmóðirin með sér - jákvæð að vanda. Það var samt eins og e-r lítil rödd hvíslaði að henni að vera ekki að gera sér upp of miklar væntingar til jólahaldsins í ár - því að eins og er væri fjöldskyldan enn að koma sér fyrir og enn að aðlagast austfirskum háttum og hefðum, bara það að þurfa að fara í messu klukkan 18:00 á aðfangadagskveldi og hlýða á heimasætuna kyrja í barnakórnum - bara sú tilhugsun gerðu jólin örðuvísi nú þegar....
....grunur hennar varð sterkari eftir að ákveðið var, nær samhljóma, á fjölskyldufundi, að líklegast væri hagstæðast og auðveldast í ár að vera með gervijólatré. Húsmóðirin horfði á risavaxinn pappakassann á gólfinu, sem innihélt gervitréið og hugsaði með sér að kannski bara í ár - væri það við hæfi að hafa gervi - á meðan hefðir og jól væru enn óraunveruleg í huga fjölskyldumeðlimanna. Og hver veit nema gervitréið fá síðar hvíld þegar jólin verða meira alvöru.
kæru lesendur totulaufar
gleðileg jól og tökum á móti nýju ári með hlýju í hjarta
Sunnudagur, 10. desember 2006
Opinberun á aðventukvöldi
Það er erfitt að komast ekki í jólaskap hérna á austurhluta landsins. Skógurinn fyrir utan gluggana svo mikið á kafi í snjó að maður bíður spenntur eftir að e-ð eigi eftir að bresta, allavegna svigna, undan þunga snjókornanna..... en svo eins og á einu andartaki hefur rigningin þvegið skóginn aftur og ekkert stendur eftir nema berar og skjálfandi hríslur, svell og grámi.
Það var ekki laust við að húsmóðirin sæi skapsveiflur sínar dansa í tak við veðráttuna - annað hvort var allt svo fallegt og rómantískt og það var eins og hún gæti tekist á við öll verkefnin án þess að hafa fyrir því -þolinmæðin átti sér engin takmörk og ekkert nema gleði og jólafriður gældu við heimilið...... en svo, eins og með snjóinn, hvarf þessi fegurð og einmanaleikinn byrjaði að tæla hana niður í þunglyndi skammdegis og hversdagsleika - þetta var óþolandi rússíbanareið - sem húsmóðirin var vægt sagt orðin leið á að taka þátt í.
Með komu jólanna tóku ýmsar nýjar skyldur að læðast inn í önnum hlaðinn hversdaginn. Það þurfti að föndra í leikskólum og skólum, búa til jólakort- horfa á jólaleikrit og þar fram eftir götunum og fyrst og fremst þurfti fjölskyldan að dusta rykið af trú sinni og byrja að stunda kirkjuna á staðnum..... þar söng heimasætan sinni engilfögru röddu með barnakórnum og það var ekki að sjá að hún hefði fengið votta af þeirri efablandinni barnatrú sem foreldrarnir voru enn að glíma við að skilja.
Við innileik prests og söngva, sálma og kertaljósa, þá var eins og myndaðist þýða inni að hjartarótum húsmóðurinnar og hún átti erfitt með að halda tárunum aftur, þar sem hún stóð og hlýddi á aðventumessu þetta sunnudagskvöld. "Hvað var nú í gangi?" hugsaði hún nær upphátt og vonaðist til að enginn tæki eftir þessar ofurviðkvæmni sinni. "Er ég núna loksins að ganga algjörlega af göflunum?" En það var eins og þessi þýða væri ekki ein af þessum tímabundnu klikkunum sem höfðu svo oft áður heimsótt hugarfylgsni hennar, nei, þetta var hrein og sönn opinberun.....
hún reyndi að sporna við dýrðinni sem blindaði hana en varð að lokum að sætta sig við að þarna var hún ekki lengur við stjórnvölinn..... í góðri trú og með hlýju í hjarta hlustaði hún á söng barnanna "....blikar jólastjarna...." og tárin byrjuðu að trilla niður kinnarnar .....".... var hún áður vitringum..."
"stjarna allra baaaaaaarna"
hvort sem trúin var til staðar eður ei, þá vissi hún að þarna hafði átt sér stað mikil opinberum...
... það var erfitt að fóta sig í glerhálkunni á leiðinni út í bílinn, en það læddist lítið bros á andlitið hennar þegar hún horfði á fjölskylduna sína fóta sig á gráu svellinu og hún áttaði sig á því í fyrsta sinn hvernig tunglskinið glampaði í grámanum.
Miðvikudagur, 29. nóvember 2006
Falskt vor
Hérna tala allir um veðrið - ekki bara hérna á austurhluta landsins, heldur bara á öllu Íslandi. Það eru t.d alltaf veðurfréttir í útvarpi og sjónvarpi og ef það er ekki í fréttatímunum þá er veðurfréttunum smokrað inn á milli laga í útvarpinu. Auðvitað er þetta e-r arfleifð frá því að karlarnir réru á sjóinn og allir ferðuðust um á tveimur jafnfljótum eða á hestbaki yfir fjöllin flotti. En...... ég nenni ekki að tala meira um veðrið - veðrið á að koma okkur á óvart, það á að vekja upp óvæntar tilfinningar og það er satt að segja ekki það spennandi umræðuefni
En það er ótrúlegt hvað veðrið getur opnað skúffur og skjalasöfn í hugarfylgsnunum, það að liggja í snjóbreiðu í ljósaskiptunum japla á grýlukerti og búa til engla í snjónum - það er e-ð sem gaman er að tala um - og að finna fyrir kraftinum í snjóbylnum sem sveiflar ljósastaurunum fram og til baka fyrir framan eldhúsgluggann minn - þá finnur maður fyrir smæð sinni....eða að anda að sér ferska ilminum af vorinu þegar gróðurinn lifnar við eftir vetrardvalann - ómetanlegt...
...í morgun kom vorið - snjórinn drýpur af húsþökunum og skilur eftir polla og krap úti um allt. Það þurfti ekki að moka sig út að bílnum í morgun og allir fóru á peysunni í skóla og leikskóla.... yndisleg frelsistilfinning sem húsmóðirin vissi að væri fölsk og aðeins komin til að erta uppi í henni skammdegisþunglyndið. En svona á Ísland til að koma manni á óvart - með smá hrekkjum hér og þar - ætli þetta sé arfleifð gömlu jólasveinanna? að stríða mannfólkinu svona rétt fyrir jólin til að minna það á barnið í sjálfum sér?
O, jæja. Það er ekki annað en að njóta stunda á milli stríða, fara í ullarpeysuna oga arka yfir pollana með barnavagninn - enda ekki seinna vænna að njóta síðusta daga fæðingarorlofsins - já húsmóðirin er búin að gefast upp á því að sannfæra sjálfa sig um að hún sé best geymd í þvottahúsinu og í brrr brr og mu mu leikjum þurrkandi af prjáli og punti- hún hefur kyngt stoltinu og er komin með pláss fyrir konfektmolann sinn og horfir björt fram á margar vinnustundir við það sem hún unir sér best við.
Hún horfir yfir krakkaskarann sinn og hugsar hvað það væri nú yndislegt að fá allt sem hún óskaði sér- ánægða krakka, ánægða fjölskyldu, starfsframa, og fyrst og fremst ró í sálunni - en hún vissi að það var eins og með vorið - það kemur þegar það kemur og enn um sinn þurfti hún bara að feika það .........