Að búa til slátur eða að vera með slátur - það er spurningin...

Og þá var komið að því - ragnarök og heimsendir virtust sveima í kringum hið íslenska þjóðarbú og húsmóðirin var hætt að fylgjast áköf með fréttatímum og auka-fréttatímum og spjallþáttum, það var meira varið í kraft tónlistarinnar og dansinn.....og jú, ekki var hægt að stöðva hjól heimilislífsins, það þurfti að strjúka hor af nebba, skipta á bleium og finna upp á kvöldmat, þvo þvotta, sjá um að lært væri heima og þar fram eftir götunum...

...en dansinn átti enn allan hug húsmóðurinnar og það var ekki laust við að hann færi fram á ákveðnu frísvæði þar sem áhyggjur voru látnar víkja fyrir skuldafeni og dráttavöxtum enda búið að greiða fyrir dansinn dýrum dómi og því ekkert annað í stöðunnni en að yppa öxlunum upp og niður og í hálfhring yfir því og láta kroppinn takast á flug.

Hún naut þess að vera aðeins innan um aðrar þroskaðar stelpur og að tjá sig með því tungumáli sem á að vera mannskepnunni svo eðlislægt en er löngu búið að grafa yfir með orðarumsumsum og seðlum og bleðlum karlveldisins og henni datt í hug sú fáránlega hugsun hvernig heimurinn væri í dag ef konur hefðu ávallt verið við völd....

OG karlarnir áttu orðið - fyrir utan félagsmálaráðherrann (en veiklulegt hjal hennar um að hlúa að hvort öðru mátti sín einskins fyrir ofsahrópum pjeningakallanna). Og áfram halda jakkafötin að kæfa andrúmsloftið með  orðum sínum og næla sér öðru hvoru í orð að láni frá formæðrunum..... því nú var mál til komið að spara, græddur er geymdur eyrir og allt það (nema auðvitað hjá þeim sem hlustuðu óvart á ráð jakkafatanna og spöruðu eyrinn á vitlausum stöðum) og því ekki að taka slátur - slátur er íslenskt - slátur er gott - eða jafnvel að prjóna vetrarfötin og já, prjóna bara allar jólagjafirnar í ár  -

Eitt jakkafatið gekk nú svo langt að minna á það í kreppunni hér á árum áður voru KONUR iðnar við að baka bakkelsið enda dýrt að kaupa það tilbúið í bakaríum landsins og enn aðrir gengu svo langt að minnast þess að öll tölfræði sannaði nú það að á tímum erfiðleika legðust konur líka í annarskonar bakstur sem mætti sjá afraksturinn af 9 mánuðum síðar eða um það bil. Enda ekki mikið annað að gera en að reyna að stoppa í öll þau auðu göt sem blöstu nú við í borg Óttans, atvinnuhúsnæði og tóm háhýsi yfirgefin og einmana svo ekki var talað um íbúðir, einbýlishús, búðir, kringlur og bíla.

Það var ekki laust við að húsmóðurin væri reið þessa dagana - samt ekki beint svona reið eins og hún væri að fara að springa - heldur meira svona móðurlega reið út í þetta sláturpartý sem var nú í gangi...því það var greinilega ekki það sama að vera með slátur og að taka slátur.

Og hún hélt áfram að vinna sig í gegnum verkefnabunkann á meðan hún velti því fyrir sér hvað mæðrum jakkafatanna fyndis um uppátæki þeirra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að fyrirsögnin „Tori Spelling reið móður sinni,“ sem birtist í Fréttablaðinu á sínum tíma, hafi verið toppuð í 24 stundum þann 4. október síðastliðinn. Þar segir í fyrirsögn á bls. 46 - undir mynd af kórstjóra Langholtskirkju: „Kórstelpurnar eru sólgnar í slátrið.“

Spurningin er þá: Ætli umræddur kórstjóri sé jakkafatalakki ??

g.örn (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband