Miðvikudagur, 22. nóvember 2006
Söknuður til Esjunnar
Allt of stutt heimsókn í höfuðstaðinn er á enda - það er furðulegt að vera með heimþrá en finnast maður eiga hvergi heima - "nú er horfið norðurland, nú á ég hvergi heeeeeeeeima" Já, hvort sem um er að kenna ofurviðkvæmni á hæsta stigi - mikilli þreytu eða bara einskærum barnaskap, þá átti húsmóðirin erfitt með að segja bless við borgina sína. Hún minntist ekki að hafa upplifað annan eins söknuð til litlu stórborgarinnar og varð stöðugt að reyna að hrista af sér dramatíkina. En það er sárt að sakna einhvers og ennþá sárra að sakna þess sem ekki er til - því að húsmóðirin gerði sér grein fyrir því að hún gat ekki komið með hrein og klár rök fyrir því hvað það var eiginlega sem hún vildi.
...hún leit niður á borgarljósin og raulaði í huganum texta eftir meistarann Megas, og hún vissi nákvæmlega hvað það var sem hún saknaði ...
... hún fékk staðfestingu á grun sínum þegar flugvélin hóf lendingu
hún taldi 50 ljós
og eitt sem slokknaði
tótlan
Fimmtudagur, 16. nóvember 2006
Bil á milli bylja
Það hefur snjóað stanslaust í 3 daga hérna. Ekkert svona hálfkák eins og minnst er úr Reykjavíkinni og alls alls alls ekki þetta smá aumingja fjúk sem átti að venjast í Danaveldinu. Þetta er alvöru - svona aðstæður sem ætti að henda keðjum undir alla bíla og skipa fólki að fara á jeppafyllerí. En hérna lætur fólk eins og ekkert sé eðlilegra - auðvitað er ekkert eðlilegra á þessum tíma árs og á þessum landshluta, það er bara óeðlið í okkur aðkomufólkinu sem er frekar áberandi. Og þó.....
...Húsmóðirin góða er löngu hætt að stressa sig á mikilvægum smáatriðum eins og hvort heimilisfaðirinn hafi komist yfir dalinn og í vinnuna og hvort hann skili sér heim þennan daginn, hvort eigi að hringja í skólana og sjá hvort að kennsla falli niður og jafnvel að skipuleggja brjálaðar búðarferðir til að geta undirbúið sig fyrir mánaðar innilokun út af óveðri. Hún og hinir fjölskyldumeðlimirnir eru búnir að aðlagast breyttum aðstæðum ótrúlega hratt, meira að segja hefur yngsti meðlimurinn látið sig hafa það að honum sé troðið í 45 undirlög af fötum ÁÐUR en gallanum er skellt yfir hann og það er ekki að sjá nema eldri krakkarnir séu annars hæstánægð með allan snjóinn sem er tekinn að blokka allar útgönguleiðir...
...minningarnar byrja að kvikna eftir því sem líður á vikuna og áður en húsmóðirin góða getur nokkru um það ráðið þá er hún farin um 20 ár aftur í tímann, þar sem hún liggur ofan í ókláruðum húsagrunni ásamt nýjum vinkonum, það hefur snjóað alla nóttina og því er grunnurinn eins og sundlaug fulla af dýrindis hvítum snjó. Á þessu tíma var hverfið ennþá í byggingu og það er ekki laust við að það fari hálfgerður hrollur um húsmóðurina af tilhugsuninni um allar slysahætturnar sem voru á þessum tíma á byggingarsvæðunum allt í kring. Hún man eftir snjónum - það var alltaf allt á kafi í snjó á þessum tíma og það var ekki laust við að hún glotti við tilhugsunina hvað lífið var einfalt þá - en samt svo ótrúlega flókið - nýtt hverfi og nýjir krakkar en samt einhvern veginn alltaf tími til að henda sér í skaflana og búa til engla í snjónum, grafa sig inni í snjóhúsum og safna snjóboltum fyrir næstu átök við strákana í hinni götunni.....já einu sinni var Grafarvogurinn lítið pleis
EN nú var hún stödd á ennþá minni pleisi og ekki nær eins ánægð með snjóinn og þegar hún lék sér með nýju vinkonum sínum - það var einhvern veginn erfiðara að njóta mjallarinnar þegar þurfti að klæða krakkana í allar flíkurnar, brjóta sér leið í gegnum snjóinn og skafa af bílnum bara til að koma þeim á réttum tíma í skóla og leikskóla.... og einungis til að fá háðsglósurnar frá lókal mönnum sem hristu hausinn góðlátlega og sögðu "þetta, þetta er ekki neitt - smá fjúk - bíddu þangað til alvöru snjórinn kemur - hehehe" en hún vissi að bak við glottið hugsuðu þeir allir það sama; þau endiast ekki út árið !!!
Snjóstormurinn bylur á rúðunni og það er svekkt fjölskylda sem er á leið í bólin sín, fyrirhugaðri Reykjavíkurferð er frestað um óákveðin tíma sökum veðurs. Hún breiðir yfir ungana og veltir því fyrir sér hversu auðvelt er að hefta frelsið.
Fimmtudagur, 2. nóvember 2006
Einn dagur í ræktinni
Það var ekki hægt að dansa um þessa staðreynd lengur, húsmóðirin hafði hægt og sígandi sigið inn í sama farið og hún hafði svo oft áður lent í - letimunstrið mikla!!!! Já einhverra hluta vegna hafði ekki gefist mikill tími til að huga að líkamanum og heibrigði sálar í öllu barna - og flutningastússinu. Það var ekkert annað að gera en að skrá sig í ræktina - já hér úti á landi er allt - þá meina ég ALLT- skrifað með greini (smbr. Bónusbúðin (þökk sé almáttugum fyrir hana) kaupfélagið, kaffihúsið, bankinn, pósturinn, og svo ræktin, sem er inn í hinu fjölhæfa leikfimihúsi héraðsbúa - þar ber líka að finna sundlaugina, sunddeildina, fimleikadeildina, fótboltadeildina, samkomusal grunnskólans og svo mætti lengi telja)
Allavegna, nú var komið að því óumflýjanlega; að kaupa sér kort í ræktinni - en þegar loks á hólminn var komið - var þar ekkert í boði fyrir útjaskaðar heimavinnandi húsmæður...... þar var nóg í boði fyrir stælta menntaskólanema, miðaldra kellur sem litu á þetta sem fálagsmiðstöðina sína og já, jafnvel ungt og hraust fólk á framabraut sem gat skellt sér í góða morguntíma rétt fyrir átök vinnudags. En þegar húsmóðirin mætti þreytt og þjökuð af hreyfingarleysi rakst hún á skilti sem á stóð með tússlítuðum, heimatilbúnum stöfum:
Gestir líkamsræktarstöðvarinnar athugið - börn eru ekki velkomin inn í tækjasal eða í tímum. Vinsamlegast skiljið börnin eftir heima!!!!
Nú voru góð ráð dýr, ekki gat húsfreyjan skakið kropp sinn þarna með litla örverpið í fanginu og ekki var í boði að koma barninu fyrir hjá dagmömmu eingöngu svo húsfreyjan væna gæti hoppað og hrist á sér dellurnar eftir eigin geðþótta. Hún ákvað að leggja höfuðið í bleyti og úr varð stór pöntun á DVD leikfimidiskum. Ha haaa, af hverju hafði hún ekki gert þetta áður - hver þurfti á rándýru mánaðarkorti að halda þegar hér var hægt að stofna sína eigin stöð á miðju stofugólfinu.
Pantaðir voru 4 diskar - einn til að hrista af sér aukakílóin, annar til að auðvelda liðleika og síðan var það styrktarþjálfun og jóga til að öðlast ja, styrk og innri ró. Það verður að viðurkennast að diskarnir voru of fljótir að berast húsmóðurinni, yfir sjó og land, fjöll og fyrnindi ( bölvuð sé nútímasendingar og internetbúðir) þannig að þarna stóð þetta fullkomna safn líkamsræktardiska og safnaði ryki uppi á bókahillu í allt of langan tíma.......
....nagandi samviskubit húsmóðurinnar var að gera út af við heimilisfriðinn - hún varð fljót að finna sér allskonar afsakanir fyrir hreyfingarleysinu; allt í einu hafði litli prinsinn eignast góðan leikfélaga sem var sveitt við að sannfæra sjálfa sig um að kallgreyið þyrfti nú á félagslegum þroskaleikjum að halda - hún varð sannfærð um að það væri tími kominn á alþrif í íbúðinni og var óvenju hress og dugleg móðir, tilbúin með kakó og kökur í kaffitímann - þegar heimasætan og riddarinn prúði komu heim úr skóla og leikskóla. Allt þetta til að forðast staflann sem beið og beið eftir að verða tekinn í notkun.......
þessu varð að linna - og hún vissi að nú væri ekkert annað að gera en taka sig taki og ákveða "tímana" í hinni heimatilbúnu líkamsræktarstöð.
Hún beið eftir að litli prinsinn væri farinn í lúrinn góða úti í vagninum, dreif sig í J-Lo dressið (sjá lýsingu í blogginu " Á fyrsta sætið stefni ég") og setti dýnuna á gólfið fyrir framan "kennarann". Það var jóga á dagskránni í dag - var ekki e-s staðar sem hún hafði lesið að það borgaði sig ekki að byrja of geyst eftir langa pásu í hreyfingarleysi og sleni?......jóga var svarið og ljúfir indverskir tónar byrjuðu að fylla íbúðina hlýleika og birtu. Hún bjástraði og teygði, togaði og beygði - og það var ekki frá því að hún fyndi strax mun á sér eftir aðeins örfáar mínútur......
...það var ekki fyrr en í lok "tímans" að hún tók eftir augunum sem störðu inn um stofugluggann.....þetta voru 4 smiðir á svölum íbúðarinnar á húsinu á móti - hún hafði að sjálfsögðu ekki hugsað út í það að draga fyrir gluggatjöldin og auðvitað ákkúrat þennan morgun var heill her af pólskum karlmönnum að bjástra rétt fyrir utan gluggann hennar........hún vinkaði vandræðalega til þeirra og ákvað að kannski væri einka-líkamsræktarstöðin hennar ekki hennar einkamál lengur.
Miðvikudagur, 25. október 2006
Rómantík hversdagsleikans
Á 7 ára fresti er talið að öll sambönd eigi í einhvers konar erfiðleikum....þetta var húsfreyjunni ofarlega í huga þegar hún vaknaði að morgni dags þ. 23. október síðastliðinn. Þetta var einn af þessum venjulegu mánudagsmorgnum, krakkarnir ofurhressir en húsfreyjan að berjast við að koma sér í hin daglegu skyldustörf sín, heimilisfaðirinn var fyrir löngu farinn að vinna fyrir saltinu í grautinn. "Jæja, þannig er nú það, brúðkaupsdagurinn byrjar ekkert öðruvísi en aðrir dagar " hugsaði hún með sér á meðan hún losaði yngsta meðliminn við skítuga kúkableyjuna. Henni fannst ekki vera liðin 7 ár síðan hún stóð fyrir framan guði og mönnum og játaði að ganga í gegnum súrt og sætt með manninum sínum, aðeins börnin 3 stóðu sem þægileg áminning um að svo væri nú.
En á 7 ára fresti væru erfiðleikar á sveimi..... ætli þar sé verið að ganga út frá 7 árum í hjónabandi eða bara frá byrjun sambandsins almennt - því að þetta ætti að skipta meginmáli. Ef hér var um að ræða 7 ára hjónaband þá væri ágætt að vita af því svona fyrirfram og kannski væru möguleikar á að gera ákveðnar ráðstafanir til að milda þessa yfirvofandi erfiðleika sem voru í vændum. Ef hins vegar væri leyfilegt að telja sambandsárin með, í heild sinni, þá voru nær tvöföld erfiðileikatímabil að baki.
Þetta var orðið annsi snúið reiknisdæmi fyrir húsfeyjuna góðu - þannig að hún sneri sér að einfaldari verkefnum dagsins. Það var samt ekki frá því að það væri að naga hana einhverskonar ósætti við veruleikan - prinsessugenin létu á sér krauma í undirmeðvitundi - og hún hugsaði með sér hvað það væri nú leiðinlegt að geta ekki haldið almennilega upp á þennan merkilega áfanga sem brúðkaupsafmælið markaði.
Dagurinn leið sem einn sá venjulegasti mánudagur sem húsmóðirin góða hafði upplifað á ævi sinni. Hvar var kampavínið, jarðarberin og já, arineldurinn ef e-ð átti að nefna til að gera þennan dag sem rómantískastan? Það var ekki frá því að hún væri hálf pirruð þegar átti að sækja krakkana í skóla og leikskóla og enn pirraðri þegar hún sá að kúkableyja númer 3 var í framleiðslu.
"O, sussum svei, ætli maður haldi ekki bara upp á þetta þegar maður er dauður úr elli" talaði hún bitur upp úr hugsunum sínum, og hún, minntist allra þeirra brúðkaupsafmæla sem höfðu liðið án þess að farið hefði verið í Barcelonaferðina rómantísku eða gert eitthvað í tilefni þessa merka áfanga....annaðhvort hafði skortur á fjármagni, barneignir eða brjóstagjafir stöðvað þannig áætlanir...
Hún bölvaði í hljóði yfir skorti á rómantík þennan tiltekna dag, fór með krakkana til tannlæknis og hugsaði "aumingja ég - að get ekki fagnað þessum degi MÍNUM - og gert eitthvað eftirminnilegt". Þegar hún hrærði í grjónagrautnum og skar niður blóðmör ofan í liðið hugsaði hún " jæja, svona verður þetta víst, dagurinn senn á enda, og ekkert sem bendir til þess að úr verði hinn besti brúðkaupsdagur þessa sambands....." Ætli hin 7 ára kreppa sé kannski að banka upp á?
Þau hjúfruðu sig saman yfir imbanum og hrutu bæði í takt, enda búin - og búin að ganga frá eftir matinn, baða grísina sína, hlýða yfir heimalærdóm prinsessunnar, tannbursta og hátta og að lokum koma öllum öruggum í blíð ból.......og þá og aðeins á því andartaki rumskaði húsfreyjan og rankaði við sér......þetta hafði verið góður brúðkaupsafmælisdagur hjá þeim öllum - því að hvert brúðkaupsafmæli á að umvefja hvert tímabil fyrir sig og einblína á þá rómantík sem felst í hversdagsleikanum - það gat vel verið að það ætti betur við að halda upp á þessi tímamót á annan hátt á öðrum tíma; hún sá fyrir sér ferðalög með börnunum, þegar þau yrðu eldri, kvöldverð með börnum og jafnvel barnabörnum og kannski óvænta skemmtisiglingu með háöldruðum eiginmanni sínum - eftir mörg mörg ár - en núna voru þau stödd annars staðar í lífinu......hvað var rómantískara en að eyða kvöldinu í faðmi fjölskyldunnar yfir nokkru svo hversdagslegu sem skál af ilmandi grjónagrauti og brosmildum börnum.
með von um önnur eins 7 sæl ár í bandi og svo framvegis
tótlan kveður, óver end át
Laugardagur, 21. október 2006
29 og eldist eins og gott eðalvín
Jæja - þá er það orðið raunverulegra en áður.... maður er alltaf að nálgast æ meira "dirty" aldurinn alræmda, ég verð nú bara að segja eins og margir að ég get ekki annað en beðið spennt eftir þeim tímamótum enda ekkert eins skemmtilegt og að hafa ærna ástæðu til að halda gott partý ( þá vitið þið það - engar afsakanir - partý á Egilsstöðum eftir ár.....skora á ykkur að mæta)
Vaknaði upp við kæran snuddusöng yngsta fjölskyldumeðlimsins - var ekki frá því að hann væri að reyna að semja afmælissöng....sneri mér á hina hliðina og þar lá prinsessan ( það er svoooo gott að kúra uppí ) hún var fljót að átta sig - smellti góðum kossi á mömmu gömlu og sagði "hugsaðu þér, þegar ég verð 29 ára þá ert þú jafngömul og amma Bubba er núna ". Þetta var rétt hjá henni - það var nú ekki sem verst, enda ekki amalegt að eiga nær þrítuga stúlkukind og vera enn á præm aldri - varð hugsað strax til mömmu og pabba og, já allra vina og ættingja svo langt í burtu - fékk hemþrá en hún lagaðist fljót við knús frá bóndanum " til hamingju elskan - þú verður bara flottari með aldrinum já þá hvarf heimþráin fljótt enda erfitt að sakna þegar nær allir næstir manni erum samakomnir hjá manni.........sá í miðið kom skoppandi inn, enda önnumkafinn ungur maður - "til hamingju elsku mamma mín, ég er búin að kubba geimskip" ´"vá er það handa mér, takk fyrir" heyrði ég mig segja, "Nei, ég er bara að segja þér að í kubbaði geimskip" Ok - það er ekki hægt að biðja um allt.
Fékk gjafir og morgunmat í rúmið .....mmmmm... þetta var lífið - hugsaði með mér að kannski ætti maður bara að fara að gera þetta að daglegum viðburi - en hugsaði með sér að hvorki heimilisfaðirin né börnin myndu endast lengi í þeim pakkanum - enda var það bara enn sérstakara að fá svona þjónustu einu sinni á ári - eða jafnvel bara þegar afmælisdaginn ber upp á helgidegi. Fórum öll famelían í sund - skemmtilegast að fara í kappsund við heimasætuna (og já, hún er orðin MIKLU betri en húsfreyjan) þannig að það var ánægjulegt rúst af hennar hálfu.
Þegar heim kom beið húsfreyjunnar enn ein óvænt ánægjan..... fyrsta kaffiboðið hérna á Egilsstöðum. Og þvílíkar kræsingar hafa ekki sést lengi vel - það kom þeim hjónakornum sem buðu skemmtilega á óvart að þetta væri í raun afmæliskaffi, og það ekki af verri endanum.......
...jæja ég hugsa að ég fari nú að horfa á bóndann töfra fram afmælismat kvöldsins og þakka hér með öllum sem hafa verið svo sætir að senda mér kveðjur og slá á þráðinn í dag
knús og kossar og sakn sakn og ég ætla að enda með að segja, eins og krakkalakkarnir mínir hafa oft kveðið:
"Þetta er búinn að vera BESTI afmælisdagurinn minn "
tótlan síunga (sem er alveg að tapa sér í brosköllum í þetta skiptið)
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 18. október 2006
Vetur konungur bankaði upp á hjá mér
Mikið get ég verið barnaleg..... það er eins og ég hafi búið í danaveldinu alla mína ævi og aldrei kynnst hinni íslensku veðráttu áður. Í morgun kom veturinn hingað til Egilsstaða. Það var ekki svoleiðis að hann hafi fyrst verið búinn að koma með smá forleik með tilheyrandi kuldaatlotum eða blæstri ....ó nei í gær gekk ég um með barnavagninn í bongó blíðunni - sveitt í allt of miklum fötum (er enn að klæða mig eftir almanakinu - eins og danirnir gera - en ekki eftir sjálfu veðrinu) og í morgun vöknuðum við upp við snjóbyl....
Allavegna það varð uppi fótur og fit í hugarsfylgsnunum - alltí einu varð húsmóðirin að vinna yfirvinnu í skipulagningu - hvar voru kuldafötin á börnin - átti sá yngsti yfir höfuð kuldagalla???? voru allir vel græjaðir af vettlingum og lopasokkum (nú kom offramleiðslan í prjónageiranum sér vel) hvernig með bílinn - kemst hann áfram á smellfínu sumardekkjunum sínu - við erum úti á landi - og er ekki alltaf snjóflóð og óveður úti á landi.......íííííííííííííí´- það bræddi nær yfir í heilanum og klukkan ekki einu sinni búin að slá 7:00.
............ húsmóðirin góða ætlaði að gera svo mikið í dag ........en þar sem hún fékk vetur konung í heimsókn ákvað hún að hafa það náðugt með þeim prinsum og bjóða upp á rjúkandi heitt kakó í tilefni dagsin ( hei þetta er nú líka hennar AFMÆLISVIKA)
saknsaknsaknsaknkansnaks
tótlan
Fimmtudagur, 12. október 2006
Greining Dr. Pill
Þökk sé hinum fagurmælta sjónvarpssála hefur húsmóðirin komist að því að hún er haldin mikilli áráttu sem engöngu er þreyjuð til að koma í veg fyrir að hún þurfi að horfast í augu við vandamál sín. Peysur, húfur, sokkar og vettlingar, mjúkir jólapakkar og já, jafnvel leikföng, allt eru þetta prjónuð afsprengi veruleikaflótta húsfreyjunnar góðu...... hvað ætli komi næst; prjónaður matur eða jafnvel prjónað/klónað eintak af konunni svo hún geti látið prjóna/klóna-eintakið um hin almennu (leiðingjörnu)hverdagsverk á meðan hún sjálf hjúfrar sig upp í sófa með prjónana taktföstu.
Dr. Pill telur að allt eigi sína útskýringu, allar áráttur, hversu meinlausar og skringilegar þær kunni að vera, þá eiga þær sér allar rætur e-s staðar. Hver ætli orsök prjónaáráttunnar sé? Ætli hún sé skild púsl, lestrar- og krossgátuáráttum síðastliðnu áratuga? eða var húsmóðirin það djúpt sokkkin í eigin hugleiðingar að hún tók ekki eftir því að áhugamálið var orðið að áráttu - áráttu sem átti eftir að draga hana niður í þunglyndi eða öfugt ...........
Allar þessar pælingar sem Dr. Pill hafði varpað frá sér gáfu húsfreyjunni góðu hausverk, þannig að hún gerði allt sem í hennar valdi stóð til að rífa sig frá prjónaverkefni sínu (yndisleg lopapeysa fyrir mið -strákinn) og ákvað að gefa mömmugrúbbu kirkjunnar annað tækifæri - svona til þessa að geta allavegna sagst hafa reynt að ná tengslum við umheiminn.....
Það var grafarþögn í óvistlegu kirkjuherberginu, nú voru einungis 8 mæður mættar - og ekkert kaffi til á könnunni. Það var trúlegast að veðrið ætti sinn þátt í slakri þáttöku mæðranna en skýringin gat líka verið sú að þessi mömmugrúbba væri ekki upp á marga fiska...... húsfreyjan góða kom askvaðandi inn úr rigningunni ( hún var sú eina þarna á svæðinu sem var ekki komin með nóg af íslenskri veðráttu - fannst rokið gefa sér kraft og köld rigningin færa sér rósrauðar kinnar - allir hinar komu á jeppum enda komnar með upp í kok af sífbylju rokinu á þessu Roklandi) ... hún bauð hressilega góðan daginn ( þó ekki of hressilega - mátti ekki virka of desperat í félagsskapinn) ...og hellti upp á könnu af ilmandi braga-kaffi. Það hefði verið meira spennandi að segja frá því að "það sló þögn á hópinn þegar hún kom inn" það er samt ekki alveg rétt - það sló engri þögn á - það var þögn þegar húsfreyjan góða sté inn og sú þögn lá yfir eins og slæmt tilfelli af austfjarðarþoku...þessar mömmur höfðu ekkert að spjalla um. "jæja, þá verð ég að finna e-t umfjöllunarefni sem allir geta fundið sig í " hugsaði húsmóðirin góða - loksins komin með fyrsta kaffibolla dagsins í hendurnar.....sjónvarpsþættir, barnamatur, kvöldmatar og já jafnvel slúður um náungann.... allt þetta rembdist húsfreyjan góða við að brydda upp á til að koma af stað ágætu flæði í samræðurnar.....hún leit örvæntingarfull í kringum sig í veikri von um að finna e-ð sameiginlegt með þessum annars ágætu mæðrum á öllum aldri....
Augun staðnæmdust við litlar fætur - lítil 6 mánaða prinsessa sat í kjöltu móður sinnar og undi sér vel, fæturnir voru krúttlegir já, en það sem vakti athygli húsfreyjunnar góðu voru sokkaskórnir sem stúlkubarnið klæddist. Hvítir og handprjónaðir úr mýkstu kanínuangóru-ull og svo einfaldir en þó flóknir í þessari mini - útgáfu. Gat það verið að þarna væri komin önnur prjóna-óð kona... gat það verið að einmitt þarna yrði til vísir að prjóna - saumaklúbbnum sem húsfreyjan góða var farin að láta sig dreyma um?
Hún nálgaðist mömmuna hægt og gætilega, með örlitla vonarglætu í hjarta - nú væri bara að fá það á hreint að þessir skór kæmu úr smiðju mömmunnar - mamman var nýbúin að vera að hreykja sér af skónum og hversu einstakir þeir væru....."jiiii, hvað þetta eru sætir sokkaskór- varst þú að prjóna?" Ein setning sem myndi kannski breyta öllu lífi húsfreyjunnar - sjá til þess að "árátta" hennar hefði ekki verið neitt annað en leið til að eignast nýja vini og komst út úr húsí - ha haa Dr. Pill - in your face!!! ......en sigurbrosið brotnaði í öreindir þegar hás hlátur mömmunnar smeig inn um eyru húsfreyjunnar...."hahahhahahah ég að prjóna ......nei hei þetta var sko keypt í Reykjavík - í Kringlunni meira að segja" hinar mæðurnar hlógu hátt með - loksins höfðu þær e-ð að tala um - "hver prjónar nú til dags" " það ernú orðið alveg útdautt að prjóna" " amma mín prjónar ef ég legg inn pöntun - henni finnst það samt ekki gaman...."
Húsfreyjan var komin heim til sín - rigningin og rokið hafði ekki gefið henni þá orku sem hún var ætíð að lofsyngja ( sá lofsöngur var að vísu miklu áhrifameiri þegar hinu íslenska veðurfari var lýst fyrir dönunum í danaveldi - en ekki þegar þurfti að upplifa veðurfarið í beinni á hverjum einasta degi) Hún var uppgefin - hún reyndi að telja sér trú um að hér væri á ferð þreyta vegna roksins og vegna brekkunnar sem ætíð þurfti að klífa á leiðinni heim......en hún vissi innst inni að Dr. Pill hafði rétt fyrir sér - Prjónaskapurinn var leið húsfreyjunnar til að hylma yfir e-ð sem hana vantaði ... það versta var að nú vissi hún hvað það var.
Húsfreyjan góða hlustaði á regndropana lemja rúðuna - útbjó sér einn tvöfaldan expressó og byrjaði á ullarsokkum handa prinsessunni sinni .....fegin yfir að árátta hennar væri þó ekki alvarlegri en þetta
Miðvikudagur, 4. október 2006
So, How do you like Egilsstadir?
Já, nú má með sanni segja að það sé langt liðið síðan húsmóðirin hefur bloggað - og ástæðan, jú, það er frá harla litlu að segja!! Lífið gengur sinn vanagang og í mörgu að snúast í hversdagleikanum - enda getur hin 5 manna fjölskylda auðveldlega verið 150% fulll vinna - það er að segja ef maður hefði áhuga á svoleiðis vinnu ..... því að þrátt fyrir miklar annir þá er ekki þar með sagt að þetta séu áhugaverð verkefni sem húsfreyjan góða (ég) þarf að fást við. Það þarf að sjálfsögðu að koma öllum á lappir, skipta á kúkableyju, gefa morgunmat, klæða allla og græja fyrir skóla, leikskóla og vagn, skutla krökkum í áðurnefndar stofnanir, og setja í þvottavél, gefa hádegismat (og reyna að muna eftir að fóðra sjálfa sig) skipta á kúkableyju, leika við konfektmolann, og svo aftur út í vagn, sjá um hina algengustu heimilisverk (það er að vísu krísa núna þar sem uppþvottavélin er í stykker) sækja börn, skutla í tómstundir, tala við og knúsa og kjassa krakkalakkana, elda kveldmat, hátta, pissa tannbursta krakka, svæfa og svoooooo henda sér upp í sófann og liggja þar og þykjast horfa á imbann (þ.e sjónvarpið - nú má enginn misskilja mig og halda að hér hafi verið að tala um heimilisföðurinn ;)
Þetta er nú stórt séð það sama og var í gangi í Danmörku - eini munurinn er nú samt að þar hafði maður hina og þessa vini sína til að væla í og heimsækja, og brjóta upp á amstri hversdagins með því t.d að gera mun á hversdögum og helgidögum. Nú mega lesendur þessa bloggs ekki halda að húsfreyjan sé að setja sig á háan stall og haldi því fram að hversdaglegar pliggtir þessarar fjölskyldu séu annarskonar eða erfiðari en annara fjölskyldna víða um heim, ó sei sei nei - þetta er svona alls staðar og ekki neins staðar - og það er með einsdæmum að flestar fjölskyldur skuli komast yfir þetta allt saman á meðan BÁÐIR aðilar vinna sína 9 tíma vinnudaga.
En út af hinni þéttskipuðu dagskrá húsfreyjunnar þá hefur ekki gefist mikill tími til félagslegrar iðkanna - allir vinir og ættingjar úti í heimi keppast við að spyrja hvort húsfeyjan sé ekki búin að koma sér upp þéttu vinaneti kaffisopakvenna og slúðurmeyja. Suma daga virðist það svo freistandi að það liggur við að uppskrift prinsessunnar sé prófuð, hún er svona:
Uppskrift til að finna sér nýja leikfélaga:
- Finna heimili eða stað þar sem pottþétt er að finna manneskur á þínum aldri (þetta er tímafrekasti þátturinn í ferlinu - en ef grunnvinnan er vel unnin þá ætti það að borga sig á endanum)
- Sitja um þetta tiltekna svæði, og fylgjast grannt með atferli tilvonandi vina (hér á sérstaklega að passa sig á að verða ekki kærður fyrir gluggagæjur -eða annað afbrigðilegt athæfi)
- Leita að heppilegu tækifæri til að "rekast´á " tilvonandi vin, og volá!!!! alltí einu verður lífið mikið skemmtilegra
- varaplan: ná sér í vini á förnum vegi, snúa upp á hendina á "vininum" og þvinga bókstaflega til að koma heima að leika.
Ég hef fylgst með meistaranum í þessari iðn vera að störfum og hala inn vinkonur og vini í tugatali ..... þetta virtist virka!! ætlaði samt ekki að láta reyna á lið nr.4.
Þar sem þessi meistari vinasambandanna er mun yngri en húsfreyjan lífsglaða og mjög skyld henni líka ;) þá ákvað húsmóðirin að nú væri að duga eða drepast - nú mættu öll mikilvægu heimilisverkin bíða betri tíma og að nú hæfist missíónin "Að draga húsfreyjuna upp úr þunglyndi einmanaleikans"!!!
...og hvar er betra að byrja en á mömmumorgnum kirkjunnar? Með sól í hjarta og traust umræðuefni á takteinum (tanntökur og verð á bleyjum) arkaði húsfreyjan upp og niður bratta bakka í sólríka haustveðrinu. Það var ekki að spyrja að því - áhuginn var mikill á húsfreyjunni vænu, hvaðan hún kæmi, hverra manna hún væri, hversu mörg væru börnin og svo framvegis, svo kom spurningin sem brann á allra vörum "HVERNIG Í ÓSKÖPUNUM DATT YKKUR Í HUG AÐ FLYTJA HINGAÐ?"
....en einhverra hluta vegna stóð á svari húsfreyjunnar á þessum sólríka mömmumorgni. Hvort sem það hafi verið út af feimni, eða bara það hvernig sólargeislarnir léku við jesúmyndirnar uppi á öllum veggjum - þá fannst henni erfitt að tala ekki frá hjartanu í þetta skiptið (þetta var þá rétti tíminn til að verða guðhræddur - ó sei sei nei).
Það væri hrein og bein lygi að halda því fram að enginn hafi spurt þessarar spurningar áður - það hafa verið alls konar aðilar - allt frá nánum fjölskyldumeðliðum og fjarskyldir kunningjar, alltaf hefur ofurfjölskyldan verið samstíga um svarið - brosað sólbrúnu brosi og yppt öxlum yffir ævintýragirni sinni og haldið því fram að lífið sé saltfiskur hvar sem maður er staddur í heiminum.......
"So, how do you like Egilsstadir, og hvernig datt ykkur í huga að koma hingað?" Hik húsmóðurinnar virtist koma ónoti á hópinn, "hvað ætlar hún ekki að svara stelpan"," ohh ég vissi að það kæmu bara skrýtið fólk úr BÆNUM"," hvað þá fólk sem hefur búið í útlandinu"........
Allskonar hugsanir byrjuðu að sækja að húsfreyjunni: Var þetta þá ÞAÐ!!! var það hérna í sjálfu guðshúsinu sem myndi renna upp fyrir henni að hún hefði gert stærst mistök lífs síns......en táknrænt!
Húsfreyjan arkaði aftur heim, brjótandi heilan um hvað það væri eiginlega sem allt þetta snerist um, hvert væri svarið við hinni miklivægu spurningu....og komst að þeirri niðurstöðu svarið ætti að geyma í hugarfylgsnunum þar til hjartað hefur fundið hinn rétta takt.
knús og sakn sakn
tótlan
Sunnudagur, 3. september 2006
80% gott samband
Mér hefur alltaf þótt gaman spá í spilin - þeir sem mig þekkja hafa jafnvel lent í því að fá upplýsingar um framtíðina, ástir, vonir og þrár- allt séð í gegnum einn ákveðinn spilastokk. Það er langt síðan síðast - svo langt að ég er farin að sakna þess svolítið að sinna ekki þessari trú minni á örlögin.....til þess að fullnægja aðeins þessu annars ágæta áhugamáli, eyddi ég nokktum tíma í að "gúggla" að mér upplýsingum um alla fjölskyldumeðlimina - persónluleika þeirra, starfsmöguleika og já, jafnvel hversu vel við hjónin eigum saman- allt er þetta að sjálfsögðu reiknað út frá stöðu himintunglanna og ég efast ekki um að allt sé satt og rétt ;) Njótið vel
Tóta (Snákur og Vog):
Þessi blanda af stjörnumerkjunum er ein sú eftirsóttasta af þeim öllum. Vogin leggur mikla áherslu á tign og bætir því þannig snáks-merkið til muna. Þessir tilteknu snákar eru miklir fagurkerar og elska að vera hrókar alls fagnaðar :) Í ástum eru þeir bæði rómantískir og hugsjónasamir.
Tilvalin störf: Prófessor, Málamaður, Kennari, Sálfræðingur, Geðlæknir, Stjörnufræðingur, Miðill, stjórnandi almannatengsla, innanhúshönnuður.
...
Gunni (Snákur og Meyja):
Fólk í þessum stjörnumerkjum vilja vera við stjórnvölin. Þeir eru líka annsi góð í að skipuleggja:) Þeir nota smátriða"sýki" meyjunnar til að vera vissir um að allt gangi smurt. Fólk í þessum merkjum eru í sífelldri leit við að styrkja stöðu sína í samfélaginu. Þeir leggja aðaláherslur sínar á hið vitsmunalega, og geta stundum virst vera tilfinningalausir.
Tilvalin störf: Prófessor, Málamaður, Kennari, Stjörnufræðingur, stjórnandi almannatengsla
...
Góa (Tígur og Fiskur):
Tígrisfiskarnir eru elskendur. Þeir eru tilfinninganæmir og ljúfir. Þeir eru yfirleitt fyrri til að stofna til nýrra kynna. Þeir eru duglegir við að fela ástríður sýnar og gera það af mikilli þolinmæði :).
Tígrar eru fæddir til að stjórna. Þetta gefur þeim vald sem mörgum finnst erfitt að standast. Þeir eru aðlaðandi og skemmtilegir en missa þó aldrei sjónar á takmörkum sínum eða hinni miklu stjórnsemi.
Tilvalin störf: Frumkvöðull, Herstjóri, Stjórnmálamaður, Tónlistarmaður, Rithöfundur, Skáld, Leikstjóri (í leikhúsi), Verðbréfasali, Kvikmyndastjarna, Verkalýðsforingi, Forstjóri.
...
Krummi (Snákur og Bogmaður):
Menn í þessum merkjum vinna hörðum höndum að öllu sem þeir stefna að. Þeir hafa, hægt en örugglega, byggt orðspor sitt á virðingu og á afrekum sínum. Þeir eru mjög þolinmóðir,óg bíða gjarnan eftir því sem þeir girnast. Þeir eru heiðarlegir og sanngjarnir í óskum sínum.
Tilvalin störf: Prófessor, Málamaður, Kennari, Sálfræðingur, Geðlæknir, Stjörnufræðingur, Miðill, stjórnandi almannatengsla, innanhúshönnuður.
...
Nói (Hani og Bogmaður):
Menn í þessum merkjum eru yfirleitt mjög kátir og heimspekilega þenkjandi. Þeir eru hressir sem hjálpar þeim við að halda þeim síkátum. Þeir eru þekktir fyrir góðmennsku sína og þeir eiga það líka til að taka klaufalega til orða ("they have the tendency to talk with their feet in their mouths!!!! - hihi Nói er alltaf með lappirnar uppi í sér - rífur sig alltaf úr sokkunum til að framkvæma þessa aðgerð)
Tilvalin störf: Sölumaður, Veitingahúsaeigandi, Hárgreiðslumaður, Bóndi, Þjónn, Fréttamaður, Tannlæknir, Slökkviliðsmaður, Öryggisvörður, Lögreglustjóri.
...
Gunni og Tóta (the love scope):
Tveir snákar parast vel saman þar sem að þeir eru jafn óöruggir á sömu sviðum í lífinu, þannig geta þeir róað hvorn annan. Sem elskendur ættu þeir að eiga afar nautnafullar og fullnægjandi samband.
Einkunin 80% er gefin þessu sambandi
Þá hafið þið það !!!!
knús og kossar á góðum sunnudegi
Tótlan
p.s Ef þið viljið kanna framtíð ykkar og ágætu persónusköpun:
http://astro-services.com/chineseastro/match.php
Mánudagur, 28. ágúst 2006
Dútl og dúllerí
Sökum ótrúlegrar veðurblíðu á austurhluta landsins eru enn kassar og óteljandi verkefni eftir hérna í íbúðinni..... það er svo sem í lagi - við erum komin HEIM!!!! Krakkar og fullorðnir búnir að róa sig niður - og allir tilbúnir að takast á við rútínulíf vetursins. Krakkalýsið er á borðum og stendur stolt við hliðiná rjúkandi hafragrautnum - það verður að segjast að við njótum þeirra forréttinda núna að húsfreyjan (ég) er heimavinnandi - veit ekki hvort þetta væri svona ljúft og afslappað á morgnanna ef að við hjónin værum bæði útivinnandi og þyrftum að hendast af stað fyrir klukkan átta.....en eins og er njótum við þessara forréttinda og sumir njóta þeirra betur en aðrir ;)
Dóttir mín sagði við mig í morgun: " mamma ég vil læra á píanó eins og þú gerðir þegar þú varst stelpa - en ég vil læra svo mikið á það að ég fer í hljómsveit og verð fræg tónlistarkona - þannig að ég vil ekki vera svona bókafræðingur eins og þú heldur fræg píanókona". Ég fylltist ótrúlegu stolti við þessar fréttir - þrátt fyrir að allir vilji eignast aukaútgáfu af sjálfum sér (jájá viðurkennið það bara) þá var ég þó ekki stoltust yfir því að dóttir mín vildi verða eins og ég - heldur frekar af því að hún vildi ekki verða eins og ég. Þannig er ætlunarverk mitt á leið í rétta átt - að ala upp einstaklinga með sjálfstæða hugsun og hugmyndir byggðar á eigin löngunun. Sjálfstæðið náði að vísu ekki lengra en það að það voru tárafull augu sem kvöddu mömmu sína og litla bróðir, fyrsta skóladaginn í nýjum skóla. En þetta ávíst að herða mann - mamman var allavegna duglegri að takast á við tárin núna en fyrir ári síðan þegar mjög svipaðar aðstæður komu upp ;)´
Ég lofaði vinkonu minni að reyna að hafa allavegna eitt blogg án þess að ég væri að skammast og tíkast út í allt og alla - ég vona að ég sé að standa mig ;)
Hérna fylgir svo uppskriftin af einfaldasta pæi í heimi :
ath! það má stækka og minnka uppskriftina eftir þörfum, einnig má skipta eplunum út fyrir e-ð annað gott t.d: rabbabara, bláber, perur.....
150gr kalt smjör
150gr hveiti
150gr sykur
2-3 rauð epli
kanelsykur (eftir smekk)
salthnetur
rifið súkkulaði til skrauts
Smyrjið eldfast mót og afhýðið og skerið eplin í báta, raða eplunum fallega í mótið, stráið kanelsykrinum yfir eplin.
Myljið smérið saman við þurrefnin- dreifið yfir eplin. Stráið söxuðu súkkulaðinu og salthnetum yfir. Bakið við c.a 200 gráður þar til orðið gullinbrúnt. Borðið með þeyttum rjóma, sýrðum rjóma eða vanilluís mmmmm.......
knús og kossar
lífsglaða húsmóðirin
p.s látið mig vita hvernig bragðast ;)
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)