Rómantíkin í hversdagsleikanum

Og þá voru september og október þotinn hjá - afmæli húsráðenda búin og já meira að segja var áratuga hjónabandi fagnað í leiðinni.... hún var hætt að nenna að velta sér upp úr árafjöldanum- leið bara áfram í sæluvímu yfir ríkjandi lukku (og auka hrukku). Hún hló að eigin áætlunum - sem voru ákveðnar á sjálfan brúkaupsdaginn - þar sem hugmyndin um að endurnýja heitin í Las Vega, endurupplifa brúðkaupsferðina til Asíu eða bara  endur og hendur og badabing badabong en allt átti að vera svo auðvelt tíu árum seinna...  - það virtist vera satt og rétt allt að sem sagt var um að enginn veit sína ævina fyrr en.....

En veturinn ætlaði að taka létt af stað í höfuðborginni, smáveigis frostrósir kysstu heimilisfólkið á morgnanna en voru á undanhaldi þegar leið á daginn - þvílík fegurð  - pastellitaður himinn dag eftir dag og ekki fannst húsmóðurinni verra að rölta í gegnum miðbæinn á hverjum morgni og anda að sér miðborgara(rottu)lífinu. Og inn á milli og alltaf þegar færi gafst las hún og las - því að annars varð hugur hennar stirður og það gat brotist út í ógurlegum skapsveiflum sem bitnuðu yfirleitt á þeim nánustu. Og hún saug í sig fræðin og hugsaði "þvílík synd að eiga ekki allan tímann í heiminum til að stútera allt það sem til er" en innst inni vissi hún þó að þannig yrði hún aldrei fullkomlega sátt við lífið.... því það voru þessi litlu ólíku brotabrot sem gerðu hana að því sem hún var....

og það var þess vegna sem hann elskaði hana svona ógurlega heitt :)

 

Megi veturinn koma með öll sín gráu hár og færa okkur yl og von um öryggi.

10 ára (löggild) hamingja


Rúntur í rútínunni

Og þá var haustið gengið í garð og húsmóðirin góða farin að verma bílstjórasætið heldur mikið að henni fannst, það þurfti að skutla og sækja og bíða og bíða og bíða... pússla saman stundarskrám og ó, hvað henni fannst vitsmunum sínum misboðið með því að þurfa að eyða öllum þessum dýrmæta tíma í biðstöðu. Eða eins og Bill Cospy hafði einhvern tíman orðað það: "Eitt sinn var ég gáfumenni- svo eignaðist ég börn". Hún leit á klukkuna - aðeins örfáar mínútur í næstu sendiferð og hún ímyndaði sér að hún héti James og væri með flott yfirvaraskegg sem blakti í haustlægðinni - ætli hún gæti e-s staðar skaffað sér kaskeiti?

En allt voru þetta að sjálfsögðu lúxusvandamál miðað við þá baráttu sem flestir áttu í þessa stundina, og húsmóðirin átti stundum erfitt með að halda aftur af tárunum þegar bárust fréttir af fólki sem átti hvorki ofan í sig né án - áttu hvorki fyrir besníni til að skutlast né námskeiðum fyrir börnin sín til að skutla þeim í......

Hún í leit í aftursætin á píanósnillinginn og fimleikastjörnuna sem biðu áköf eftir að hefja nýja önn (sá stutti vildi bara fá að byrja í skóla - en þar gat húsmóðirin því miður ekki orðið við óskunum) og hún hugsaði til allrar þeirrar handavinnu í heimilisbókhaldinu sem þau hjónin voru að vinna við þessa stundina til að geta veitt börnunum sínum allt það besta til að þau gætu blómstrað og ræktað hæfileika sína.

Húsmóðirin mátti viðurkenna að hún hafði ekki mikið vit á hlutbréfakaupum, hagnaði eða vísitöluútreikningum en þegar hún sá gleðina sem skein úr áköfum augunum í aftursætinu vissi hún þarna hafði hún gert góð kaup.....

og síðan vonaðist hún eftir að Pollýanna myndi snúa við hið snarasta með haustlægðunum eða já, bara Mary Poppins....ef hún væri komin með bílpróf.


Fjórtánþúsund og níuhundruð

Fjórtánþúsundog níuhundruð

- kostar skóladót fyrir tvö grunnskólabörn, þegar búið er að endurnýta allt sem til er á heimilinu

- er upphæðin sem 5 manna fjölskyldan hefur eytt í læknaheimsóknir sl. tvo mánuðina

- er matur fyrir 5 í viku - því húsmóðirin er hagsýn og húsfaðirinn töframaður í eldhúsinu

- kosta tvenn pör af skóm og ein þunn peysa á 7 ára skólastrák

- er leikhúsferð á Kardimommubæinn ef engan á að skilja útundan

- dugar nákvæmlega fyrir pensilínskammti fyrir tvo fullorðna og eina stálpaða stúlku

- er nóg fyrir 10 orkedíum í Húsasmiðjunni- fást í öllum stærðum og gerðum

- dugar fyrir öðru sjónglerinu í gleraugu húsmóðurinnar (það gæti verið töff að vera með einglyrni)

- er c.a. árin sem mun taka þau skötuhjú að greiða upp skuldir sínar

 

......svona er Ísland í dag - sökkar feitt

p.s.

Lýsi eftir Pollýönnu - hún hvarf til Kanada eða Noregs frétti ég


Mitt í fellibylnum

Það var mikið búið að ganga á síðastliðið hálfa árið hjá litlu stórfjölskyldunni eða kannske ekkert meira en hafði gengið á síðastliðinn áratuginn (hún velti þessu stöðugt fyrir sér) en fjármálakrísan setti vitaskuld mark sitt á hið unga heimilisbókhald. Bankareikningar tæmast - fyllast ekki neitt að ráði aftur og vinna kemur og fer eins og sólin kemur upp nær örugglega aftur á morgun - og mikið hafði sólin glatt fjölskylduna og hrósað meðlimum hennar fyrir að kyssa steinana, álfana og tröllin í náttúrunni þetta sumarið jafnt sem önnur.

Húsmóðirin hafði þurft að vera frumleg í ýmsu öðru en grafískum teikningum liðinn veturinn, hafragrautur og hollusta var höfð í fyrirrúmi og allt sem ekki var lífsnauðsynlegt var látið sitja á hakanum - s.s. skorið vel við nögl - en ó, hvílík sæla þá að upplifa vorið og sumarið þar sem slakað er á höftunum og frelsið felst í öðru en að rándýrum afþreyingum borgarlífsins. 

En nú var rökkrið aftur farið að skríða inn í hugarfylgsni húsmóðurinnar og smátt og smátt fór hún að undirbúa átök næsta veturs....efins um eigin mátt.


11 ára yndismey

Og þá var enn eitt afmælið liðið - og litla stelpan þeirra orðin 11 ára - sjálfstæð og falleg. Hún mundi eftir óttanum í augum á heimilisföðursins þegar hún neitaði að koma í heiminn, litla Góan, hún hefur alltaf verið þrjósk ;)  - og svo ákvað hún að birtast - pínulítil - og svörtu stingandi augun sem horfðu djúpt í hennar, (húsmóðirin hafði e-s staðar lesið að börn sem fæðast í þennan heim með galopin augun væru gamlar sálir)-  "ég veit betur" sögðu þau allavegna við hana og hún trúði henni.

Elsku Góa okkar, til hamingju með afmælið, það er erfitt að ímynda sér að þú hafir einu sinni verið svona lítil - því í augum okkar hefurðu alltaf verið stór. Góa


Gleðileg jól og farsælt nýtt ár!!!!

Megi gæfa og gleði fylgja ykkur inn í framtíðina,

megi hlýja og kærleikur umvefja ykkur og benda öllu svartnætti á brott. 

 

 Ó je


Loxins 7!

krummi_7ara.jpgOg þá kom að því, 7 ára varð prinsinn loksins - stóri strákurinn hennar sem með örvæntingu í augum hafði farið í hvert afmælið af öðru síðan í sumar, ALLIR voru orðnir sjö ára nema hann (húsmóðirin horfði vingjarnlega á drenginn sinn og bjó sig undir skammaræðu næsta áratuginn..."hvað voruð þið að hugsa veistu hvað er óréttlátt að fá ekki bílpróf fyrr en í desember" ;)

En stundinn rann að sjálfsögðu upp og stoltur vakti morgunhaninn heimilisfólkið fyrir allar aldir á afmælisdeginum sínum, heimtaði sömu lúxusmeðferð og keisarinn, bróðir hans, hafði fengið nokkrum dögum áður. Það var þó ljúf sú staðreynd að vera mun eldri en keisarinn. 

Og hún knúsaði litla strákinn sinn og sagði honum, í hundraðasta sinn, söguna af því þegar hann kom í heiminn, uppi á tuttugustu og sjöttu hæð á Herlev hospital og hann var svo svarthærður að ekki kom til greina að barnið yrði kallaður Máni heldur leitaði Hrafninn hann upp og festist við..... og það ískraði í honum hláturinn þegar hann heyrði söguna af því þegar hann var 3ja ára og var eins og Krumminn - hafði falið allt glingur og skart og smápeninga undir dýnunni á rúminu sínu - alveg eins og skemmtilegi og bikasvarti krumminn sem er einn klárastur fugla.

...og nú var enn eitt afmælið á enda og þreyttu og sælu hjónin komu sér fyrir og voru alsæl yfir því að geta loksins haldið hátíð HEIMA.

 


Keisari í 3 ár

Keisarinn er orðinn 3ja ára! Nákvæmnismaðurinn mikli sem kom í heiminn þann 9. desember á Frederiksbergspítala árið 2005 - (og ætlaði að fæðast í herberginu sem sjálf Margkeisarinnrét Danadrottning hafði fæðst áratugum áður- en ákvað síðan að koma frekar með stæl keisaranna og birtist ákkúrat kl: 1234 daginn sem ljósmóðir og ýmsir útreikningar höfðu úthlutað honum - utroligt! sögðu ljósmæður og starfsfólk spítalans).

Húsmóðirin var ekki viss með  nákvæmnisáráttuna en vissi að hér fór mikill karakter líkt og öll hennar börn. Forseti, bankastjóri, læknir eða lögga - já drengnum yrði allt til lista lagt - innst inni vissu þó foreldrarnir að það mikilvægast hlyti að vera hamingjufundurinn og gleðin sem skein af barninu - með hamingjuna í farteskinu er nefnilega allt mögulegt :) 

Til hamingju Þorgrímur Nói - 3 ára!!!!!

 

 


Af bókabílum og Royalbúðingum.

Sama hvað húsmóðirin reyndi að sökkva sér ofan í svartsýnisspár og niðurdrepandi fréttaflutninga, þá varð hún að viðurkenna að öllum í kringum hana leið barasta ágætlega. Auðvitað var framtíðin óskýr og kannski ekki vitund björt og já, húsnæðislánið nú ekki tekið til næstu 40 ára heldur til næstu 70 - en e-n veginn var það eins og þungu fargi væri lyft af húsmóðurinni - svona líkt og þegar blaðran loksins springur hjá barninu sem hefur verið að þenja hana út. 

Allt í einu voru tengslin við ræturnar orðnar skýrari í þessi krepputali öllu - þó má ekki skilja það þannig  að húsmóðirin hafi alist upp við slæman kost eða skort - þvert á móti, en nú voru ýmis gömul gildi farin að skjóta upp kollinum - nostalgíuferðin ætlaði engan enda að taka.

Og ungu hjónin lygndu aftur augunum og nutu þess að rifja upp æsku sína fyrir börnunum sínu. 

Og það þurfti ekki mikið til að kalla þessar minningar fram. Lyktin af Royal karamellubúðingsduftinu hafði t.d. ótrúleg áhrif á sálartetrið þessa dagana, og áður en húsmóðurin gat við það ráðið ferðaðist hugur hennar áratugi aftur í tímann - allaleið í bókabílinn fyrir utan Gunnlaugsbúð í Grafarvoginum, hún gat enn fundið fyrir eftirvæntingunni þegar hún leit þar inn í fyrsta sinn, stútfullur bíll af bókum - þvílík snilld! Og hún gat ekki beðið eftir að fá að lesa þær allar, bækur eins og "Franskbrauð með sultu", "Pollýanna" og "Elías" og og og -  og strjúka yfir hverja blaðsíðu og kynnast öllum þeim ótrúlegu persónum sem kveiktu í ímyndunaraflinu....

Hún leit yfir bókasafnið (þar sem hún beið eftir heimasætunni úr tónfræðitíma) og þar mættu henni eitt par af augum svo lík hennar....og hún kannaðist við eftirvæntingarsvipinn þegar úfinn, bráðum 7 ára kollurinn grúfði sig aftur yfir bókina - og þá rann það upp fyrir henni - að framtíðin væri í öruggum höndum.

 


9 ár í h(n)appheldu

gunni_tota_9ara_707281.jpgHúsmóðirin var rétt eins og flest annað fólk að reyna að átta sig á stöðunni. Peningafyllerí örfárra nýríkra Íslendinga var allt í einu orðin að ábyrgð hvers heimilis í landinu - hún leit yfir ríkulegan barnahópinn sinn og áttaði sig á því að þrátt fyrir mikinn hagvöxt í þeim málum - þá myndið Ríkið engan veginn taka tillit til þess framlags.

En e-n veginn hélt lífið nú áfram - því lífið snýst ekki eftir hjóli atvinnulífsins - heldur eftir skilmálum náttúrunnar, og sólin kemur upp og nótt og dagur mætast og börnin halda áfram að vaxa og þroskast og árin að bætast við safn minninganna.

Henni fannst það hafa gerst í gær - þegar þau stigu upp að altarinu -svolítið stressuð og svolítið flissandi yfir þessu stússi öllu - á leið til Danmerkur í nám og algjörlega óviss um hvað framtíðin bæri í skauti sér...

...nema eitt - og það var víst - þau myndu snúa aftur HEIM  - og byggja þar bjarta framtíð um aldur og ævi - börnum sínum til heilla. 

9 ára gömlu brúðhjónin sem höfðu hjúfrað sig saman í sófanum, gengu nú hringinn um íbúðina til að slökkva öll ljós og breiða yfir unga.

Og í eitt örstutt augnablik fannst þeim eins og þau ættu allan heiminn. kur.jpg


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband