Minningar(snjó)korn

Húsmóðirin leit ítrekað á dagatalið - jú það var kominn maí, að vísu voru þessir margómuðu veðurguðir ekki alveg sammála því yndisleg dúnmjúk snjódrífan var aftur búin að breiða úr sér yfir Austurlandið góða. Þetta var auðvitað alveg úr takt við vorið og blómann sem hafði legið í loftinu undanfarnar vikur - en húsmóðirin reyndi að láta þetta ekki koma sér úr jafnvægi - þvert á móti þá hjálpaði veðrið og einangruninn enn frekar við að sannfæra hana um að ákvörðunin um að festa loksins rætur í höfuðstaðnum væri sú eina og rétta. 

En það útskýrði samt ekki hinn ógurlega kökk í hálsinum sem virtast fara sívaxandi þessa dagana - og næturnar urðu styttri eftir því sem fór að draga nær flutningsdeginum og draumarnir ásóttu  hana....húsmóðirin reyndi að bægja þessu frá sér og skrifaði allt saman á stress og vesen sem fylgir svona flutningsstússi.

Og nú varð hver dagur að dýrmætri minningu sem þurfti að skrásetja og geyma - og hún mundi eftir Frederiksberg fyrir 2 árum síðan - og hvernig hún hafði gengið um hverfið sitt og sogað í sig minningarnar og reynt að festa þær.... lykt, liti, stemmningu og hljóð..... en nú gat hún ekki kreist þetta fram þó hún ætti lífið að leysa. Og kannski var það ástæðan fyrir þessum gífurlega kökki í hálsinum sem reyndi að þrýsta tárunum út -  hún vissi að allt of fljótt yrði dvölin á Egilsstöðum aðeins óljóst minningarbrot sem jafnvel myndi sveipa nostalgískum ljóma um snjóþyngsli í maímánuði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá hvað tíminn líður hratt. Mér finnst þið vera nýflutt á austurlandið frá Köben og nú styttist heldur betur í að þið komið suður. Gangi ykkur vel að pakka og flytja. Hlakka til að hitta ykkur í höfuðstaðnum.

Kveðja Dröfn 

Dröfn (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband