Færsluflokkur: Bloggar

Mæður ! Fleygið brjóstarhöldurunum

Það er árið 2006 - ekki satt!! Stundum er ég ekki alveg viss um að það sé raunin. Það virðist nefnilega vera ótrúleg vanafesta ríkjandi í sambandi við hlutverkaskipan kynjanna. Ekki misskilja mig, það er að sjálfsögðu margt sem hefur breyst úti á vinnumarkaðnum - svo má alltaf rökræða það út í hið endalausa...... en stundum er eins og tíminn hafi staðið kyrr. Tökum sem dæmi - matarboð- ég veit ekki hversu oft ég hef staðið okkur "kellur" að því að sitja umkringdar börnum og leikföngum, sitjandi á gólfinu að reyna að tala saman á meðan karlarnir eru í ró og næði að "marinera" eða bara einfaldlega að ræða heimsmálin yfir nokkrum köldum. "Biddu mömmu að hjálpa þér" er oftast viðkvæðið...eða "hvar eru allir krakkarni? leiktu við þá...."(og hvar eru krakkarnir - jú á gólfinu hjá mömmunum)

Grill syntrómið góða verður seint tekið af köllunum okkar - það er nefnilega alveg óskaplega mikilvægt að kjötinu sé snúið með réttu millibili og barbekjúsósu slett á hæfilega oft-krakkarnir eiga ekki að taka þátt í þessum prósess enda er grillið heitt og bókstaflega stórhættulegt börnum og jafnvel konum líka ;) Á meðan standa konurnar í eldhúsinu og búa til meðlætið með grillfengnum góða, sjá um krakkana og slá á þeirra hungruðu putta og vaska upp föt og diska sem færa á kjötið upp á (mér dettur oft í huga hvort barátta kynjanna myndi ekki einfaldast ef við yrðum bara að grænmetisætum- ekkert ket að bítast yfir)

En það er  að sjálfsögðu ljúft hvað stéttarbaráttan hefur gert fyrir okkur konur - og þá mæður sérstaklega .... nú geta kallarnir tekið sér fæðingarorlof næstum til jafns á við kellurnar og verið heima og passað grislingana á meðan konurnar vinna fyrir ketinu. Ég sé alltaf fleiri og fleiri kalla arka um með barnavagna hérna í Frederiksberg og þeir kunna sko að hafa það huggulegt - þeir spásséra og kíkja í búðarglugga og sitja svona flestir á kaffihúsum og lesa í góðri bók.....ég man ekki hvenær ég leit síðast í bók (held að síðasta lestrarefni hafi verið tímaritsgrein um hvernig ég átti að líta sem best út fyrir kallinn minn þrátt fyrir appelsínuhúð og slit á maga ;) en nóg um það feðurnir virðast allavegna kunna betur á það að vera í orlofi heldur en við konurnar sem sjáumst hendast um að ná í eldri börnin í skóla og leikskóla og ná í búð fyrir lokun, með úfið hárið og æluna á öxlinni.

nú er þetta blogg að verða annsi þungt og það var alls ekki ætlunin, mér finnst bara skrýtið að þrátt fyrir að við konur séum hannaðar til að bera börn og fæða og annast þau- svona allavegna fyrstu mánuðina- að þar með sé aðaláhugamál okkar að þrífa og þvo þvotta og jafnvel að vinna störf sem snúa að barnauppeldi - en þetta er hugsun dagsins og er svo sem ekkert ný hugsun í einu af mínum heilahólfum - en ég ákvað að koma henni frá mér svona í tilefni dagsins....

elsku mamma og allar aðrar mæður:

TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN og LIFI BARÁTTAN!!!!!!!!!!!!!!!!!!


Erum við kannski öll klikkuð?

Það er búið að vera einstaklega heilsusamlegt og hressandi fyrir sálina upp á síðkastið að fara út að labba með barnavagninn, sumarið er að skríða fram hérna í Frederiksberg og það er gaman að sjá framan í fólk - svona til tilbreytingar- engin treflaandlit lengur.  Og allir eru glaðir, meira að segja leigubílstjórarnir gefa manni séns til að komast yfir götuna, og gamla fólkið gefur sér tíma til að leyfa litlu kjölturökkunum sínum að nusa af umhverfinu ( það hefur annars verið frekar skondið að horfa á gamla fólkið arka áfram í vetur haldandi á tuskuhundunum sínum í slabbi og roki ). En allt þetta og svo magt fleira var ég að hugsa um þegar ég labbaði úti í góða veðrinu í gær, og þá gerðist svolítið merkilegt !! ég veit ekki hvort fólk datt á sínum tíma ofaní þættina um hana Ally Mcbeal?? ég er allavegna sek um að hafa horft á nokkra þætti með henni, en ef þið eruð samsek þá munið þið eftir lögunum sem hún átti í vandræðum með - lög sem aðeins hún heyrði og enginn annar - svona lög eftir því í hvernig stemningu hún var í..... allavegna ég var að labba og njóta veðurblíðunnar og allt var e-ð svo fallegt og gott og þá......kom lagið og ég SÖNG hátt og snjallt, svona bara inn í mér til að byrja með og svo aðeins hærra þar sem að það voru nú ekki margir á ferli og áður en ég vissi af  þá var ég farin að syngja nokkuð hátt. Þegar ég var að ljúka við hæsta tóninn (frekar laglegt þó ég segi sjálf frá - var með lokuð augun til að fíla þetta betur) og einmitt að hugsa hversu sálarhreinsandi þetta væri - ranka ég við mér við að ókunnugt andlit er alveg klesst upp að mér - þetta var eldri maður með flöskubotnagleraugu og hvítt og mikið skegg - og hann söng líka hástöfum .... hann söng bara ekki lagið mitt (hann virtist hafa verið fastur í sama stefinu nokkuð lengi þessi)

og þar sem ég rölti heim með hjartað í buksunum - því að mér brá alveg óskaplega við þessa innrás í lagið mitt - velti ég því fyrir mér hvort að maðurinn hafi verið að gera grín að mér, eða hvort hann hafi bara verið einn af þessum klikkuðu köllum sem labba um og syngja hástöfum.... og þá varð ég að viðurkenna fyrir sjálfri mér, eins og Ally vinkona þurfti að gera á sínum tíma , að ég er líklega bara jafn klikkuð og allir aðrir ;)


Dagurinn sem vorið kom

Það er rétt!!! Dagurinn í dag var sá fyrsti í mjööööög langan tíma sem ég gat stigið út úr rúminu EKKI íklædd ullarsokkum og inniskóm. Þetta er yndislegt. Vorið er loksins komið. Fuglasöngur og birta flæða yfir blómvöndinn minn sem ég hef komið fyrir út í gluggakistu og húsið ilmar af matarlykt síðan í gær. Jamm það er gott að vera til. Þetta er að sjálfsögðu aðeins augnabliks hughrif hjá mér því að áður en ég veit er fuglasöngurinn rofinn með öskri og látum hjá krökkunum og tími til kominn að henda í vél.... en það er samt komið vor, maður finnur það á óróleikanum í krökkunum - þau bíða eins og æstir kálfar að fá að hoppa út um tún - verkefni dagsin: fara út og viðra börnin !!!

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband