Af hringferðum...

Enn einn morguninn sem sólin kitlaði heimilisfólkið í nefið - þetta var auðvitað dásamlegt - að vera vakin svona fallega og ekki var það verra að finna hvernig smáfólkinu leið vel á heimilinu nýja. Og nú var kappkostað við að nota sumarblíðuna - húsmóðirin átti erfitt með að halda einbeitingunni við vinnuna þrátt fyrir að nóg var að gera svo sem á þeim bænum - og sólin hélt áfram að skína og krakkarnir áfram að skríkja og leika sér.

Og nú voru það útilegurnar sem bættust við og það voru auðvitað bara skot-túrar miðað við hringferðirnar síðastliðnu tvö ár - þar sem vegalengdirnar og 1400 kílómetrarnir höfðu öðlast nostalgískan ljóma nú þegar í huga húsmóðurinnar "já, manstu þegar við skutums rétt í helgarferðina forðum ahhhahah - já mikið var maður klikkaður". 

OG hugmyndirnar hrönnuðust upp.... varðandi húsið og verkefni og vinnu og verkefni og sparnað og verkefni og börn og verkefni og það var ekki laust við að húsmóðurinni féllust hendur yfir öllum þessu verkum og verkjaði í hugarfylgsnin yfir að reyna að nótera þetta allt saman niður - því nú a tímum gagnasöfnunnar og Goggle var nær ómögulegt að halda utan um allar þessar flæðandi hugmyndir og upplýsingar. 

Hún leit í aftursætið á bílnum - sá yngsti var loksins hættur að kvarta yfir þessum eilífu stoppum á umferðaljósunum og sá í miðið var hættur að finnast hann vera að hringsnúast á þessum endalausu hringtorgum enda ekki vanur svona stuttum hringferðum. Húsmóðirin hækkaði í útvarpinu og söng klökkum hálsi undir söng Óðins Valdimarssonar  ..."því ég eeeeeer kominn heiiiim"

...og hún blikkaði Esjuna í baksýnisspeglinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband